131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:40]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra náði því miður ekki að svara öllum spurningum mínum og var kannski ekki hægt að búast við því á jafnstuttum tíma en það verður bara til þess að við munum fara betur yfir þau mál í fjárlaganefndinni. Það er vissulega rétt hjá hæstv. ráðherra að það er auðvitað mjög margt jákvætt við reiknilíkanið og helstu kostir þess eru þeir að það átti að vera hægt að sjá í gegnum það hvernig fjárveitingar færu fram en því miður hefur það ekki ræst algerlega. Ég vona að þegar Hagfræðistofnun Háskólans er komin inn í þetta með ráðuneytunum báðum skili það því að niðurstöður verði betri og við náum betra reiknilíkani.

Ég tók eftir í sambandi við nemendatöluna að hæstv. ráðherra svaraði því ekki varðandi háskólann heldur hélt sig fyrst og fremst við framhaldsskólann og svaraði heldur ekki því, og það þótti mér mjög miður, hvort notuð væri sama reikniaðferð og við fjáraukalögin, þ.e. að lækka meðaltalskostnaðinn til þess að ná niður einhverri tölu. Einnig tók ég eftir að hæstv. ráðherra lagði ekkert út af þeim texta sem ég las úr fjárlagafrumvarpinu, þ.e. að markmiðið með endurskoðuninni væri að útgjöld skólanna væru í samræmi við fjárveitingar í fjárlögum. Ég dreg því þá ályktun að hæstv. ráðherra sé sammála mér í túlkuninni, þ.e. að fram að þessu hafi útgjöld skólanna ekki verið í samræmi við fjárveitingar í fjárlögum.