131. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2004.

afleiðingar kennaraverkfallsins fyrir þjóðlífið.

[13:50]

Dagný Jónsdóttir (F):

Frú forseti. Hugtakið „mennt er máttur“ hljómar vel og hef ég hingað til ekki heyrt neinn andmæla því. Hins vegar stöndum við þessa dagana frammi fyrir því sem þjóð hvort við meinum eitthvað með þessu hugtaki.

Sem betur fer virðast samningaviðræður kennara og sveitarfélaga mjakast áfram en á meðan bitnar verkfallið á nemendum, kennurum og fjölskyldum þeirra. Enginn efast um að afleiðingar verkfalls fyrir þjóðlífið eru slæmar enda er ekki boðað til verkfalls nema í neyð.

Tíminn leyfir ekki ítarlega umræðu hér en þó vil ég segja að mér finnst vera erfið staða í kjaramálum kennara gagnvart öðrum hópum. Ástæðan er sú að talsmenn annarra hópa hafa haft uppi hótanir að ef gengið verði að launakröfum kennara muni jafnvel forsendur annarra samninga vera brostnar, og nú síðast mátti lesa í blöðum að ákveðin fyrirtæki eru að fara með starfsemi sína úr landi vegna launastefnu ríkis og sveitarfélaga, hún sé of dýr. Þetta tel ég vera afar erfiða stöðu bæði fyrir kennara og sveitarfélögin. Ég tel það mikilvægt að við horfum á heildarmyndina og fulltrúar hinna ýmsu stétta í landinu verða að svara því hvort mennt sé máttur.

Ég er ósammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni um að viðræðurnar séu í hnút. Líkt og ég sagði áðan mjakast viðræðurnar áfram og við verðum að trúa því að meðan aðilar ræða saman þá er von.