131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[19:36]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég teldi réttast að þau námskeið yrðu haldin fyrir hæstv. fjármálaráðherra í hinum tilvonandi sendiherrabústað í Berlín. Þar færi honum sennilega best að læra hvernig eigi að fara með fjármuni almennings.

Hæstv. ráðherra segir að það eigi bara að líta fram hjá óreglulegum liðum. Hvernig má það vera? Óreglulegir liðir koma til tekna og gjalda. Í óreglulegum liðum er, til að taka dæmi fyrir áheyrendur, kostnaðurinn vegna dóms Hæstaréttar í öryrkjamálinu. Er það ekki útlagður kostnaður fyrir ríkissjóð? Þar er verið að afskrifa tekjur sem var búið að tekjufæra en komu aldrei í kassann. Hefur það ekki áhrif á stöðu ríkissjóðs? Það er verið að færa lífeyrisskuldbindingar. Það má til sanns vegar færa að þær dreifist yfir lengra tímabil og má þess vegna horfa á með sérstökum augum. Engu að síður er það kostnaður sem stofnað er til og gjarnan í kjarasamningum, kjarasamningum þar sem menn láta koma fram kostnað í lífeyrisskuldbindingunni til þess að draga úr kostnaði í rekstrinum sjálfum við launin frá mánuði til mánaðar með því að auka lífeyrisréttindi manna.

Auðvitað er ekkert hægt að horfa fram hjá slíkum útgjöldum. Lífeyrisskuldbinding á næsta ári eykst um 13 milljarða. Eiga menn bara að horfa fram hjá því? Hér er verið að ofáætla tekjur af sköttum svo nemur milljörðum króna. Eiga menn bara að horfa fram hjá því? Eiga menn bara að horfa fram hjá því þegar Hæstiréttur dæmir ríkissjóð til að greiða öryrkjum bætur?

Hæstv. fjármálaráðherra. Það verður að líta á heildardæmið. Það er ekki bara hægt að sleppa þeim liðum sem ekki henta hæstv. fjármálaráðherra í samanburðinum vegna þess að þeir gera myndina 113 milljörðum verri á árunum 2000–2003 en ráðherrann lagði fram í sólskinsfrumvarpinu sínu.