131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[19:10]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er að satt að segja ekki erfitt verk að valda hv. þm. Jóhanni Ársælssyni vonbrigðum í umræðum um þau málefni sem hér eru á dagskrá. En áhyggjur hans af hugsanlegu framhaldi framkvæmda í stóriðju held ég að séu ástæðulausar að svo komnu máli. Ég sé hins vegar ekki, þrátt fyrir hinn mikla áhuga sem er fyrir því að fjárfesta á Íslandi og til að nýta orkuna sem við höfum upp á að bjóða, þá sé ég ekki að í farvatninu séu neinar ámóta framkvæmdir á sviði orkuvinnslu og stóriðju eins og þær sem eru í gangi í dag. Þannig að þó að af stað færu frekari virkjunarframkvæmdir þá tel ég engar líkur á því að það hafi þau áhrif að við þurfum að bregðast við núna gagnvart samgöngumannvirkjunum og uppbyggingu þeirra. Ég er því býsna bjartsýnn á að okkur takist að halda áfram að byggja samgöngumannvirkin á Íslandi hratt og örugglega upp og samgönguáætlunin verði endurskoðuð í vetur og við munum þá fara í þessa umræðu í ljósi þeirra aðstæðna sem við búum við eftir að við höfum afgreitt fjárlög fyrir þetta ár. Ég held að engin ástæða sé fyrir hv. þm. Jóhann Ársælsson til að hafa þær áhyggjur sem hann hefur núna. Slíkar framkvæmdir í stóriðju og orkufrekum iðnaði eru mannvirkjagerð sem hefur langan aðdraganda, við þekkjum það, og ég geri ráð fyrir því að okkur takist að setja af stað þær framkvæmdir í vegamálum sem við höfum stefnt að samkvæmt núgildandi áætlun.