131. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[15:14]

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Hér á fyrsta degi á hinu háa Alþingi, þegar við erum að taka fyrir almenn þingmannamál á nýbyrjuðu starfstímabili okkar, ræðum við frumvarp um breytingu á lögum um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf. sem tveir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytja.

Bara rétt til að skemma stríðni hæstv. fjármálaráðherra þá er þetta ekki fyrsta sameiginlega þingmál stjórnarandstöðunnar sem slíkrar. Það er Íraksmálið sem hefur fengið það virðulega númer á þingskjölum, nr. 3, og auðvitað hefðum við í stjórnarandstöðunni helst viljað vera að ræða það nú á fyrstu dögum þingsins. Þegar ákvörðunin var tekin um að setja Ísland á lista hinna staðföstu þjóða háttaði svo til að hæstv. forsætisráðherra, fyrrverandi utanríkisráðherra, gat ekki verið viðstaddur umræðuna og það er auðvitað algert skilyrði þegar hún fer fram að sá hæstv. ráðherra sé viðstaddur. Það var fyrsta sameiginlega málið. Síðan ætla ég ekki að fara að skemmta okkur með því að segja að auðvitað kom það skýrt fram á þeim fundi sem fjallað var um þetta að menn eru sammála að veita hæstv. ríkisstjórn mikið og gott aðhald eins og við gerðum í fjölmiðlamálinu. Það segir ekkert til um það hvort við séum sammála í öllum málum.

Þó svo að því máli sem hér um ræðir megi skipta svolítið niður get ég sem slíkur tekið undir hluta af því en ekki allt. Vegna þess að ég hef verið þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, alveg eins og fram kom þegar við tókumst á um þau lög sem við erum að ræða um breytingu á, að fram hefur komið að Samfylkingin hefur verið hlynnt því að selja samkeppnishluta Símans. Hvenær það er gert er allt annar handleggur og hvernig það er gert er líka allt annar handleggur og alls ekki sama hvernig það er gert. Við höfum ákveðnar skoðanir á því hvernig það yrði gert líkt og hæstv. fjármálaráðherra talaði um áðan, þ.e. hvort Síminn væri seldur í einu lagi, í smápörtum eða hvernig staðið yrði að því. Það er auðvitað hluti sem menn geta haft ákveðnar skoðanir á. Hér áður fyrr fóru menn af stað og seldu hlut úr ríkisfyrirtækjum í útboði þar sem almenningur gat tekið þátt þó svo að í seinni tíð hafi hæstv. ríkisstjórn selt þannig, t.d. hlutabréf í Landsbankanum og Búnaðarbanka forðum, til eins og maður segir stundum vildarvina þessara tveggja flokka.

Ég vil láta það koma skýrt fram að auðvitað er ekki sama hvernig að þessu er staðið. Og það er rétt sem hér var sagt að þegar hæstv. ríkisstjórn ætlaði að selja Símann á sínum tíma — það mál klúðraðist kannski sem betur fer vegna þess að Síminn er orðinn meira virði núna og meiri eign vegna tafa — komu ríkisstjórnarflokkarnir sér ekki saman um hvernig ætti að selja hann og síðan, eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði, urðu menn einfaldlega of seinir. Sú bylgja sem þá var féll mjög skyndilega og þarf ekki að ræða mikið um það klúður sem þar var við fyrirhugaða sölu Símans og sem betur fer var forðað frá að setja á hálfgerða brunaútsölu.

