131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[11:12]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2004, 76. máli þingsins á þskj. 76.

Með frumvarpinu er lögð fyrir Alþingi endurskoðuð tekjuáætlun og tillögur um breytingar á fjárheimildum ýmissa fjárlagaliða ársins 2004. Frumvarpið byggir í senn á endurmati á helstu hagrænum forsendum fjárlaganna, áhrifum af lögbundnum útgjaldaliðum og ýmsum ákvörðunum ríkisstjórnarinnar um mál sem fram hafa komið eftir afgreiðslu fjárlaganna.

Eins og undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á að leggja frumvarpið fram í upphafi þinghaldsins, samhliða fjárlagafrumvarpinu. Með því móti er þinginu og fjárlaganefnd betur gert kleift að fjalla samtímis um áætlanir fyrir bæði árin og ljúka afgreiðslu frumvarpanna tímanlega eins og ráðgert er samkvæmt starfsáætlun þingsins. Ég held að margir geti verið mér sammála um að umfjöllun þingsins um þessi mál hafi verið að færast til betri vegar síðustu árin þótt ef til vill verði ekki allir á eitt sáttir um efni frumvarpsins.

Ég mun í þessari framsögu einungis stikla á stærstu atriðum frumvarpsins sem hér er til umræðu en vísa að öðru leyti til skýringa á einstökum málum í greinargerð þess.

Samkvæmt fjárlögum þessa árs, sem afgreidd voru í byrjun desember á síðasta ári, var áætlað að heildartekjur ríkissjóðs yrðu 282 milljarðar kr. Endurskoðuð áætlun gerir nú ráð fyrir að heildartekjur ársins verði rúmlega 290 milljarðar kr. eða 8 milljörðum kr. hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Það jafngildir tæplega 3% af tekjuáætlun fjárlaga ársins.

Endurmat teknanna tekur mið af innheimtunni það sem af er þessu ári og ber með sér að nýtt hagvaxtarskeið hefur gengið fram af meiri þrótti en fyrirséð var við undirbúning að setningu fjárlaganna. Þannig er nú talið að hagvöxtur verði 5,5% á þessu ári en við undirbúning fjárlaga var áætlað að hann yrði 3,5%.

Þessi auknu umsvif í atvinnulífinu og bætt afkoma fyrirtækja og heimila endurspeglast í því að skattar á tekjur og eignir einstaklinga og lögaðila verði taldir um 5 milljörðum hærri en samkvæmt áætlun fjárlaga og skattar á launaveltu og viðskipti með vörur og þjónustu um 4,7 milljörðum kr. hærri.

Á hinn bóginn lækkar áætlun um aðrar rekstrartekjur ríkissjóðs um 1,5 milljarða kr. Það er að mestu um að ræða endurskoðun á tekjum af dráttarvöxtum og álögðum sköttum og vöxtum af endurlánum ríkissjóðs en það eru tekjustofnar sem jafnan ríkir talsverð óvissa um.

Varðandi útgjöld ríkissjóðs eru gerðar tillögur um 6,3 milljarða kr. viðbótarfjárheimildir í frumvarpinu til að mæta ýmsum útgjaldatilefnum sem ég mun koma aftur að hér á eftir. Samsvarar þetta tæplega 2,5% af áætluðum útgjöldum samkvæmt fjárlögum ársins.

Hins vegar þarf að taka með í reikninginn að áætlað er að gjaldfærð útgjöld verði 800 millj. kr. hærri en þessar fjárheimildir í 1. gr. frumvarpsins. Eins og í fyrri fjáraukalögum stafar sá mismunur annars vegar af því að jafnan eru einhverjar heimildir í frumvarpinu vegna útgjalda sem þegar hafa verið gjaldfærð á liðnum árum og hins vegar af því að afgangsfjárheimildir og umframgjöld eru flutt frá fyrra ári og einnig til næsta árs. Nýting á fjárheimildum ársins getur þannig verið dálítið breytileg milli ára og verður að leggja mat á helstu tilvikin hverju sinni. Gjaldfærð útgjöld ársins 2004 eru þess vegna áætluð 7,1 milljarði kr. hærri en í fjárlögum eða 282,4 milljarðar. Samkvæmt þessu verður tekjuafgangur ársins þá rúmlega 1,1 milljarði kr. meiri en í fjárlögum eða 7,8 milljarðar.

Má því segja að frumvarpið beri þess merki að staða ríkissjóðs er að styrkjast og að áform um tekjuafganginn í fjárlögum ættu að geta gengið eftir og jafnvel gott betur.

Eins og fram kom í umræðum hér um fjárlagafrumvarpið fyrr í vikunni eru horfur á að sú þróun haldi áfram á næsta ári.

Þá vildi ég, herra forseti, víkja nokkrum orðum að breytingum á sjóðstreymi ríkissjóðs sem fram koma í 2. gr. frumvarpsins. Áætlað er að handbært fé frá rekstri aukist nokkru meira frá fjárlögum en tekjuafgangurinn eða um 4,1 milljarð kr. og verði jákvætt um 2,3 milljarða kr. í stað þess að rýrna um 1,8 milljarða eins og búist hafði verið við. Það á að mestu rætur að rekja til þess að innheimta álagðra tekna batnar á árinu. Fjármunahreyfingar lækka um 1,2 milljarða í frumvarpinu. Þar vegast á 2,9 milljarða kr. útstreymi í kjölfar uppgjörs við Reykjavíkurborg um lífeyrisskuldbindingar samrekstrarstofnana og 2,1 milljarðs kr. innstreymi vegna aukinna afborgana af veittum lánum.

