131. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2004.

afleiðingar kennaraverkfallsins fyrir þjóðlífið.

[14:03]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hér talaði áðan hv. þm. Jónína Bjartmarz, fyrrverandi formaður Heimilis og skóla, og spurði: Hver er tilgangur málshefjanda með þessari umræðu? (JBjart: Eðlilega.)

Ég skal svara því. Tilgangurinn er sá að reyna að vekja hæstv. forsætisráðherra og hæstv. menntamálaráðherra af værum blundi. Tilgangurinn er sá að reyna að skýra út fyrir ríkisstjórninni hver ábyrgð hennar er í þessu máli.

Halda menn að þessi staða sé komin upp allt í einu á síðustu vikum og mánuðum? Að sjálfsögðu ekki. Þessi staða hefur verið að þróast vegna þess að ríkisstjórnin hefur smám saman, með ýmiss konar breytingum, ýmiss konar verkefnum sem hún er að færa yfir til sveitarfélaganna, verið að þrengja að hag þeirra. Það er það sem kemur í veg fyrir að þau geta gengið til samninga sem vissulega mundu aldrei vera þannig að það yrði gengið að ýtrustu kröfum kennara en samningar sem yrðu eigi að síður viðunandi fyrir báða aðila.

Sveitarfélögin eru í fjárhagslegri kreppu. Þau segja sjálf að þau hafi aldrei verið skuldsettari og á síðustu fimm árum þá hafi þau safnað sem svarar 8 milljarða kr. skuldum. Þetta hefur komið fram. Hvers vegna er þetta? Vegna þess að ríkisstjórnin hefur aukið við verkefni þeirra og hefur líka, eins og hæstv. félagsmálaráðherra féllst á síðast í gær, verið að kreppa að fjárhag þeirra með skattkerfisbreytingum sem gera það að verkum að þau geta ekki lengur risið nægilega undir þeim kröfum sem við borgararnir í landinu gerum til grunnþjónustu eins og grunnskóla. Ég er að reyna að skýra það út fyrir hæstv. forsætisráðherra. Það kann vel að vera að mér hafi ekki tekist það.

Ég verð að segja að það eru kaldar kveðjur sem nýr forsætisráðherra sendir kennurum og sveitarfélögum. Það eru kaldar kveðjur sem nýr menntamálaráðherra gefur þeim sömu aðilum. Ef þetta á að vera framtíðin hjá hæstv. forsætisráðherra þá býð ég ekki í framhaldið. Ég segi einfaldlega: Ill var þín gangan fyrsta.