131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:24]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég gat um áðan liggur ekkert enn þá fyrir um aðrar framkvæmdir sem við munum hægja á. Hins vegar er alveg ljóst að samgönguráðherra hefur haft úr verulega miklum fjármunum að spila vegna samgöngumannvirkja. Jafnframt liggur ljóst fyrir að mjög mörg verk hafa ekki komist af stað, annars vegar vegna þess að mikill tími hefur farið í umhverfismat og í einhverjum tilvikum hafa sveitarfélög stöðvað framkvæmdir vegna þess að framkvæmdaleyfið hafði ekki verið veitt. Það er kannski innlegg í þá erfiðu vinnu hjá samgönguráðherra að gera tillögur um frestun framkvæmda. Það er t.d. alveg ljóst að það verður ekki farið í það stóra verkefni sem við höfðum gert ráð fyrir, sem er mislæg gatnamót á mörkum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Hér er því um ýmislegt að ræða.

Það liggur sem sagt ekki fyrir hvaða framkvæmdum við munum hægja á að öðru leyti en þeim göngum sem ég nefndi fyrr.