131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[11:55]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. sérstaklega þá tillitssemi að hafa komið hér upp bara til að gefa mér meiri tíma. Ég mun snúa mér að því sem ég átti eftir í fyrra andsvari mínu, að svara hv. þm. varðandi það sem hefur gerst fyrir árið 2004. Frumvarpið fjallar um árið 2004. Það á samkvæmt fjárreiðulögunum ekki að fjalla um annað en árið 2004. Ég var að vekja athygli á því að fjárreiðulögin gera vissulega ráð fyrir að slík tilvik geti komið upp sem hv. þm. nefndi, að eitthvað upplýsist jafnvel ekki fyrr en árið 2004 varðandi árið 2003, svo dæmi sé tekið. En þá er gert ráð fyrir því í fjárreiðulögum að slíkt sé lagfært í fjárlögum næsta árs. Menn sáu þetta fyrir og ég tel að við eigum að fara eftir fjárreiðulögunum.

Nú getur vel verið, og ég vona að hæstv. ráðherra upplýsi það síðar í umræðunum, að eitthvað í fjárreiðulögunum sé ekki nákvæmlega eins og best verður á kosið. Þá verðum við að lagfæra þau lög en meðan þau lög gilda þá hljótum við að stefna að því að fara eftir þeim eins nákvæmlega og unnt er. En ef eitthvað má betur fara í lögunum þá eigum við hiklaust að fara í það.

Það er ekkert launungarmál að við höfum rætt það í hópi þingmanna Samfylkingarinnar að leggja til í þingsölum að þessi lög verði tekin til endurskoðunar, að settur verði þingmannahópur svipað og gert var þegar síðast var farið í málið til að fara yfir lögin. Ég tel að frá árinu 1997 til ársins 2004 ætti að vera komin nægileg reynsla af þeim lögum sem við búum við. Það er eins og með önnur mannanna verk, að þessi lög geta ekki verið fullkomin. Það hlýtur að vera hægt að bæta þau. Það er trúlega kominn tími til að fara í þá endurskoðun og kanna hvað við getum betur gert í þessum efnum. Ég trúi því að hæstv. fjármálaráðherra væri manna fegnastur yfir því ef áhugi væri á að skoða þessi mál. Hæstv. ráðherra hefur einna mesta reynslu af því að fara eftir þessum lögum og væri vissulega þörf á að reyna að nýta sér þá þekkingu við slíka endurskoðun.