131. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[15:08]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka ráðherra fyrir þátttöku í umræðunni en sakna þó svara varðandi nokkur atriði. Mér fundust í fyrsta lagi mjög fátækleg svörin þegar kom að spurningum um aðferðir við hina áformuðu einkavæðingu. Svarið var í raun: Það verður ákveðið að auglýsa eftir ráðgjafa og ráðgjafinn á að koma með tillögur um hvernig þetta verði gert.

Ber þá virkilega að skilja það svo að ríkisstjórnin hafi enga sjálfstæða meiningu um hvernig þetta verði gert? Auðvitað þurfa menn ekki að framselja það út í bæ til einhvers ráðgjafa að koma með hugmyndir um það hvernig að þessu verði staðið.

Það liggur náttúrlega beint við að spyrja fyrst: Af hverju er þetta ekki gert eins og venjulega, þegar fyrirtæki eru sett á markað og skráð? Af hverju er Síminn ekki einfaldlega settur í sölu í Kauphöllinni og ríkið færi þá að lækka eignarhlut sinn í áföngum og innleysti hann smátt og smátt? Væri það ekki eðlilegasta og nærtækasta leiðin, samanber Noreg?

Í öðru lagi spurði ég hæstv. ráðherra — það kom ekki svar við því — hvort hann hefði meiningar um kaup Símans á Skjá 1. Það væri fróðlegt að heyra um það.

Ég hefði í þriðja lagi gjarnan viljað heyra hvort mögulegt væri að skoða núna það sem hafnað var fyrir tveimur eða þremur árum, að skilja eftir eitt hlutabréf inni í fyrirtækinu, ef það yrði selt að fullu, svokallað gullbréf, með kröfum sem hægt væri að setja fyrirtækinu. Þótt Nýsjálendingar væru býsna langt leiddir í sinni frjálshyggju þá gerðu þeir þó það, að skilja eftir eitt gullbréf í fyrirtækinu sem er í höndum nýsjálenska ríkisins sem tryggir því t.d. möguleika á að setja fyrirtækinu innlenda stjórnarmenn sé það er í eigu erlendra aðila o.s.frv.

Varðandi það að það sé góð efnahagspólitík að innleysa þessa eign þá bendi ég á það á móti að það er fleira en arðurinn sem hafa þarf í huga og greiddur hefur verið árlega, þ.e. verðmætisaukningin í fyrirtækinu. Eignin vex í verði og það getur verið góð ávöxtun að því leyti. Mesti arðurinn í sambandi við rekstur þessa fyrirtækis (Forseti hringir.) er auðvitað fólginn í góðri þjónustu þess við landsmenn. Gleymum því aldrei.