131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[19:43]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki tími til að fara meira inn í þessa ágætu umræðu um uppgjörsmál og annað þess háttar. Hæstv. ráðherra fór í dag að ræða um hið ágæta rit Úr þjóðarbúskapnum og þá saknaði ég nokkurra skýringa á því sem í því stendur. Ráðherra telur greinilega þetta rit gulls ígildi og að allt sem ekki sé í samræmi við það sé áróður og til þess fallið að blekkja fólk. Þá hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra skýringa á því að í þessu riti stendur orðrétt, með leyfi forseta:

„Árið 2003 var afgangur á rekstri sveitarfélaga í fyrsta skipti frá árinu 1990.“

Í riti sveitarstjórnarmanna, Sveitarstjórnarmálum, kemur allt annað fram. Eiginlega er nauðsynlegt fyrir okkur sem erum í vanda með þessar tölur að vita hvað er rétt. Er þetta rit ráðuneytisins algjörlega óbrigðult? Er þar allt saman 100% rétt? Er þá ekkert að marka þær tölur sem eru í þessu nýjasta tölublaði Sveitarstjórnarmála þar sem fram kemur að halli sveitarfélaganna þetta sama ár hafi verið upp á 2,6 milljarða? Þarna skeikar nokkru.

Þar sem ég hef ekki forsendur fyrir reikningunum, hvorki úr hefti fjármálaráðuneytisins né úr Sveitarstjórnarmálum, vona ég að hæstv. ráðherra geti upplýst okkur um hvað veldur þessum mikla mun. Við vonum að við getum endað á ljúfum nótum um það að þar fáum við eitthvert samræmi í hlutina.