131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:35]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur fram hjá hæstv. ráðherra að hækkun skráningargjaldanna í háskólann er samkvæmt ósk stofnunarinnar. Hæstv. ráðherra fullyrðir að hér sé um raunkostnað að ræða og við skulum vona að svo sé því að ef ég man rétt gera lögin einmitt ráð fyrir að þetta gjald megi ekki vera hærra en það sem kemur á móti kostnaði. Yfir þetta verður að sjálfsögðu farið mjög vel í fjárlaganefnd vegna þess að þetta er ótrúlega mikil hækkun ef þarna er eingöngu um að ræða aukinn kostnað og verðbætur. Þetta er auðvitað alveg ótrúlega mikil hækkun miðað við það og auðvitað spurning í hverju þessi aukni kostnaður felst.

Um reiknilíkanið, hæstv. ráðherra, held ég að ég geti alveg verið sammála, að það sé ágætt mál að ráðuneytin fari saman yfir reiknilíkan framhaldsskólanna og þó fyrr hefði verið vegna þess að mjög oft er búið að benda á að ákveðnar veilur eru í því líkani sem þarf mjög nauðsynlega að fara yfir og bæta. Ég vona auðvitað að þegar fleiri koma að verkinu séu meiri líkur á því að rétt niðurstaða fáist.

Ég hafði ekki síður áhuga því — ég vona að hæstv. ráðherra komist yfir það í seinna andsvari sínu að svara mér um nemendatölurnar í framhaldsskólum og háskólum, þ.e. á hve traustum grunni þær byggja og hvort beitt hafi verið sömu aðferðum varðandi útreikninga í fjárlagafrumvarpinu og gert er í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir yfirstandandi ár, þ.e. til að ná einhverri tilsettri tölu er meðalkostnaðurinn lækkaður til að geta hafa sagst mætt auknum nemendafjölda.