Hins vegar er alveg skýrt í huga okkar í Samfylkingunni og það hefur margoft verið sagt hér og lagt til að það er mikið atriði að skilja grunnnet Landssímans frá áður en til sölu kemur. Það er algert lykilatriði. Þegar við fluttum þá tillögu voru ekki margir sem tóku undir hana hér. Framsóknarflokkurinn var þá á harðahlaupum frá þessari stefnu og lét Sjálfstæðisflokkinn beygja sig þó hann sé aðeins að æmta núna að gera þurfi svo og svo mikið á landsbyggðinni gagnvart grunnnetinu áður en til sölu kemur. Ef eitthvað hefur verið, þá höfum við í Samfylkingunni styrkst í þeirri trú að skynsamlegt sé og rétt að taka grunnnetið frá. Stofna um það sérstakt fyrirtæki sem þess vegna getur verið alfarið í ríkiseign, getur líka verið með eignaraðild þeirra fyrirtækja sem vilja og eru stór í þessum rekstri. Hvers vegna segi ég þetta? Vegna þess að m.a. ríkisstjórnarflokkarnir og sumir aðrir flokkar á hinu háa Alþingi voru á síðustu dögum síðasta þings að breyta raforkukerfi landsmanna, voru m.a. þar að stofna fyrirtæki utan um rafmagnslínurnar, utan um flutningsvirkin, taka það út úr og ætla að reka það sem sérstakt fyrirtæki. Það má alveg hugsa sér, virðulegi forseti, að það ríkisfyrirtæki sem er með eignaraðild nokkurra aðila sem áttu flutningslínur í raforkukerfinu, að það fyrirtæki ræki grunnnet Landssímans þess vegna. Þetta er ekkert óskyldur rekstur. Gæti meira að segja verið um margt athyglisvert að skoða að gera það þannig saman.

Hvort sem við erum að tala um örbylgjusendingar, grunnlínurnar, ljósleiðarana eða koparlínurnar sem liggja inn í hvert hús frá gamalli tíð og eru alltaf að verða verðmætari og verðmætari vegna þess að tækninni fleygir fram og notkunarmöguleikar eru alltaf að aukast á slíkum koparlínum sem liggja inn í hús, þá auka öll þessi atriði auðvitað verðgildi Símans. En það mætti alveg hugsa sér, virðulegi forseti, vegna þess að menn eru ekki mjög spenntir fyrir því, sérstaklega í Sjálfstæðisflokknum, að það sé ríkisfyrirtæki sem eigi einhvern hluta, það sem ég sagði hér um grunnnetið, en það yrði að sjálfsögðu hálfgert ríkisfyrirtæki eða algert vegna mikillar eignar ríkisins í þeim fyrirtækjum sem munu eiga flutningsvirkin í raforkukerfinu.

