131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

fjárhagur sveitarfélaganna og tekjuleg samskipti þeirra og ríkisins.

[10:58]

Gunnar Birgisson (S):

Virðulegi forseti. Það er gaman að sjá hvað sveitarfélögin eiga allt í einu marga vini í þingsalnum. Ég fagna því alveg sérstaklega. Það sem hefur verið vandamál í samskiptum ríkis og sveitarfélaga undanfarin ár eru nokkur atriði. Þau hafa þegar verið nefnd hér. Það er t.d. breyting í einkahlutafélög og húsaleigubætur þar sem var byrjað með samning upp á 60% hjá ríkinu og 40% hjá sveitarfélögum. Nú er þetta öfugt. Nú er kostnaður sveitarfélaganna orðinn 60% og ríkið er með 40% þar sem eru einungis fastar upphæðir. Þá má nefna framlög til félagslegra íbúða. Svo eru ýmsar lagabreytingar og reglugerðarbreytingar sem fer lítið fyrir en í felst kostnaðarauki og síðan er mjög erfitt að fá uppgjör hjá ríkinu varðandi verkefni og verðbætur á þær fjárhæðir.

En nú liggur fyrir viljayfirlýsing milli félagsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um uppgjör á þessum málum og ég treysti því — ég þekki báða þá menn ágætlega sem eru í þessum ráðuneytum — að staðið verði við það og er tími til kominn. Vandamálið hefur verið hvað þetta hefur gengið allt seint og menn sitja margir óþolinmóðir í þeim málum. Síðan verða sveitarfélögin líka að horfa svolítið í eigin barm og það er ekki sama hvaða sveitarfélag á í hlut. Rekstur sveitarfélaga er afar misjafn og menn gleyma því í þessari umræðu að ef menn hækka þjónustugjöld þá kostar það peninga. Sveitarfélögin hafa undanfarin ár verið að auka þjónustu. Menn hafa verið að byggja íþróttahallir, þeir hafa verið að byggja menningarmiðstöðvar og ýmsa aðra hluti og eitthvað kostar allur þessi rekstur. Það er ábyrgðarleysi að tala eins og hérna var gert um að sveitarfélögin eigi að keyra allt á ríkið. Í sambandi við kennaradeiluna er það alveg fáheyrt því að hvað á að gera við aðra hópa eins og leikskólakennara eða aðra starfsmenn sveitarfélaganna? Ég vil ekki að sveitarfélögin hækki skatta á þegna sína. Það er nóg komið með samneysluna hér á landi þar sem við erum um það bil hæst innan OECD.