131. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[14:42]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það var ágætt að fá þetta innlegg hér vegna þess að það lýsir vandanum í hnotskurn. Það sem menn hafa víða gert þegar þeir hafa verið að reyna að skilgreina forsendur samkeppni er að þá hafa þeir sett einhver svona viðmiðunarmörk og sagt: „Jú, fyrirtæki telst veita fullnægjandi þjónustu ef það nær til kannski 80% íbúa í einu landi.“ En hvað með hin 20%, þó það séu ekki nema 10%, þó það séu ekki nema 5%, sem er þá mögulegt að séu dæmd úr leik og sem ekki séu þátttakendur í upplýsingatæknisamfélagi samtímans? Í hvaða stöðu eru þeir settir? Hér dugar ekkert næstum, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson. Það er nefnilega hér sem prósentureikningurinn dugar ekki. Annaðhvort býr ein þjóð í landinu eða ekki í þessum efnum.

Varðandi GSM-kerfið þá eru götin jafntilfinnanleg fyrir því þó þau séu á strjálbýlum svæðum eða meðfram þjóðvegunum, svo lengi sem þau eru til staðar. Ég get nefnt atvinnugrein sem líður mjög fyrir þetta ástand í dag. Það er ferðaþjónusta bænda í sveitum. Drjúgur hluti bændabýlanna er utan GSM-þjónustu. Þó það sé ekki hátt prósent þá er það samt þarna. Það er úr þessu sem þarf að bæta. Þetta snýst oft um kannski einn sendi upp á nokkrar milljónir kr. og að koma honum niður.

Þá erum við komin að því að ef Síminn er einkarekinn og arðsemiskrafan ein ræður för þá skilur maður út af fyrir sig aðstæður stjórnendanna, ef þeir telja sig ekki hafa neinar skyldur, að áhugaverðara sé að leggja fjármunina í annað. Þetta er spurningin um það hvernig menn skilgreina sig. Er þetta þjónustufyrirtæki með almennar skyldur og samfélagslega ábyrgð eða er þetta bisness? Ég hélt að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson skildi þetta.

Síðan verður að vekja athygli á einu og það er að innan þeirra prósentutalna sem hv. þm. nefndi eru svæði sem búa við ótryggar tengingar þó að svo eigi að heita að þau séu tengd. Það þekki ég t.d. mjög vel af mínum heimaslóðum um norðaustanvert landið. Þéttbýlisstaðirnir þar búa við ótryggar tengingar (Forseti hringir.) sem stundum detta út o.s.frv.