131. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[15:30]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Frumvarpið sem við ræðum gengur út á að fyrirhugaðri sölu á Símanum verði frestað alla vega til ársloka 2008. Ég er fyllilega sammála því að fresta sölunni á Símanum og hef sannfærst enn betur um að sú fyrirhugaða sala sem ríkisstjórnarflokkarnir ætla að standa að sé algert óráð vegna þess að þeir ætla ekki að undanskilja grunnnetið. Þeir ætla að láta það fylgja með. Við í Frjálslynda flokknum og Vinstri grænum erum ekki einir um að telja það óráð. Samfylkingin vill einnig undanskilja grunnnetið frá sölunni. Ég veit ekki betur en Fjórðungsþing Vestfirðinga hafi einmitt ályktað gegn sölunni á Símanum, en óvíst að Framsóknarflokkurinn geri orðið nokkuð með ályktanir utan af landi og sérstaklega ekki frá Vestfjörðum. Fleiri sveitarfélög hafa varað við sölunni á Símanum vegna þess að það er ákveðin hætta á því að landsbyggðin komi illa út varðandi fjarskipti.

Hvers vegna eigum við að undanskilja grunnnet Símans? Til þess að tryggja samkeppni. Ef Sjálfstæðisflokkurinn meinar eitthvað með því að vilja koma á samkeppni á fjarskiptamarkaði ætti hann að hafa það sem forgangsverkefni að undanskilja grunnnet Símans frá annarri starfsemi hans sem er í samkeppni og hlusta á þá sem eru í samkeppnisrekstri við Símann, en ég veit ekki betur en að þeir hafi einmitt komið þeim skoðunum á framfæri að undanskilja eigi grunnnet Símans frá annarri samkeppnisstarfsemi ef Síminn verður seldur.

Við ættum þá að líta til þess hvernig við höfum staðið að því að breyta öðrum rekstri. Fyrr í vor voru sett raforkulög. Þá var tekinn út rekstur bæði dreifikerfa og flutningskerfis sem er einokunarrekstur og framleiðsluþátturinn sem er í samkeppni var hafður sér. Auðvitað eiga menn að fara sömu leið ef þeir meina eitthvað með því að vera með samkeppni á fjarskiptamarkaði. Að vera með grunnnetið og samkeppnisreksturinn í einum pakka er ávísun á einokun. Og einokun í einkaeign er síst betri en ríkiseinokun. Það ættu forkólfar samkeppnis- og markaðslögmála svo sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson að samþykkja. Það er í raun enginn eðlismunur á einokunarsamkeppni og ríkissamkeppni nema að hægt er að breyta ríkissamkeppninni með pólitísku valdi.

Sjálfstæðisflokkurinn segist stundum vilja samkeppni, jafnvel á fjarskiptamarkaði. Til þess að tryggja hana þarf að tryggja að menn noti ekki einokunaraðstöðu sína og misbeiti markaðsráðandi stöðu. Ýmsir sem stunda fjarskiptaviðskipti telja einmitt að ríkisfyrirtækið Síminn beiti vafasömum meðulum, færi fjármuni úr einokunaraðstöðunni og yfir á samkeppnissviðið. Ég grennslaðist fyrir um þetta og bar upp spurningar til hæstv. fjármálaráðherra. Ég er með þær með mér og ef Sjálfstæðisflokkurinn og hæstv. fjármálaráðherra meina eitthvað með samkeppni á fjarskiptamarkaði hefðu þeir leitast við að svara spurningunum varðandi það hvort Landssíminn sé að misnota einokunaraðstöðu og markaðsráðandi stöðu í samkeppni við frjálsa aðila á markaðnum.

Ég hélt að ég væri að vekja athygli á þessu máli og hæstv. fjármálaráðherra mundi taka því fagnandi og svara spurningunum af samviskusemi. En ég bar upp þessa spurningu: Hefur Landssími Íslands hf. tryggt fjárhagslegan aðskilnað á þeirri starfsemi sem lýtur sérstaklega að virðisaukandi þjónustu, t.d. internetþjónustu, GSM-farsímaþjónustu og NMT-farsímaþjónustu? Þá er átt við þá þjónustu sem á í samkeppni við einkaaðila. Í stað þess að ganga úr skugga um það, sem eigandi fyrirtækisins, fæ ég langt svar sem er í rauninni ekkert svar. Það er eins og hæstv. fjármálaráðherra sé með svona þokukenndu svari að þyrla upp ryki í staðinn fyrir að ganga úr skugga um að það ríki heiðarleg og eðlileg samkeppni. Því efast sá sem hér stendur um að hæstv. fjármálaráðherra meini eitthvað með því að hann vilji koma á samkeppni, sérstaklega í ljósi þess að hann er mögulega að hjálpa Landssímanum að beita markaðsráðandi stöðu. Auðvitað á hæstv. fjármálaráðherra að svara spurningum sem til hans er beint og ganga úr skugga um að ekki sé verið að mismuna fyrirtækjum og samkeppni sé tryggð á markaði.

Síminn hefur legið undir fleiri ámælum, m.a. þeim að vera orðinn hálfgert flokksfyrirtæki Sjálfstæðisflokksins. Í stað þess að vera almenningsfyrirtæki sem þjónar fjarskiptum á markaði og tryggir að fleiri aðilar geti verið á markaðnum eru þeir jafnvel farnir að koma í veg fyrir samkeppni og breyta samkeppnisstöðu fyrirtækja. Við sjáum það á sjónvarpsmarkaði að allt í einu er Síminn sem er fjarskiptafyrirtæki kominn í fjölmiðlastarfsemi og farinn að kaupa í enska boltanum. Auðvitað verða menn að marka Símanum ákveðna stefnu, einnig í fjárfestingum, þegar Síminn getur ekki fjárfest í GSM-fjarskiptum á landsbyggðinni. Það er ekki hægt en það er hægt að fara með fjármuni úr landi til búlgarskra fyrirtækja. Þetta er furðuleg forgangsröðun.

Ég get heils hugar tekið undir efni frumvarpsins, þ.e. að fresta sölu Símans í ljósi þess hversu óhönduglega stjórnarflokkarnir hyggjast standa að sölunni, að tryggja ekki að grunnnetið sé undanskilið þegar selt verður.