131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[11:50]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir góða og efnismikla ræðu en frekar var hún neikvæð. Hann gleymir því að fyrir nokkrum árum samþykktu menn fjáraukalög fyrir fjölda ára í einu, löngu síðar. Ríkisreikningur var samþykktur fyrir 10 ár á einu bretti. Ég vil taka undir og undirstrika það að hér er staðið mjög vel að verki, að skila fjáraukalögum á þessum tíma. Það er forsenda þess að hægt sé að beita aga. Það er hv. þm. einmitt að gera, að beita aga á framkvæmdarvaldið. Forsenda þess er að það skili þessum reikningum snemma.

Þegar hann nefnir það að ráðherra hafi fjárveitingavald þá er fjárveitingavaldið ekki meira en svo að við erum að ræða það og fara í gegnum það mjög nákvæmlega. Hæstv. ráðherra þarf að svara fyrir það. Þetta er því ekki alveg svo slæmt.

Stundum kemur fyrir að menn þurfa að samþykkja útgjöld sem ná til alls síðasta árs, til ársins 2003. Það er vegna þess að ýmislegt ófyrirséð getur gerst í rekstri fyrirtækja, t.d. geta fallið dómsmál vegna atburða ársins 2003.

Mér finnst líka slæmt hjá hv. þm. að hann nefni ekki að staða ríkissjóðs batnar frá fjárlögum. Hún er 2.000 millj. kr. betri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Heildarniðurstaðan er því bara afskaplega jákvæð. Ef menn vilja gagnrýna eitt og annað þá mega menn gjarnan gera það en þeir mega ekki vera svo neikvæðir að láta sem allt sé að fara í kaldakol.