131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

fjárhagur sveitarfélaganna og tekjuleg samskipti þeirra og ríkisins.

[10:43]

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Af umræðunni síðustu daga er ljóst að fjárhagsleg samskipti milli ríkis og sveitarfélaga eru í ólagi. Birtingarmynd þess er kjaradeila grunnskólakennara og sveitarfélaga. Viðbrögð stjórnvalda eru vægast sagt undarleg því að ríkisstjórnin hefur óhikað lýst því yfir að þessi deila komi henni ekki við.

Þessi deila kemur ríkisstjórninni svo sannarlega við. Rót vandans er sú að sveitarfélögin hafa ekki fjárhagslega burði til að hækka laun kennara svo sómi sé að. Rót vandans er nefnilega fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaganna. Ég vil nefna tvö nýleg dæmi um að ríkisvaldið hugsar sama og ekkert um áhrif gerða sinna á sveitarfélögin og þá lögbundnu þjónustu sem þau veita.

Í fyrsta lagi voru kennaralaun í sögulegu lágmarki þegar grunnskólinn var fluttur til sveitarfélaganna. Þá var ljóst að launakostnaðurinn mundi hækka og þar með þyrftu sveitarfélögin aukið fjármagn. Þegar ríkisvaldið samdi síðast við framhaldsskólakennara fóru þeir langt fram úr launum grunnskólakennara sem áður höfðu verið á pari. Ríkið setti þar með ný viðmið í kjaramálum kennarastéttarinnar.

Ekki hefur fylgt fjármagn til samsvarandi hækkana til kennara á vegum sveitarfélaganna. Ríkisstjórnin hefur því komið því þannig fyrir að sveitarfélögin eru ekki samkeppnishæf við ríkið um starfsfólk með sams konar menntun.

Í öðru lagi hafa breytingar á skattalögum gríðarleg áhrif á afkomu sveitarfélaganna. Telja forustumenn Sambands íslenskra sveitarfélaga að þau verði nú af um 800–1.000 millj. kr. árlega vegna breytinga á skattaumhverfi fyrirtækja á undanförnum árum.

Virðulegi forseti. Ríkisvaldið er ekkert eyland. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar, ný lög og nýjar reglur og auknar kröfur um þjónustu hafa veruleg áhrif á sveitarfélögin. Það verður að hafa í huga alltaf. Kominn er tími til að ríkisstjórnin viðurkenni ábyrgð sína gagnvart afkomu sveitarfélaganna. Ástandið eins og það er nú er óþolandi fyrir íbúa þessa lands.