131. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2004.

afleiðingar kennaraverkfallsins fyrir þjóðlífið.

[13:57]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þau voru frekar nöturleg skilaboðin frá hæstv. forsætisráðherra til þjóðarinnar þegar hann flutti stefnuræðu sína hér í þessum ræðustól á mánudagskvöldið þar sem hann hélt því fram að ríkisvaldið væri ekki aðili að þessari deilu, rekstur og yfirstjórn grunnskólans í höndum sveitarfélaganna, að það væri ábyrgðarleysi af stjórnarandstöðunni að halda því fram að ríkið bæri hér einhverja ábyrgð. Hæstv. forsætisráðherra reyndi þarna að þvo hendur sínar af þessari deilu en öllum er jú ljóst að þessi kjaradeila snýst um launa- og starfskjör grunnskólakennara og einnig um þau verkefni sem voru kostnaðaráætluð við yfirtöku sveitarfélaganna á þessu verkefni, þ.e. rekstri skólanna, en því miður var það svo að nægar fjárveitingar fylgdu ekki með og þetta hafa sveitarstjórnir bent á hvað eftir annað. Margar sveitarstjórnir allt í kringum landið eru illa haldnar fjárhagslega, m.a. vegna samdráttar í atvinnulífi. Við getum litið á staði t.d. á Suðurnesjum eins og Sandgerði, við getum litið á Vestfirði, við getum litið á marga staði á Norðurlandi þar sem fólki hefur fækkað, atvinnustarfsemi hefur dregist saman og þar af leiðandi tekjustofnar sveitarfélaganna.

Þegar litið er til þessa hlýtur að vera ljóst að hér hlýtur ríkið að bera einhverja ábyrgð. Ríkið getur ekki þvegið hendur sínar af þessu, ríkisstjórnin getur ekki þvegið hendur sínar af þessu. Ég held, þó að ég hafi enga patentlausn á þessari deilu eins og hún lítur út í dag — sem ég vona að leysist sem fyrst — þá held ég að þessi deila hljóti að verða til þess að við lítum yfir og ræðum það nánar hvernig við getum farið að því að laga hlutina þannig að við lendum ekki aftur í þessari stöðu. Það er óásættanlegt á Íslandi árið 2004 að við sitjum uppi með 43 þúsund grunnskólabörn, 4.300 kennara í verkfalli vikum saman. Það gengur bara ekki.