131. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2004.

afleiðingar kennaraverkfallsins fyrir þjóðlífið.

[13:52]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Tvær alvarlegar vinnudeilur eru nú háðar á Íslandi. Sjómenn heyja varnarbaráttu fyrir sjálfan grundvöll verkalýðsbaráttunnar og er ástæða til að senda þeim samstöðukveðjur. Þeir standa frammi fyrir atvinnurekendavaldi sem er að reyna að hafa af þeim samningsréttinn, brjóta sjálft fjöregg verkalýðsbaráttunnar. Barátta Sjómannasambands Íslands er barátta alls launafólks á Íslandi.

Kennaraverkfallið kemur okkur líka öllum við. Það hefur nú staðið í tvær og hálfu viku, skólarnir eru lokaðir, börn og unglingar utan veggja skólanna, kennarar eru launalausir. Deilan er í hnút, deilan er í hörðum hnút.

Það er engu að síður ljóst að engan bilbug er á kennurum að sjá. Og hvernig skyldi standa á því? Gæti verið að kennara langi til að vera áfram í verkfalli, að þá langi til að vera lengur launalausir? Nei, kennarar eru staðfastir í baráttu sinni vegna þess að þeim er misboðið til mjög langs tíma, svo misboðið að stéttin var einhuga um að boða til þessa verkfalls. Það eru skilaboð sem atvinnurekandinn verður að taka alvarlega.

Við búum í þjóðfélagi vaxandi misskiptingar. Í efstu lögunum er að finna fólk sem talar í milljörðum um eigin hagnað, fólk sem lítur á kennaralaunin nánast eins og vasapeninga. Síðan er það millitekjufólkið, efri kanturinn þar, fólk sem býr við bærileg kjör, fólk sem aldrei finnur til í eigin pyngju. Þetta er fólkið sem hneykslast á kennurum. „Eru ekki 150 þúsund alveg nóg?“

En ég spyr: Hvar er atvinnurekendaábyrgðin, ábyrgð þess sem þarf að geta ráðið gott fólk til starfa? Til þess verður að bjóða upp á launakjör sem eru eftirsóknarverð.

Nú er kominn tími til að hæstv. forsætisráðherra komist af afneitunarstiginu. Það er ein lausn á þessari deilu, það eru peningar. Sveitarfélögunum verður að tryggja fjármagn til að geta borgað starfsfólki sínu mannsæmandi laun. Ríkisvaldið er þar í skömmtunarstöðu. (Forseti hringir.) Þess vegna getur það ekki hlaupist undan ábyrgð í þessari deilu. [Klappað á þingpöllum.]