131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

fjárhagur sveitarfélaganna og tekjuleg samskipti þeirra og ríkisins.

[10:33]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að afkoma sveitarfélaganna í heild er óviðunandi og hefur verið svo lengi. Vissulega er staðan misjöfn en þegar sveitarfélögin eru gerð upp sem ein heild þá hafa þau verið rekin með tapi og safnað skuldum samfellt í um einn og hálfan áratug. Þetta kemur t.d. fram í þjóðhagsáætlun fjármálaráðuneytisins, að vísu í nokkuð sérkennilegu samhengi. Þar segir á bls. 25, með leyfi forseta:

„Fjárhagur sveitarfélaga hefur batnað umtalsvert eftir rekstrarhalla undanfarin ár. Árið 2003 var afgangur á rekstri sveitarfélaga í fyrsta skipti frá árinu 1990.“

Svo segir í plaggi fjármálaráðuneytisins. Hið síðara er rétt, að sveitarfélögin hafa verið rekin með halla frá 1990. En það er rangt að það hafi verið afgangur á rekstri þeirra á síðasta ári. Nýjar upplýsingar frá Sambandi sveitarfélaga benda til um 2,8 milljarða kr. halla á rekstri sveitarfélaganna. Ég veit ekki í hvaða draumaheimi fjármálaráðuneytið lifir þegar það setur það á blað að fjárhagur sveitarfélaganna fari nú stórbatnandi.

Sveitarfélögin voru t.d. rekin með 8 milljarða kr. halla tvö síðustu ár, þ.e. 2003 og 2002. Það lætur nærri að þau hafi safnað um 35 milljarða kr. skuldum nettó á síðustu 10–11 árum. Eftirlitsnefnd sveitarfélaga tók nýlega til sérstakrar athugunar reikningsskil 47 af 101 sveitarfélagi sem sent höfðu inn gögn. Í framhaldinu var ákveðið að skrifa sérstaklega 23 sveitarfélögum, tæplega fjórðungi þeirra, til að krefja þau um nánari skýringar. Þetta er staðan.

Nú hefur ríkisstjórnin sett af stað verkefni um sameiningu sveitarfélaga og flutning útgjaldafrekra verkefna yfir til þeirra. Sú vinna virðist mörgum hafa byrjað á öfugum enda, þ.e. það vantar sem við á að éta. Tekjumálin sitja föst. Enginn fundur hefur verið í nefnd sem á að endurskoða tekjuleg samskipti ríkis og sveitarfélaga frá apríllokum að ég held. Enn hefur slíkur fundur ekki verið boðaður nú 7. október á þessu herrans ári.

Til að blása lífi í þetta var undirrituð viljayfirlýsing af hálfu félagsmálaráðherra, fjármálaráðherra og formanns stjórnar Sambands sveitarfélaga 17. september síðastliðinn. En þegar það plagg, sem mér tókst að koma höndum yfir, er lesið kemur í ljós að í því er ekkert nema bara falleg orð á blaði um einlægan vilja manna til að gera gott úr hlutunum. Hvar hefur þessi einlægi vilji verið undanfarin ár? Hans sér ekki stað í verki þegar hallar á sveitarfélögin í nánast öllum þessum samskiptum.

Skattbreytingar hafa kostað sveitarfélögin stórfé. Fjölgun einkahlutafélaga hefur kostað allt að 800–1.000 millj. kr. á ársgrundvelli. Sveitarfélögin draga styttra stráið í samskiptum á borð við húsaleigubótafyrirkomulagið, eyðingu refa og minka og þar fram eftir götunum.

Þessi staða sveitarfélaganna er algerlega óviðunandi. Ekki bætir það úr ef menn vilja í alvöru eitthvað með sameiningu sveitarfélaga. Sá þröskuldur sem víða er í vegi slíkrar sameiningar er ónógar samgöngur og er þá innleggið í það mál að skera vegafé niður um 1.900 millj. kr. á næstu árum. Hins vegar er mjög víða er bent á að það þýði lítið að ræða um sameiningu sveitarfélaga, t.d. á vestanverðu og norðaustanverðu landinu, nema gera úrbót í samgöngumálum þannig að hin nýju og áformuðu sveitarfélög geti myndað eina stóra samskiptalega heild.

Þetta ástand er óviðunandi. Það stendur þeirri mikilvægu velferðarþjónustu sem sveitarfélögin hafa með höndum fyrir þrifum og angi af því birtist okkur m.a. í kennaradeilunni, sem á sér rót í því að hluta að svigrúm sveitarfélaganna til að koma til móts við kröfur starfsmanna sinna um bætt kjör takmarkast við hinn bága fjárhag.

Ég tel að taka verði þessi mál til rækilegrar skoðunar á Alþingi á næstu vikum og mánuðum og það sé tómt mál að tala um sameiningarkosningu eða ákvarðanatöku um flutning verkefna fyrr en niðurstaða liggur fyrir og gripið hefur verið til aðgerða til að taka á fjárhagsvanda sveitarfélaganna.

Ég hef því leyft mér að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra eftirfarandi spurninga:

Hvert er almennt mat félagsmálaráðherra á afkomu sveitarfélaga um þessar mundir og möguleikum þeirra til að sinna verkefnum sínum með fullnægjandi hætti?

Telur félagsmálaráðherra ásættanlegt að eftirlitsnefnd skuli hafa fjármál hátt í fjórðungs sveitarfélaga í landinu til sérstakrar skoðunar?

Telur félagsmálaráðherra koma til greina að færa yfir til sveitarfélaganna hluta þeirra skatttekna sem ríkið áformar að afsala sér á næstunni samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinnar? (Forseti hringir.)

Að lokum: Verður fyrirhugaðri kosningu um sameiningu sveitarfélaga og endanlegum ákvörðunum um verkefnaflutning slegið á frest ef með þarf þar til niðurstaða er fengin varðandi endurskoðun á tekjulegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga (Forseti hringir.) og ráðstafanir hafa verið gerðar til að bæta afkomu þeirra sveitarfélaga sem lakast eru sett?