131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[19:18]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Komið er að lokum 1. umr. um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2005. Ég vil þakka þingmönnum fyrir þátttöku í henni og tel að umræðurnar hafi um margt verið málefnalegar og athyglisverðar. Auðvitað hefur margt borið á góma eins og eðlilegt er þegar fjallað er um frumvarpið með almennum hætti eins og vera ber við 1. umr. Sum þeirra mála sem hér hafa verið nefnd eru þó þess eðlis að þau verða betur rædd síðar við önnur tækifæri. Vil ég þar sérstaklega nefna skattamálin en um þau verður flutt sérstakt frumvarp fljótlega þar sem gefst tækifæri til að ræða þau mál ítarlega og vonandi frá öllum hliðum.

Hvað varðar samskipti ríkis og sveitarfélaga þá hefur það einnig komið fram hjá hæstv. félagsmálaráðherra og öðrum ræðumönnum hér að þau mál eru í sérstökum farvegi, þau eru núna í vinnslu í samstarfi milli ríkis og Sambands sveitarfélaga, hafa reyndar verið það frá því skömmu eftir að núverandi ríkisstjórn tók við. Þá fóru í gang nokkrar samstarfsnefndir sem síðan hafa verið að vinna úr sínum málum en nýlega undirrituðum við félagsmálaráðherra ásamt forustumönnum Sambands sveitarfélaga viljayfirlýsingu um áframhald þess starfs. Þar horfa menn fram á veginn um það hvernig styrkja megi stöðu sveitarfélaganna, ekki síst þeirra sem lakasta stöðu hafa. Það er alveg ljóst að staða sveitarfélaganna er mjög misjöfn innbyrðis og þar kemur ekki síst til skoðunar hvert eigi að vera hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og hvort núverandi staða kalli á breytingar með tilliti til þess.

Mér finnst hins vegar dálítið hvimleitt að heyra sí og æ, bæði í þingsalnum og annars staðar, vitnað til mála sem er löngu búið að gera samkomulag um eins og t.d. húsaleigubótanna. Þar höfum við a.m.k. tvisvar sinnum undirritað samkomulag um að hin gamla skipting á grundvelli hlutfallanna 40:60 á ekkert lengur við. Samt heyrir maður sveitarstjórnarmenn ítrekað tala um þetta og maður heyrir enduróm af því í sölum Alþingis. Ég nefni þetta bara sem dæmi um eitt af því sem hefur komið fram í dag. En við munum ræða þau mál betur á vettvangi þingsins og hugsanlega strax síðar í þessari viku.

Nokkrir þingmenn nefndu til sögunnar snemma í umræðunni skýrslu Ríkisendurskoðunar frá síðasta sumri. Ég hafði hálfpartinn gert mér vonir um að þeirri skýrslu yrði ekki blandað hér í umræðuna vegna þess að á þeirri skýrslu voru efnislegir ágallar og því miður alvarlegir ágallar sem við bentum á í fjármálaráðuneytinu. Ég ætla ekki að gera meira mál úr því en gert var í sumar. Við rituðum bréf til Ríkisendurskoðunar sem viðurkenndi mistök á ákveðnum stöðum, sem auðvitað var drengilegt af þeirra hálfu að gera, og skal ég ekki hafa fleiri orð um það. Það er hins vegar mjög röng og villandi og fáránleg túlkun að gera því skóna að fjármálaráðuneytið standi ekki með Ríkisendurskoðun þegar gerðar eru athugasemdir við að stofnanir fari fram úr. Það er auðvitað ekki boðlegur málflutningur að halda því fram að fjármálaráðherra verji framúrkeyrslu stofnana gagnvart þeim sjálfum og þá væntanlega gagnvart öllum þeim kröfum, m.a. hér í þinginu, þegar menn koma og heimta meiri peninga til hinna og þessara málaflokka. Það er auðvitað ekki boðlegt að halda því fram og stilla mönnum þannig upp í þeirri verkaskiptingu sem er eðlilega fyrir hendi. Ég er iðulega sakaður um það í þingsölum að standa gegn því að stofnanir fái eðlilega fjárveitingu og er svo með þessum hætti sakaður um að standa með framúrkeyrslunni, meira að segja af aðilum úr sama flokki.

Það fer reyndar líka pínulítið fyrir brjóstið á mér hvernig menn haga stundum orðum sínum í þessari umræðu þó að hún hafi ekki verið mjög frábrugðin því sem tíðkast hefur. Menn bregða hér gjarnan upp orðaleppum eins „fagurgala“, „glansmynd“, „guma af“, „hreykja sér af“, „mont“ og „hroki“ og þess háttar sem er mjög óviðeigandi þegar menn eru að fjalla um alvarleg mál að tengja þau með einhverjum hætti slíkum orðum eða jafnvel tilteknum einstaklingum sem koma fram í þessari umræðu.

