131. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[14:49]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Mig langar að segja nokkur orð um þingmálið sem hér er til umræðu sem lýtur að því í aðalatriðum að fresta fyrirhugaðri sölu Landssímans, a.m.k. til ársloka árið 2008.

Hvorugt er nýtt, hvorki afstaða flytjenda þessa frumvarps til sölu Landssímans né hugmyndin um að selja Landssímann. Það hefur verið á dagskrá þessarar ríkisstjórnar frá árinu 1999 og jafnvel lengur. En því miður hefur ekki enn þá orðið af því. Mig langar að taka það ótvírætt fram, strax við þessa umræðu, að ég teldi það hið mesta óráð að hvika frá þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið og er því eindreginn andstæðingur frumvarpsins sem mælt var fyrir nú áðan. Ég veit að það kemur háttvirtum framsögumanni lítt á óvart, sem flutti reyndar mikla skammarræðu um öll þau áform og þá sem að þeim standa.

Hitt vil ég taka undir með honum að Síminn hefur í gegnum áratugina verið hið besta og þarfasta fyrirtæki. En það, eins og aðrir aðilar á markaði sem Síminn starfar á í dag, verður að laga sig að breyttum aðstæðum. Það mun auðvitað gerast hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Þvílík framþróun hefur orðið í fjarskiptamálum og öðru sem lýtur að starfsemi fyrirtækja á Íslandi að það er ekki hægt að ætlast til þess að Síminn lagi sig ekki að aðstæðum og breytist með framþróun þjóðfélagsins. En það er kannski ekki aðalatriði þess sem ég vildi sagt hafa varðandi þetta frumvarp.

Það má segja að þetta mál, út frá sjónarhóli flutningsmanna, sé tvíþætt. Annars vegar er það spurningin um sjálfa söluna og hins vegar fjarskiptalegir þættir málsins sem, eins og háttvirtur framsögumaður gat um, heyra undir samgönguráðherra. Þess vegna mun ég ekki fjalla um þau atriði. Ég vil einungis benda á að af hálfu samgönguráðherra er unnið að því að skilgreina betur þau áhersluatriði sem stjórnvöld vilja tryggja að nái fram þegar ríkið hefur selt eignarhlut sinn í fyrirtækinu. Ég geri ég ráð fyrir að tillögur um það efni muni birtast af hálfu samgönguráðherra á næstunni og þær muni m.a. snúa að hinu svokallaða ATM-neti, jöfnun gagnaflutningskostnaðar í því sambandi, að rekstri NMT-kerfisins, að áframhaldandi uppbyggingu breiðbandsins og að sjálfsögðu að uppbyggingu GSM-kerfisins í dreifbýli og á fjölförnum ferðamannastöðum.

Ég ætla ekki að tjá mig frekar um þá hlið málsins en tel eðlilegt að spurningum um þau mál sé beint til fjarskiptamálaráðherrans.

Það kom fram í stefnuræðu forsætisráðherra fyrr í vikunni að einkavæðingarnefnd, sem nú lýtur nýrri formennsku eins og fram kom, hefur gert ráðstafanir til að bjóða út ráðgjöf varðandi þessa sölu. Það mál er komið í gang og ætla má, eins og forsætisráðherra gat um, að á fyrri hluta næsta árs geti söluferlið hafist fyrir alvöru á nýjan leik. Því miður vorum við of seinir að ljúka þessu máli fyrir nokkrum árum. Þess vegna var fallið frá þessu ferli í upphafi árs árið 2002 eins og margir muna. Málið er í vissum farvegi og á grundvelli tillagna áðurnefndrar ráðgjafar verður ákveðið með hvaða hætti ýmsar praktískar hliðar málsins verða úr garði gerðar. Þá komum við að spurningum um fyrirkomulag sölunnar, hvort það eigi að vera í litlum bútum eða í stærri bútum, hvort leita eigi að svokölluðum kjölfestufjárfesti eða selja ríkjandi hlut í fyrirtækinu til einhvers eins aðila og hvernig rétt sé að tímasetja það ferli. Það er auðvitað hlutverk ráðgjafans að gera um það tillögur og síðan tökum við sem sitjum í ráðherranefnd um einkavæðingu afstöðu til þess. Ég tel hyggilegast að hafa ekki fleiri orð um það meðan ekki liggja fyrir tillögur um það mál. Ég tel að ýmislegt geti komið til greina í því sambandi.

Ég gat þess áðan að hér hefði orðið grundvallarbreyting á öllum fjarskiptum. Það er auðvitað þannig að í fjarskiptaheiminum er sá munur sem hingað til hefur verið á símastarfsemi, sjónvarpi og tölvum smám saman að hverfa. Mörkin þar á milli eru að mást út og nú hefur orðið mikil skörun þar á milli sem gerir það að verkum að einkaaðilar koma í miklu ríkari mæli inn í þetta en áður var. Síminn mætir samkeppni og það kom fram í máli háttvirts framsögumanns að jafnvel erlend fyrirtæki eru farin að hasla sér völl hér á landi á þjónustusviðum sem menn hefðu ekki gert ráð fyrir áður.

Með öðrum orðum er ekki lengur þörf fyrir að á þessu sviði sé ríkið umsvifamesti aðilinn. Það er ekki lengur þörf fyrir að ríkið bindi stórfellda fjármuni í slíkri starfsemi þegar aðrir vilja taka verkið að sér, með þeim skilyrðum sem sett verða um dreifingu, útbreiðslu o.s.frv. Markaðsaðstæður hafa breyst frá því sem var fyrir tveimur og hálfu ári síðan. Nú er talið að það sé góður markaður fyrir fyrirtæki af þessu tagi, eins og sjá má af mörkuðum í útlöndum og jafnvel einnig innan lands. Þess vegna er að mínum dómi ekki eftir neinu að bíða með að ganga í þetta verk.

