131. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2004.

afleiðingar kennaraverkfallsins fyrir þjóðlífið.

[13:55]

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég held að öllum hv. alþingismönnum sé ljós sú alvarlega staða sem er uppi í verkfalli kennara. Grunnskólarnir hafa verið lokaðir um nærfellt þriggja vikna skeið og enginn velkist í vafa um það að hér er á ferðinni óvenju erfið og illvíg deila þar sem langt hefur verið á milli samningsaðila.

Ég tek þó undir með þeim ræðumönnum hér í dag sem hafa getið þess að það að samningsaðilar sitja enn á fundum gefur okkur vissa von þó að fréttir bendi til að enn sé nokkuð langt á milli. En ég held að við verðum að treysta því að þeir aðilar sem sitja við samningaborðið geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir, sem er mikil í þessu máli, mikil gagnvart grunnskólabörnum, fjölskyldum þeirra og svo auðvitað þeim sjálfum, sveitarstjórnarmönnunum sem bera ábyrgð á fjárhag sinna sveitarfélaga og forustu kennara sem ber ábyrgð á hagsmunum umbjóðenda sinna.

Ég verð hins vegar að segja að mér finnast ákveðnir þættir í málflutningi stjórnarandstöðunnar hér í dag ekki bera vott um sömu ábyrgð. Mér finnst það ekki bera vott um ábyrgð að láta eins og það sé hægt að leysa þessa deilu með einu pennastriki. Mér finnst það ekki bera vott um ábyrgð að láta eins og ríkið geti komið inn í þetta með einhverja töfralausn á þessu stigi eða að tala þannig að gefið sé í skyn að sveitarfélögin geti þegar í stað orðið við öllum kröfum kennara og áframsent reikninginn til ríkisvaldsins. Mér finnst það ekki bera vott um ábyrgð.

Mér finnst það frekar bera vott um pólitíska tækifærismennsku en ekki pólitíska ábyrgð í þessu máli.