Ég sagði áðan að taka mætti undir margt sem kemur fram í þessari tillögu, sérstaklega þar sem fjallað er um þjónustu við byggðir. Ég hef margoft áður fyrr spurt hæstv. samgönguráðherra á hinu háa Alþingi út í þessi mál og það misrétti sem fólk er beitt gagnvart háhraðatengingum eftir því hvar það býr á landinu. Um þetta hef ég spurt samgönguráðherra oftsinnis. Ævinlega hefur það svar verið gefið að Landssíminn telji þetta ekki arðbært og þess vegna er það ekki gert. Þetta er aumt svar frá hæstv. samgönguráðherra og hefur gert það að verkum að íbúar svo og svo margra minni byggðarlaga hringinn í kringum landið hafa orðið út undan í þeirri tæknibyltingu sem er að eiga sér stað í alls konar samskiptum í gegnum netið. Það er með öðrum orðum, hæstv. forseti, ekki hægt að bjóða íbúum lítilla byggðarlaga að vera með lélegt netsamband, eins og t.d. ISDN er í dag sem er orðið allt of hægvirkt miðað við sem það var þegar við vorum að setja alþjónustukvöðina yfir í það að vera með ADSL-tengingu, margfalda jafnvel, að fólk situr ekki við sama borð. Það má t.d. spyrja hvort að íbúar slíkra svæða þar sem Landssíminn býður ekki upp á þetta sitji við sama borð við að stunda t.d. fjarnám. Nei. Standa börn og unglingar jafnfætis öðrum við að ná sér í ýmislegt á netinu og flakka þar um ef svo má að orði komast og fræðast jafnvel? Nei, það er ekki. Ég hef tekið dæmi af nokkrum stöðum á landinu, þar sem ég er ákaflega ósáttur með Landssímann, sem hafa síðan tekið málin í sínar hendur og nægir þar að nefna t.d. hið litla byggðarlag Hrísey. Þar tóku íbúarnir sjálfir sig til og byggðu upp í samvinnu við fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu þráðlaust netsamband sem fór upp í gervihnött, úr gervihnetti í jarðstöð til Ítalíu og eftir ljósleiðara frá Ítalíu til Íslands. Af hverju í ósköpunum eiga íbúar í Hrísey að borga margfalt meira fyrir að fá þá sjálfsögðu þjónustu, að kaupa þessa þjónustu frekar en íbúar t.d. í Reykjavík, á Siglufirði, Húsavík, Akureyri eða einhvers staðar þar sem Landssíminn býður upp á ADSL? Af hverju þurfa íbúar þessara litlu byggðarlaga að taka þátt í rándýrum stofnkostnaði? Hvers vegna í ósköpunum getur Landssíminn ekki tekið þátt í þessari tæknibyltingu? Er það kannski bara vegna þess að Landssíminn hefur engan áhuga á þessari tækni, að gera þetta svona í örbylgjusambandi í gervihnetti? Ég spyr. Ég hef spurt um þetta og ekki fengið svar, virðulegi forseti. Þetta er auðvitað grundvallaratriði og mætti taka fleiri byggðarlög, hvort sem það er á Stöðvarfirði eða Raufarhöfn svo ég taki bara nokkra staði t.d. úr mínu kjördæmi, þar sem þessi mál eru rædd.

Það er gaman að segja frá því, virðulegi forseti, að í kjördæmaviku fyrir um ári stóð tvennt upp úr hjá sveitarstjórnarmönnum sem ræddu við okkur fulltrúa litlu sveitarfélaganna. Númer eitt var jöfnunarsjóðurinn, skert framlög þar, og hvert var hitt atriðið? Jú, óánægja með að sitja ekki við sama borð og aðrir með háhraðanettengingu. Þess vegna má taka undir það í umræddri tillögu að það er sjálfsagt atriði að skikka Landssímann til að sinna þessari þjónustu á einn eða annan hátt, hvort sem er með lagningu ljósleiðara, örbylgjusambandi eða í gegnum gervihnött. Það getur verið að taka þurfi sérlausnir fyrir ákveðin byggðarlög, þá á bara að gera það. En grundvallaratriðið er að íbúarnir sitji við sama borð.

Það var mikið réttlætismál á sínum tíma þegar búin var til ein gjaldskrá fyrir Símann, sama hvar menn sátu á landinu við að tala í síma. Það er ekki langt síðan það var gert. Sama á auðvitað að gilda um þetta.

Einnig má taka undir það að Síminn þarf að standa sig betur í því að byggja upp símstöðvar eða sambönd þar sem GSM-sími getur verið notaður sem öryggistæki á þjóðvegum landsins. Það eru allt of margir staðir á þjóðvegum landsins sem eru ekki í GSM-sambandi. Þetta er bara nútíminn í dag. Þetta er öryggistæki, það eru allir með þetta og NMT-síminn sem margir eru með er að líða undir lok og mér skilst að það kerfi sé að detta út á næstunni. Þess vegna er afar brýnt að gengið sé hraðar í þessu. Þarna hefur Landssíminn sannarlega ekki staðið sig og má með sanni segja að maður óttist það að eftir að Landssíminn hefur verið seldur, allur því miður, verði hið nýja fyrirtæki ekki viljugt til að fara í það sem ég hef verið að gera að umtalsefni. Þess vegna á að skikka Landssímann til að gera þetta núna og þess vegna er það sem við í Samfylkingunni höfum fyllst meiri eldmóði fyrir því að aðskilja grunnnetið frá áður en til sölu kemur á samkeppnishlutanum til að sjá um þessa samfélagslegu þjónustu og það sem henni fylgir.

