131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[19:02]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Herra forseti. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson velti fyrir sér áhrifum framkvæmda í samgöngumálum á atvinnustigið og verðlagsþróunina í landinu og það er ekki óeðlilegt að við förum yfir það en ég gat þess fyrr í þessari umræðu í andsvari að mikilvægt væri að taka tillit til þess. Það var hægt á framkvæmdum á þessu ári í þeim tilgangi að taka tillit til verðlagsþróunar og ég tel að það hafi verið hárrétt ákvörðun. Auðvitað er það svo að samgönguráðherra á hverjum tíma vill auðvitað hafa sem mesta fjármuni til framkvæmda og það gildir um þann sem hér stendur.

Eins og hv. þingmenn þekkja þá er það svo að í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2005 sem hér er til umræðu gerum við ráð fyrir því að til vegamála gangi 13,2 milljarðar á næsta ári, reyndar til vega- og umferðarmála, og á þessu ári er um að ræða 13,6 milljarða. Síðan gerum við ráð fyrir því í langtímaáætluninni að aðeins sé dregið úr fjárveitingunni á árinu 2006 en hún síðan aukin upp í 16,7 til 16,8 milljarða á árinu 2007 og 2008. Þannig að í samgönguáætluninni sem gerð verður til næstu fjögurra ára á þetta að jafnast út og þau áform sem samgönguáætlunin gerði ráð fyrir um framkvæmdastig helst, en það álít ég vera mikilvægast, en aðalatriðið er auðvitað að áform okkar í samgönguáætluninni nái fram að ganga.

Við sem höfum verið lengi í stjórnmálum vitum að það þarf stundum að horfa langt fram í tímann þegar verið er að leggja á ráðin um stórframkvæmdir og það á við núna.

Aðeins vegna þess sem hv. þm. velti fyrir sér, hvort það væri þensluástand í tilteknum landshlutum vegna samgöngumannvirkja, þá vil ég minna á að landið er allt eitt vinnusvæði, einn vinnumarkaður þegar við lítum á verktakastarfsemina í jarðvinnuverktöku og mannvirkjagerð. Verktakar fara þvers og kruss um landið, verktakar úr Kópavogi, frá Ísafirði og verktakar héðan af höfuðborgarsvæðinu eru vinnandi austur um land við jarðgangagerð m.a. og verktakar af Héraði fara hingað suður á bóginn og þess vegna er ekki hægt að segja að einstakar framkvæmdir hafi meiri áhrif á vinnumarkað og efnahagslíf í einum landshluta fremur en öðrum. Ég legg áherslu á að við verðum að líta á landið sem eina heild þegar við erum að fjalla um fjárlög fyrir næsta ár og framkvæmdaáform okkar þá.

Hv. þm. spurði hversu margir ynnu við jarðgangagerð í göngunum milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar og ég get upplýst það að þegar unnið var við að bora þar í gegn þá voru um 90 manns að verki hjá verktakanum og nú þegar búið er að slá í gegn og unnið er að frágangi aðkomu gangamunnans og öðru þá eru 60 manns vinnandi þar. Þess utan starfa auðvitað margir á vegum fyrirtækisins sem tengjast þessum framkvæmdum en eins og við þekkjum sinna margs konar fyrirtæki þjónustu við svo stórt verk. Framkvæmd eins og jarðgangagerð hefur því heilmikil áhrif inni í okkar litla hagkerfi. Það er búið að slá í gegn í Fáskrúðsfjarðargöngunum. Næsta föstudag stendur til að gera slíkt hið sama í göngunum um Almannaskarð og það eru ánægjuleg tíðindi. Við sjáum nú fyrir endann á feiknalega mikilvægum framkvæmdum í samgöngukerfi okkar Íslendinga og á næsta ári má segja að ævintýralegar bætur hafi orðið í samgöngumálum á Austurlandi. Austfirðingar hljóta að fagna því alveg sérstaklega eins og raunar allir landsmenn því að þetta snýst um að bæta samgöngukerfi allra landsmanna.

Ég held að ekki sé ástæða til að hafa fleiri orð um þetta við þessa umræðu. Ég fagna jákvæðri afstöðu sem fram kemur í ræðu þingmanna til framkvæmda á sviði samgöngumála og vænti góðs samstarfs við þingmenn í öllum kjördæmum þegar kemur að því að afgreiða samgönguáætlunina sem byggir á þeim fjármunum sem við höfum úr að spila í kjölfar fjárlaga ársins 2005 og langtímaáætlunar fyrir árin þrjú þar á eftir.