131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[12:00]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2004 og er það í samræmi við lög um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, en þar er gert ráð fyrir að með frumvarpi til fjáraukalaga sé leitað eftir heimildum til frekari fjárráðstafana innan ársins en fjárlög gera ráð fyrir og enn fremur að uppfæra og færa til þær breytingar sem orðið hafa á tekjum yfirstandandi árs.

Það er ágætt að fá samhliða frumvarp til fjárlaga fyrir næsta ár og frumvarp til fjáraukalaga fyrir þetta ár. Það skiptir afar miklu máli að Alþingi haldi þeirri stöðu sinni sem því ber lagalega, að bera ábyrgð á fjárlagavaldinu, hvernig gjöldum er ráðstafað og að tekjuöflun sé í samræmi við þá ákvörðun sem Alþingi hefur tekið ákvörðun um. Venjulega fylgir tekjuöflunin þeim settu reglum en varðandi útgjöld hafa þau haft tilhneigingu til þess og oftar en ekki brugðið svo við að fjárlögin séu unnin með þeim hætti að þau kalli sjálfkrafa á breytingar. Að ekki sé við fjárlagagerðina viðurkenndar og tekið fullt tillit til skyldna stofnana og einstakra verkefna á vegum ríkisins og þær fái til þess nauðsynlegt fjármagn.

Aðstæður geta líka breyst innan ársins. Alþingi getur samþykkt lög á yfirstandandi ári sem geta þegar í stað haft í för með sér aukin útgjöld. Auk þess geta komið upp aðstæður sem krefjast þess að ákveðnum atriðum sé breytt í fjárlögum. Til þess að tryggja að Alþingi taki um þetta ákvörðun lagði ég fram á Alþingi í fyrra og hittiðfyrra tillögur til breytinga á lögum um fjárreiður ríkisins sem tryggja enn betur að Alþingi hafi þetta vald, standi ekki frammi fyrir gerðum hlut af hálfu framkvæmdarvaldsins eins og oft vill bregða við.

Ég hef lagt til að lögum um fjárreiður ríkisins verði breytt þannig að strax að vori verði lagt fram frumvarp til fjáraukalaga sem taki til þeirra breytinga sem fram hafa komið á vetrinum frá því að fjárlög voru samþykkt í desember árið á undan. Þá séu lagðar fram tillögur fyrir þingið og þingið afgreiði þær breytingar sem orðið hafa, bæði hvað varðar tekjur og sérstaklega gjöld. Ef ástæða er til væri hægt að leggja fram eins og nú er gert önnur fjáraukalög að hausti þannig að tryggt væri að Alþingi hefði tekið ákvörðun um þau útgjöld og þær breytingar sem gera þarf á gildandi fjárlögum. Allt of oft stendur Alþingi frammi fyrir því að framkvæmdarvaldið hefur tekið ákvörðunina og Alþingi þarf svo að staðfesta, sem er nánast formsatriði. Ég tel að með þeim breytingum sem ég hef lagt til verði þetta miklu skilvirkara og öruggara og Alþingi stæði á rétti sínum í meðferð fjárlaganna.

Frú forseti. Ég hef líka lagt til að fjárlagaferlið sé unnið í miklu nánari tengslum við Alþingi. Það var mjög slæmt og Alþingi setti niður vinnulega við það að Þjóðhagsstofnun var lögð niður. Hjá Þjóðhagsstofnun gátu alþingismenn og nefndir þingsins leitað eftir hlutlausri ráðgjöf og upplýsingum um framgang efnahagsmálanna. Núna eru þingmenn algerlega háðir því að fá upplýsingarnar frá fjármálaráðuneytinu. Ekki að það sé ekki eftir bestu vitund vönduð vinna en engu að síður er sjálfstæði þingsins svo mikilvægt hvað lýtur að fjármálum og meðferð þeirra og efnahagsmálum, að þingið hafi sjálfstæða stöðu og geti aflað gagna með sjálfstæðum hætti hjá óháðum aðilum. Þetta er ekki fyrir hendi og þess vegna er þingið mjög veikt í að fjalla um efnahagsmálin, um fjármálin og um einstakar breytingar á fjárlögunum eins og hér er einmitt verið að leggja fram með frumvarpi til fjáraukalaga. Ég tel mjög brýnt að þessu verði breytt og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lögðum fram í fyrra, og munum gera það aftur að öllu óbreyttu, tillögu um að stofnuð verði eins konar efnahagsstofa þingsins þar sem hægt væri að sækja upplýsingar þinginu til halds og trausts í þeirri vinnu sem það ber ábyrgð á.

