131. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2004.

afleiðingar kennaraverkfallsins fyrir þjóðlífið.

[13:48]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eftir að sveitarfélögin tóku við grunnskólanum hafa þau eflt starf innan hans í samræmi við þarfir og kröfur nútímasamfélags þannig að þjónusta við börn og heimili og fjöldi kennslustunda hefur aukist mun meira en gert var ráð fyrir í samningum þeirra við ríkið. Framlag sveitarfélaganna til grunnskólans hefur ekki verið metið að fullu af ríkinu. Auk þess hefur komið fram í máli hæstv. menntamálaráðherra að gert er ráð fyrir að grunnskólinn axli hluta þeirrar kennslu sem nú fer fram í framhaldsskólunum.

Skólahald í landinu, sama hvaða skólastig er rætt um, er endanlega á ábyrgð ríkisins og hæstv. menntamálaráðherra getur ekki þagað þá staðreynd í hel. Góður hagur ríkissjóðs mælir með að nú verði fjárhagsleg samskipti við sveitarfélögin leiðrétt. Það er sanngjörn krafa og sennilega eina leiðin til skjótrar lausnar að ríkið viðurkenni skekkjuna í samskiptum þess og sveitarfélaganna, skekkju sem orðið hefur til vegna vanmats á ýmsum kostnaðarþáttum við lögbundin verkefni sveitarfélaganna, verkefni sem ríki og sveitarfélög hafa upphaflega samið um en ríkið síðan einhliða breytt reglum viðvíkjandi framkvæmd þeirra sveitarfélögunum í óhag með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á afkomu þeirra. Þannig koma fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga að samningum við kennara beint við. Hver dagur sem líður færir okkur fjær þeirri mynd sem við viljum sjá af íslensku samfélagi. Um það þarf ekki að hafa fleiri orð.

Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er hvort íslenska ríkið geti skorast undan þeirri ábyrgð sem það óneitanlega ber á menntamálum í landinu. Skoðun Samfylkingarinnar er að ríkisstjórnin geti ekki vikið sér undan ábyrgð sinni á málefnum grunnskólans, hvorki faglegri ábyrgð né fjárhagslegri.