131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[11:22]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að játa það að ég bjóst við þessu svari frá hæstv. ráðherra og mun að sjálfsögðu ekki í stuttu andsvari fara nákvæmlega yfir það að ég sé hæstv. ráðherra ósammála.

Ég mun þó spyrja hæstv. ráðherra um einn lið og af sérstakri tillitssemi við hæstv. ráðherra held ég mig að sjálfsögðu við hans eigið ráðuneyti.

Á bls. 77 í frumvarpi hæstv. ráðherra er fjallað um Rekstrarfélag stjórnarráðsbygginga við Arnarhól. Þar kemur fram að óskað er eftir eða gerð tillaga um 9,8 millj. kr. hækkun á fjárheimild rekstrarfélagsins, eðlilegt að því er virðist að öllu leyti að þessi upphæð sé þarna inni og hún er inni vegna þess að efnahagsskrifstofa fjármálaráðuneytisins flutti úr húsnæði að Lindargötu 9 um síðustu áramót. Ég geri þess vegna ráð fyrir því, herra forseti, að það hafi verið ákveðið einhverju fyrr að skrifstofan mundi flytja úr húsnæðinu, þ.e. að það hafi legið fyrir í desembermánuði a.m.k. að skrifstofan mundi flytja út, og þess vegna hlýtur það að hafa verið fyrirséð, vegna þess að það hefur væntanlega á sama tíma einnig verið ljóst að nýr leigutaki mundi ekki flytja inn 1. janúar. — Það vill nú reyndar þannig til að nýr leigutaki er ekki enn fluttur inn þannig að hér er gerð tillaga um það að rekstrarfélaginu séu bættir þeir ellefu mánuðir sem gert er ráð fyrir að þetta húsnæði verði ekki í notkun.

Herra forseti. Ég verð að biðja hæstv. ráðherra að færa ansi traust rök fyrir því að þetta hafi ekki verið fyrirséð þegar við afgreiddum fjárlög í desembermánuði árið 2003.