131. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2004.

afleiðingar kennaraverkfallsins fyrir þjóðlífið.

[13:58]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Frú forseti. Það versta í pólitík er þegar menn þora ekki að horfast í augu við veruleikann. Veruleikinn í þessari deilu kennara og sveitarfélaga er eftirfarandi: Sveitarfélög eru ekki aflögufær til þess að mæta sumpart eðlilegum kröfum kennara, þau hafa ekki peninga aflögu. Ástæðan er einfaldlega sú að það er ríkisvaldið, það er Alþingi Íslendinga sem skammtar sveitarfélögunum úr hnefa.

Hinn veruleikinn er sá sem allir verða að horfast í augu við: Kennarar bera sig að sjálfsögðu saman við sambærilegar stéttir. Og hverjar eru þær? Framhaldsskólakennarar í landinu. Og hverjir hafa samið við þá? Hæstvirt ríkisstjórn, fjármálaráðherra.

Það er því algjörlega fráleitt með öllu að standa hér í þessum stól, sitja í þessum stólum hér og neita að horfast í augu við þann veruleika að ríkisstjórnin er gerandi í þessu máli.

Auðvitað geri ég mér fullkomlega grein fyrir því og það er enginn að biðja um það hér að ríkisstjórnin mæti á samningafundi og leysi þetta vandamál með því að smella fingri.

Fyrsta skrefið er að menn horfist í augu við veruleikann, beri þá ábyrgð sem þeim ber og komi að þessu verki með viljayfirlýsingu í þá veru að þeir ætli að bæta hag sveitarfélaganna. Þá væri kannski möguleiki á að sveitarfélögin gengju til þessara samninga með þann grundvöll sem þau þurfa á að halda. Þannig liggur í þessu, frú forseti.

Það er satt að segja grátlegt að fylgjast með nýjum forsætisráðherra koma á sínum fyrstu dögum í embætti og segja: Ekki ég. Hvað þá að fylgjast með nýjum menntamálaráðherra sem skilar auðu og kemur með lélega fréttaskýringu af gangi mála í verkfallinu. Með öðrum orðum þá berast engin pólitísk skilaboð. Ekki nokkur. Ekki ég, ekki ég. Svona gera menn ekki, hæstv. forsætisráðherra. [Klappað á þingpöllum.]

(Forseti (JóhS): Ég vil minna gesti á pöllum á það að það er ekki ætlast til að gestir láti með neinum hætti í ljós skoðanir sínar á ræðum þingmanna meðan þeir dvelja á pöllunum.)