131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

fjárhagur sveitarfélaganna og tekjuleg samskipti þeirra og ríkisins.

[10:46]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Núverandi hæstv. félagsmálaráðherra hefur lagt mikla áherslu á að efla sveitarstjórnarstigið og haft til þess góðan stuðning innan ríkisstjórnar og í samstarfi við samtök sveitarfélaga. Það er að sjálfsögðu mjög gott mál og um það veit ég ekki annað en að sé góð samstaða almennt. Það er hins vegar mikill misskilningur að sveitarfélögin séu öll á vonarvöl. Þau eru mjög misjafnlega á vegi stödd. Sum standa mjög vel að vígi, sum jafnvel svo vel að þau telja sig ekki þurfa að nýta alla þá tekjustofna sem þau hafa nú í lögum. Munar þar ríflega milljarði króna sem þau eiga inni í ónýttum tekjum.

Svo er það reyndar þannig að tekjur sveitarfélaganna hafa á undanförnum árum verið að aukast meira heldur en ríkisins. Ef litið er á tölur Hagstofunnar t.d. á milli 1998 og 2000 þá hafa tekjur á hvern íbúa sveitarfélaga hækkað um ríflega 25% á föstu verðlagi en tekjur ríkisins um 9%. Af hverju er þetta? Það er vegna þess að fasteignaverð hefur verið að hækka og það eru hærri tekjur af fasteignastofnum, fasteignagjöldum, og síðan eru auðvitað tekjur íbúanna í landinu að hækka mikið og sveitarfélögin njóta þess í hækkandi útsvari. Allt er þetta að sjálfsögðu gott.

Hins vegar er ekki hjá því að líta að tiltekin sveitarfélög standa höllum fæti meðal annars vegna byggðavanda, vegna brottflutnings fólks. Í yfirlýsingunni frá því í september er sérstaklega fjallað um að rétt sé að taka á vanda þessara sveitarfélaga. Ríkisstjórnin skorast ekki undan því að taka þátt í því máli. Um það er sérstaklega fjallað í yfirlýsingunni. Ég leyfi mér að vitna í hana, með leyfi forseta:

„Í tengslum við fækkun og eflingu sveitarfélaga getur skapast aukin þörf fyrir fjármagn í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að aðstoða einstök sveitarfélög við sameiningu í samræmi við reglur sjóðsins. Þeirri fjárþörf verði mætt með framlögum úr Jöfnunarsjóði og, ef þörf krefur, með framlögum úr ríkissjóði á árunum 2005–2009“.

En ég vek athygli á því að ríkissjóður hefur aukið framlög sín í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga um milljarða króna frá árinu 1998 til þessa dags.