Einn hv. þingmaður fór hér mikinn varðandi uppgjörsmálin, sem ég gerði að alvarlegu umtalsefni í framsögu minni. Því miður verð ég að segja að málflutningur hans var ekki bara barnalegur, eins og maður hefði kannski getað skilið, heldur ómerkilegur. Það er hægt að skilja það þegar ungir blaðamenn fá í hendur efni sem þeir hafa kannski ekki full tök á að þeir geri mistök en það er alvarlegra mál þegar þingmenn sem eiga að hafa allar upplýsingar í höndunum gera sig seka um slíkan málflutning, sérstaklega eftir að þeim hefur verið bent á hvar mistök liggja eða rangtúlkanir.

Við breyttum lögum 1996–1997 um fjárreiður ríkisins. Árið 1997 voru þau samþykkt. Þá var horfið af greiðslugrunni hvað varðar fjárlögin yfir á rekstrargrunn og þar með var búinn til sambærilegur grundvöllur fyrir flestar stofnanir um að það væri hægt að bera saman fjárlög og ríkisreikning. Það þýðir ekki að heildarmyndin varðandi óreglulega liði alla saman væri sambærileg, því miður. Ég hafði barist fyrir því í mörg ár, ég var yfirskoðunarmaður ríkisreiknings í fjögur ár og benti á það á hverju ári að það væri óviðunandi að gagnvart einstökum stofnunum væru þessir tveir uppgjörgrundvellir ósambærilegir. Svo var því breytt.

Það breytir svo ekki því sem ég rakti hér nákvæmlega í morgun að hvað varðar óreglulega liði er ógerningur að segja fyrir hvernig þeir muni þróast. Dæmi: Fyrir síðasta uppgjör eða uppgjör ríkisreiknings 2002 var ákveðið af aðilum sem að öðru leyti komu ekki nálægt þessum málum að leggja til grundvallar í uppgjöri lífeyrisreikninga breyttar lífslíkur, sem hafði auðvitað þau áhrif að færa varð til gjalda mun hærri fjárhæðir en áður hafði verið reiknað með sakir þess að ævilíkur höfðu lengst og þar með fyrirsjáanlegur kostnaður af skuldbindingum ríkissjóðs í lífeyrismálum. Var þetta hlutur sem núverandi fjármálaráðherra átti af hyggjuviti sínu og visku að sjá fyrir? Hvernig getur mönnum dottið í hug að halda því fram að það hefði átt að vera fyrirsjáanlegt atriði sem hefði átt að koma inn í fjárlög þess árs?

Ég gat um það í fyrstu ræðu minni í dag að á einu ári, árinu 2000, hefðu verið færðir til gjalda 25 milljarðar kr. í lífeyrisskuldbindingum. Svo var því haldið fram hér í dag að það hefði bara átt að koma inn í fjárlögin fyrir það ár eða það lá í orðum viðkomandi. Auðvitað var það ekki hægt vegna þess að þetta byggðist á kjarasamningum sem var alls ekkert búið að gera og voru reyndar í þessu tilfelli ekki gerðir fyrr en á árinu 2001 en færðir til gjalda á árinu 2000, þar sem um var að ræða stórfellda aukningu í lífeyrisskuldbindingum vegna breyttrar samsetningar dagvinnulauna og heildarlauna.

Ef breyting verður í sambandi við kjarasamninga kennara núna hvað varðar grunnlaun umfram það sem almennt gerist mun það hafa áhrif á lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs sem er ábyrgur fyrir B-deildinni þar sem kennararnir eru með réttindi sín. Nú veit ég auðvitað ekkert hvernig það endar en ef það gerist er það þá skammsýni fjármálaráðherra við fjárlagagerð fyrir árið 2004 að hafa ekki séð slíka breytingu fyrir? Ja, það er það sem hér var verið að halda fram. Það er alveg ótrúlegt eftir að búið er að fara yfir þessa hluti jafnoft og raun ber vitni fyrir fólki í þinginu og annars staðar að þessi málflutningur skuli vera uppi á borðum.