Það er svo ýmislegt annað, virðulegi forseti, sem mætti ræða um í fari Landssímans eins og gagnvart því sem ég hef gert að umtalsefni og því að kaupa stóran hlut í Skjá 1. Auðvitað virkar það ósanngjarnt á mann og sama hvort verið er að kaupa hlutabréf Símans í Ungverjalandi, eða í hvaða landi sem það var nú gert, og eðlilegt að fólki gremjist það og leggist jafnvel af enn meiri hörku gegn sölu Símans eins og hefur komið fram í skoðanakönnunum og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði um áðan. Það er auðvitað þannig að þegar verið er að ráðast í slíkar fjárfestingar þá blöskrar fólki. Og í mínum huga, þó að ég ætli ekki að gera kaup Símans í Skjá 1 að umtalsefni nú, var það auðvitað ekkert annað en að taka þátt í þeim hráskinnaleik og í þeirri aðferð Sjálfstæðisflokksins að ráðast áfram að Norðurljósum og því sem þar tengist gagnvart þessu. Skjár 1 var auðvitað notaður sem leppur til að kaupa sýningarrétt á enska fótboltanum, enda kemur það á daginn að þegar átti að sýna þar frítt fyrsta árið kemur Síminn inn til bjargar þeim fjárfestum sem voru að leggja í þá vegferð að kaupa sýningarréttinn. Það er auðvitað hjákátlegt að ríkisfyrirtæki skuli vera að fara inn í þetta. Og af því að hæstv. fjármálaráðherra var hér áðan væri jafnvel hægt að snúa þessu yfir í grín og spyrja hann hvaða leikur í enska fótboltanum verði sýndur næsta laugardag í beinni útsendingu. Þetta er náttúrlega út í hött.

Ekki er allt komið fram þar hvað þetta varðar en leiða má líkur að því að þetta sé leikur hákarlanna í Sjálfstæðisflokknum með það sem ég hef gert að umtalsefni og Síminn er svo notaður til að kaupa sýningarréttinn.

Virðulegi forseti. Þetta vildi ég láta koma fram í þessum efnum í tengslum við frumvarpið sem við erum að ræða. Það er með ólíkindum hvernig þetta mál er að þróast á verri veg gagnvart því að því miður er það greinilegt að Framsóknarflokkurinn ætlar að láta Sjálfstæðisflokkinn pína sig til þess að selja Símann í heilu lagi, þ.e. með grunnnetinu. Og bara af því að ég gleymdi því rétt áðan þá ætla ég að nefna það í lokin ef við sjáum það ekki hvernig slitnaði upp úr umræðum Norðurljósa við Landssímann um stafræna kerfið. Tökum t.d. ef Landsvirkjun sér frekar þörf í því að nota ljósleiðara og eiga hann yfir hálendið, þá er það dæmi um að grunnnetið sem slíkt á að vera sérfyrirtæki, rekið af sérstökum rekstraraðila, alfarið í eigu ríkisins eða meirihlutaeigu þess og annarra aðila sem koma að þessu, eins og ég sagði áðan, þá er það dæmi sem ég nefndi um Stöð 2 eða Norðurljós og það að menn fara ekki saman í stafræna sjónvarpsútsendingar dæmi um að menn treysta þessu ekki. Ég óttast að hin ýmsu fyrirtæki muni ráðast í fjárfestingar sem gera það að verkum að þetta verður þjóðhagslega óhagkvæmt vegna þess að flutningsgetan í grunnnetinu er næg eins og er og mun aldrei fulllestast og allir ættu að geta keypt þá þjónustu þar ef allir bera gæfu til að bera traust til þess fyrirtækis sem um grunnnetið yrði stofnað.