131. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[14:40]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég mun gera grein fyrir meginsjónarmiðum mínum varðandi einkavæðingu Landssímans síðar í þessari umræðu. Mig langaði þó til að víkja að nokkrum atriðum sem fram komu í ræðu hv. flutningsmanns frumvarpsins, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Hann talaði um það og það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að það sé mikilvægt að verja fjármunum til þess að byggja upp dreifikerfi Símans og hann eyddi nokkru púðri í að útskýra að í því væru miklar gloppur.

Til þess að umræðan geti verið hér á einhverju vitrænu plani þá tel ég nauðsynlegt að fram komi ákveðnar upplýsingar þannig að menn séu ekki að fara með rangar staðhæfingar um dreifikerfið eins og það er. Ég hef aflað mér upplýsinga um að Landssíminn þjónustar í heimasímum, gömlu símunum, 99,6% heimila í landinu. Það sama gildir um ISDN-gagnaflutningatengingar. Það er ekkert skrýtið vegna þess að svokölluð alþjónustukvöð er á Símanum að sinna öllum heimilum í landinu með heimasíma og ISDN-tengingar og ég verð að segja að Síminn hefur gert það prýðilega og náð 99,6% dreifingu.

Síðan er hér talað um gloppur í GSM-kerfinu. Hvað er Síminn að þjónusta stóran hluta heimila í GSM-kerfinu? 98% íslenskra heimila eru í GSM-sambandi. Það er mikilvægt að þetta komi fram. Og menn hafa talað um að ekki séu ADSL-tengingar inn á öll heimili. Það er alveg rétt. En Síminn sinnir 92% heimila á Íslandi. Það er meiri dreifing en þekkist á nokkru byggðu bóli nema kannski fyrir utan Danmörku. Þegar menn tala um að dreifikerfið sé ekki í lagi þá er það einfaldlega ekki rétt. Tölurnar tala sínu máli og það er nauðsynlegt að því sé haldið til haga í þessari umræðu.