131. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2004.

afleiðingar kennaraverkfallsins fyrir þjóðlífið.

[13:44]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Sú staða sem nú er uppi í grunnskólum landsins er mjög alvarleg. Verkfall grunnskólakennara sem nú hefur staðið hátt á þriðju viku veldur miklu raski á heimilum fólks og í lífi barnanna sem nýkomin voru úr sumarleyfi er vinnudeilan hófst. Eftir því sem verkfallið dregst á langinn verður erfiðara að vinna upp þann tíma sem glatast hefur og meiri hætta á að áhrifin á námsframvinduna verði langvarandi. Menntamálaráðuneytið hefur þegar ákveðið að fresta samræmdum prófum í 4. og 7. bekk sem fara áttu fram nú um miðjan mánuðinn og er ljóst að ekki verður hægt að halda þau fyrr en a.m.k. tveimur vikum eftir að verkfalli lýkur.

Á þeim tæpa áratug sem liðinn er frá því að rekstur grunnskólans var færður yfir til sveitarfélaganna hefur margt áunnist. Sveitarfélögin hafa staðið með miklum myndarbrag að uppbyggingu og eflingu grunnskólans. Hjá því verður auðvitað ekki litið að rekstur grunnskólans vegur þungt í rekstri sveitarfélaga, ekki síst hjá minni sveitarfélögum. Það er því skiljanlegt að þau vilji stíga varlega til jarðar í kjaramálum enda ljóst að niðurstöður samninga munu hafa mikil áhrif á afkomu sveitarfélaga.

Sveitarfélögin hafa sýnt í tvígang, í kjarasamningunum árið 1997 og síðan árið 2001, að þau standa undir þeirri ábyrgð sem fylgir þessum málaflokki og ég efa ekki að þau munu á ný í samstarfi við kennara standa undir þeirri ábyrgð. Kennarar hafa lagt mikla áherslu á kjarabætur í þessum viðræðum og sú mikla harka sem hlaupin er í vinnudeiluna sýnir hversu mikill þungi liggur að baki þeim kröfum. Kennarastarfið er með mikilvægustu störfum þjóðfélagsins. Vart er hægt að hugsa sér meira ábyrgðarstarf en að vera falin umsjón með menntun barnanna okkar. Það skiptir þjóðfélagið í heild miklu máli að kennarastarfið teljist eftirsóknarvert og að fyrir því sé borin tilhlýðileg virðing.

Í síðustu kjarasamningum hafa stór skref verið stigin til að bæta kjör kennara en jafnframt er ljóst að innan raða kennarastéttarinnar er veruleg óánægja með kaup og kjör. Þótt bilið á milli deiluaðila kunni að virka breitt verða þeir að lokum að ná niðurstöðu sem er viðunandi fyrir báða. Til að það megi ganga verða báðir aðilar að slá af ýtrustu kröfum. Út á það ganga kjarasamningar.