Í fyrirtækinu á almenningur á Íslandi tugi milljarða sem hægt er að losa úr læðingi og nota til annarra verkefna í þágu almennings. Háttvirtur framsögumaður gat þess að Síminn væri svo arðbært fyrirtæki að það væri mikið óráð að selja hann vegna þess að hann greiddi um tvo milljarða í arð á ári hverju auk skatta. Ég geri ráð fyrir því að fyrirtækið muni í eigu nýrra aðila halda áfram að borga skatta svo að það er ekki röksemd. En arðinn verður að bera saman við hve mikinn arð andvirði fyrirtækisins getur gefið af sér, þ.e. í vexti. Miðað við þær hugmyndir sem uppi eru um verð fyrir fyrirtækið sýnist mér einboðið að vaxtaávinningurinn af söluandvirðinu verði meiri en sá arður sem nú er greiddur. Hann getur auðvitað birst með ýmsum hætti. Einfalda dæmið væri það ef þessir peningar væru lagðir til hliðar og reynt að ávaxta þá. Það mundi gefa vexti en það er líka hægt að hugsa sér að þetta spari vaxtagjöld sem ríkissjóður greiðir annars staðar eða spari fjármagnskostnað af þeim hluta þeirra fjármuna sem varið yrði til tiltekinna verkefna eins og rætt hefur verið um að gera.

Ég tel reyndar að við stöndum frammi fyrir einstæðu tækifæri til að leysa úr læðingi tugi milljarða króna og nýta þá til brýnna og þarfra verkefna. Þá vildi ég fyrst segja, vegna þess hlutverks sem ég gegni í ríkisstjórninni, að brýnasta verkefnið er að mínum dómi að halda áfram að greiða niður skuldir ríkissjóðs og spara ríkinu vaxtakostnað af þeim. Það er mikið hagsmunamál fyrir allan almenning ekki síður en að halda uppi góðri fjarskiptaþjónustu, sem ég dreg ekki í efa. Það er líka hægt að hugsa sér að ráðstafa einhverjum hluta fjármagnsins til brýnna verkefna á öðrum sviðum sem m.a. háttvirtur framsögumaður ber mjög fyrir brjósti. Rætt hefur verið um að nýta fjármagnið til sérstakra stórverkefna á sviði samgöngumála eða annarra hluta sem hvort eð er þarf að ráðast í í þjóðfélaginu fyrr eða síðar. Við erum svo sem ekki ósammála um að ráðast í þau verkefni en þyrftum að bíða þess lengur, ef ekki kæmu til þessir fjármunir, að grípa til ráðstafana sem lúta að því að gera Ísland í heild byggilegra, bæta samgöngur og aðra þætti. Það er einnig mikilvægt atriði í þessu sambandi og skiptir jafnvel ekki minnstu máli.

Ég held líka að það skipti máli í þessu sambandi að með því að losa um tök ríkisins á fyrirtækinu og gefa einkaaðilum kost á að annast rekstur þess, með þeim skyldum sem á það verða áfram lagðar, sé að sjálfsögðu búið í haginn fyrir þá útsjónarsemi og hagkvæmni sem almennt fylgir einkarekstrinum. Það verður fróðlegt að sjá hvernig það þróast.

Það er auðvitað engin tilviljun að í langflestum nálægum löndum, þar á meðal meira og minna í öllum hinum svokölluðu nýfrjálsu ríkjum í Mið- og Austur-Evrópu hafa menn gengið í það verk að einkavæða símafyrirtæki. Það hefur verið gert í baltnesku löndunum og miklu víðar. Þótt háttvirtur framsögumaður sé ekki ánægður með allt sem þar hefur verið gert þá er það engin tilviljun að þar hafa menn ákveðið að nýta sér kosti einkaframtaksins í þessum efnum en jafnframt losa um fjármagnið sem í þessum rekstri hefur verið bundið.

Menn geta auðvitað sagt sem svo að í Noregi séu eilítið öðruvísi aðstæður en almennt gerist. Þar þarf ekki mikið að lesa um fjármagn sem ríkissjóður hefur bundið hér og þar. Í því landi veit ríkissjóður ekkert hvað hann á að gera við alla peningana sína. (SJS: Eru Norðmenn óskynsamir?) Þeir hafa ekki jafnmikið að gera við það fjármagn sem bundið er í símafyrirtækinu og ýmsir aðrir, þar á meðal við. Mér finnst það ekki gott dæmi í þessu efni þótt það sé auðvitað mjög til fyrirmyndar ef framsögumaður Steingrímur J. Sigfússon er farinn að vitna til hægri stjórna víða um heim sem sérstaks fordæmis. Reyndar er það blönduð ríkisstjórn eins og við vitum sem er við stjórnvölinn í Noregi. En hún fer sér hægt í þessu eins og mörgu öðru.

Ég vildi segja það að lokum að það er athyglisvert að þetta er fyrsta þingmál stjórnarandstöðunnar sem kemur á dagskrá. Hún hefur gert með sér samkomulag um að standa saman um hin stóru mál. Það verður fróðlegt að sjá hvort málið sem hér er flutt er flutt í anda hins nýja og mikla samstarfs stjórnarandstöðuflokkanna sem boðað hefur verið á þessu þingi. Ég segi fyrir mig að ég lýsi eindreginni andstöðu við þetta mál. Ég tel að það sé á misskilningi byggt og yfir því sé andi liðins tíma eins og því miður yfir mörgu öðru sem kemur úr herbúðum okkar ágætu vina og samstarfsmanna í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.