Menn verða bara að gjöra svo vel að sætta sig við þetta. Því miður er uppgjörsgrundvöllurinn eins og hann er núna ófullkominn hvað þetta varðar. Getum við fundið einhverja leið til að bæta úr því? Það er hugsanlegt. Það er hægt að fara með þetta allt yfir á svokallað þjóðhagsreikningauppgjör Sameinuðu þjóðanna sem allar alþjóðlegar stofnanir nota og mörg erlend ríki og þá eru teknar út allar svona skuldbindingar og allar tekjur af söluhagnaði eigna. Það er sem sagt gert sem við gerum hér og ég rakti í framsöguræðu minni. Við tökum ríkisreikninginn á rekstrargrunni og drögum frá þessa óreglulegu liði. Þá nálgumst við þetta samræmda alþjóðlega uppgjör sem notað er á vegum Sameinuðu þjóðanna og víðar og sem þeir aðilar nota sem greina ástandið á Íslandi af hinum alþjóðlegu stofnunum, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, OECD og lánshæfismatsfyrirtækin, sem sjá í gegnum allt það sem verið er að segja hér þegar þau gefa okkur mat og einkunnir. Enda hvernig væri hægt að stilla Íslandi í efsta flokk meðal þjóða hvað varðar lánshæfi ef ríkisfjármálum væri svo komið eins og hér er verið að reyna að gefa í skyn? Hvernig væri það hægt? Og hvernig gætu menn þá, sem eru alvanir því að lesa út úr reikningum ýmissa landa og bera saman, pælt sig í gegnum þetta ef það væri sannleikur sem verið er að bera á borð fyrir fólk af hálfu Samfylkingarinnar hvað þetta varðar og í Fréttablaðinu t.d. sl. laugardag?

En sem betur fer er það svo að það sem sagt er um þessi mál af slíkum aðilum hefur enga þýðingu.

Það eina sem hefur þýðingu er það hvernig slíkir aðilar sem fara í gegnum þessi mál lesa úr þeim eftir að þeir eru búnir að fletta þessu öllu frá eins og ég var að reyna að gera í framsöguræðu minni í dag. Þá kemur í ljós að afgangurinn á ríkissjóði, að slepptum tekjum af eignum og að slepptum þessum óreglulegu liðum, er frá 1998–2003 hvorki meira né meira en 95 milljarðar. Hvernig hefðum við líka getað gert allt það sem búið er að gera nema staðan væri eitthvað þvílík?

Ég ætlaði ekki að eyða svona mörgum orðum hér í lokin í þetta en það er því miður óhjákvæmilegt með tilliti til þess sem fram kom í ræðu sumra þingmanna í dag. Reyndar á að vera óþarfi að tala um þetta þegar við erum að ræða hér um fjárlög ríkisins. Menn eiga að hafa þetta á hreinu, sérstaklega í þessum sal, sérstaklega þeir sem sitja í fjárlaganefnd, sérstaklega sérstakir áhugamenn um ríkisfjármál og þeir sem tjá sig um þau á opinberum vettvangi.

Eins og ég segi skiptir ekki máli hvað menn segja í skvaldurþáttum og rabbþáttum í útvarpi og sjónvarpi um þessi mál, jafnvel ekki hvað menn segja um þetta með þeim hætti sem ég hef hér rakið, það er hin blákalda niðurstaða sem skiptir máli þegar menn hafa greint kjarnann frá hisminu í þessu öllu saman.

Ég ætla ekki að fara nánar yfir einstaka atriði í frumvarpinu. Aðrir ráðherrar eru búnir að gera það í löngu máli. Það er sjálfsagt ýmislegt sem þarf að fara betur í saumana á í starfi fjárlaganefndar. Ég óska henni alls góðs í störfum sínum.

Ég ítreka það sem áður er fram komið og segir í þeim skjölum sem fylgja fjárlagafrumvarpinu að meginniðurstaða þess og langtímaáætlunarinnar er að áfram mun ríkja stöðugleiki í efnahagslífinu þrátt fyrir aukin umsvif vegna stóriðjuframkvæmda og aukna erlenda eftirspurn, m.a. vegna breyttra aðstæðna á íbúðalánamarkaði. Sú aðhaldssama stefna í ríkisfjármálum sem hér er gengið út frá skapar jafnframt svigrúm til lækkunar skatta í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar án þess að raska meginmarkmiðum efnahagsstefnunnar um stöðugleika.

Það er mikilvæg forsenda alls þessa að við fylgjum eftir þeim aðhaldsmarkmiðum í ríkisfjármálastefnunni sem hér hefur verið rakin og lýst og sem þingmenn hafa flestir hverjir, a.m.k. í aðra röndina, lýst stuðningi við, í það minnsta þeir sem telja sig vera í ábyrgari hlutanum hér.

Ég ítreka síðan það að fjármálaráðuneytið mun að sjálfsögðu vinna eins vel og hægt er með fjárlaganefndinni. Allir starfsmenn þess eru boðnir og búnir að leggja þar sitt af mörkum. Svo treysti ég því að okkur takist að ljúka þessu máli, eins og okkur hefur tekist undanfarin ár, snemma í desember eftir að okkur tókst að láta af þeim ósið að draga afgreiðslu fjárlaga alveg fram undir jól eins og við munum sum hver hvernig var hér fyrir ekki mjög mörgum árum.