Niðurstaðan er þá að horfur eru á að lánsfjárafgangur batni um 3,7 milljarða og verði nærri 17 milljarða kr. afgangur á lánsfjárjöfnuði á árinu 2004. Þessi aukni lánsfjárafgangur gerir það kleift að greiða niður skuldir um 3 milljarða kr. til viðbótar við þá 4 milljarða sem gert var ráð fyrir í fjárlögum og einnig að styrkja stöðuna við Seðlabanka Íslands. Gangi þetta eftir verður samanlagður lánsfjárafgangur áranna 1998–2004 orðinn ríflega 64 milljarðar kr.

Ég kem þá aftur að gjaldahlið frumvarpsins og helstu útgjaldatilefnum. Af 6,3 milljarða kr. fjárheimildum vegna aukinna útgjalda frá áformum fjárlaga eru rúmir 2 milljarðar kr. til félagsmálaráðuneytisins, einkum vegna 1 milljarðs kr. hækkunar á greiddum atvinnuleysisbótum, 300 millj. kr. viðbótarútgjalda Ábyrgðarsjóðs launa og um 250 millj. kr. aukningar á framlagi í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Útgjöld heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis aukast um rúma 2 milljarða kr., þyngst vegur 675 millj. kr. framlag til reksturs Landspítala – háskólasjúkrahúss. Rúmlega 550 millj. kr. eru vegna útgjalda sjúkratrygginga, einkum vegna lyfjakostnaðar, um 350 millj. kr. eru bætur vegna félagslegrar aðstoðar og um 300 millj. kr. útgjöld lífeyristrygginga vegna fjölgunar öryrkja umfram forsendur fjárlaga. Rúmlega 930 millj. kr. eru aukin útgjöld sem falla undir fjármálaráðuneytið, þar af eru 600 millj. kr. vegna vaxtabóta umfram áætlun og 300 milljónir vegna kostnaðar við kjarasamninga á almennum markaði umfram launaforsendur fjárlaga og dreifast þau útgjöld síðan á önnur ráðuneyti.

Útgjöld menntamálaráðuneytis aukast um 500 milljónir, þar af eru 250 vegna fjölgunar nemenda í framhaldsskólum, rúmlega 100 milljónir vegna lokaframkvæmda við Þjóðminjasafn og 100 millj. kr. eru hækkuð afnotagjöld til Ríkisútvarpsins sem nú renna í gegnum A-hluta ríkissjóðs eins og kunnugt er.

Útgjöld samgönguráðuneytis aukast um rúmlega 410 milljónir og þar af eru 375 millj. kr. vegna jarðgangaframkvæmda undir Almannaskarð og lúkningar þess verkefnis.

Útgjöld utanríkisráðuneytis aukast um tæplega 300 millj. kr. Þar munar mestu um tæplega 190 millj. kr. auknar tekjur Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli af öryggis- og lendingargjöldum en þeim er skilað til stofnunarinnar sem framlag til hennar í B-hluta.

Útgjöld dóms- og kirkjumálaráðuneytis aukast um tæplega 170 milljónir og vegur þar þyngst rúmlega 50 millj. kr. framlag til að endurnýja samning um Tetra-fjarskiptakerfið, 35 milljónir til að styrkja rekstrargrundvöll héraðsdómstóla og 35 millj. kr. framlag til að fjölga lögreglumönnum í Reykjavík.

Útgjöld landbúnaðarráðuneytis aukast um tæplega 165 millj. kr., þar af er 135 millj. kr. framlag vegna sauðfjárframleiðslu sem féll niður í fjárlögum.

Útgjöld forsætisráðuneytis hækka um 125 milljónir og vegur þar þyngst 70 millj. kr. framlag til niðurrifs á Sölvhólsgötu 11 í Reykjavík.

Loks lækka útgjöld viðskiptaráðuneytis um 90 milljónir vegna niðurlagningar á Flutningsjöfnunarsjóði sements og útgjöld sjávarútvegsráðuneytisins lækka um tæplega 470 milljónir þar sem gjald í Þróunarsjóð sjávarútvegsins var lagt af frá 1. sept. sl.

Aðrar breytingar eru minni og koma fram vegna ýmissa ófyrirséðra atvika, samninga og lagabreytinga.

Ég vil að lokum vekja athygli á því í sambandi við lánsfjárgrein frumvarpsins, 3. gr., að gert er ráð fyrir að ríkisábyrgðir vegna lántöku Íbúðalánasjóðs lækki um tæplega 5,5 milljarða kr. nettó. Þar er byggt á útreikningum sem gerðir voru áður en núverandi samkeppni í íbúðalánaveitingum hófst og verður því að gera fyrirvara við þær áætlanir og endurskoða þær að nýju fyrir afgreiðslu frumvarpsins.

Ég hef nú, herra forseti, farið nokkrum almennum orðum um þetta frumvarp og þau áhrif sem það hefur til að auka lánsfjárafgang og rekstrarafgang ríkissjóðs. Legg ég því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar þingsins.