Ég nefni þetta vegna þess að fjármálin, fjárlagaferlið og efnahagsmálin eru einn af hornsteinum þess sem við vinnum út frá og því mikilvægt að þingið haldi sjálfstæði sínu hvað það varðar.

Frumvarpið sem hér er lagt fram til 1. umr. gerir, eins og hæstv. fjármálaráðherra lýsti í upphafi, grein fyrir þeim breytingum sem hafa með eðlilegum hætti orðið á ýmsum teknaliðum sem hafa verið færðir upp eftir því sem staðan er og við best vitum. En þar eru líka tekin inn gjöld og gjaldaliðir sem hafa breyst á árinu, sumir vissulega ófyrirséðir en vitað um aðra.

Ég ætla ekki að fara mjög ítarlega í frumvarpið við 1. umr. Það fer að lokinni umræðu til fjárlaganefndar og þar gefst nefndinni tækifæri til að veita upplýsingar, staðreyna ýmislegt sem í frumvarpinu er og kalla til aðila sem henni finnst ástæða til til þess að vita hver staðan raunverulega er. Við 2. umr. fjáraukalaga verður þá hægt að taka umræðuna meira efnislega. Ég vil þó benda á einstök atriði sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs bentum þegar á við umræðu og afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár að væru vanáætluð og illa unnin og mundi valda vandræðum að taka ekki strax tillit til þeirra.

Ég minntist á framhaldsskólana í andsvari við hæstv. ráðherra áðan. Það var alveg ljóst við afgreiðslu fjárlaga í desember fyrir tæpu ári að það var vanáætlað til framhaldsskólanna og virtist vera hreinlega af ráðnum hug. Við vissum hvað voru margir í hverjum árgangi, öll gögn lágu fyrir um hvað þyrfti til þess að halda samsvarandi framhaldsskólarekstri eins og gert hefur verið undanfarið miðað við nemendafjölda. Félag framhaldsskólakennara, stjórnendur framhaldsskólanna, skiluðu meira að segja inn skriflegum erindum, nákvæmlega útfærðum um það hver nemendafjöldinn mundi að öllum líkindum verða á næsta ári og hvaða fjármagn þyrfti. Þetta lá allt fyrir. Samt var þrjóskast við og við munum eftir umræðunni í sumar þegar unglingarnir voru að sækja um skólavist í framhaldsskólunum og stóðu allt í einu frammi fyrir því, hundruð nemenda, að geta ekki fengið skólavist vegna fjársveltis framhaldsskólanna. Þetta var upplausnarástand.

Það skiptir miklu máli að sá rammi sem hið opinbera skapar og ber að skapa fyrir ungt fólk á menntunarleiðinni sé traustur og að hið opinbera gangi með góðu fordæmi í að byggja upp trúnað og gagnkvæmt traust milli aðila. Þá stóð allt í einu unga fólkið frammi fyrir því að allir framhaldsskólar landsins sögðu: Við höfum ekki fjármagn til þess að taka ykkur inn, stóran hóp nemenda, og þeir biðu vikum og mánuðum saman eftir svari. Nokkuð sem var vitað fyrir mörgum árum því menn vissu nákvæmlega hve margt fólk var fætt á ári fyrir mörgum árum. Þegar 15–16 ára unglingar voru að sækja um skólavist í haust höfðu þeir fæðst fyrir 15–16 árum þannig að þetta þurfti alls ekki að koma á óvart. Ábyrgðarhlutinn að velja þetta fólk til að skapa þeim þessa óvissu er mikill. Það ætti frekar að vera á hinn bóginn. Við ættum að hafa það sem markmið að skapa því unga fólki sem sækir um skóla trausta umgjörð, enda kom á daginn að það vantaði nokkur hundruð millj. kr. til að hægt væri að veita öllum nemendum skólavist. Loksins eftir mikið japl og jaml og tog á milli menntamálaráðherra og fjármálaráðherra að því er virtist var gefin yfirlýsing um að sótt yrði um heimild upp á 250 millj. kr. til þess að hægt væri að taka að minnsta kosti hluta af þessum nemendum inn. Enn þá standa úti nemendur sem ekki hafa fengið skólavist sem lentu aftast í röðinni á þeim úrvalslista þegar verið var að taka inn nemendur. Svo stendur í texta frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Nemendaspá bendir til þess að fjöldi ársnemenda geti orðið allt að 1.100 umfram forsendur fjárlaga.“ Þess vegna er 250 millj. kr. allt of lág upphæð, enda stendur í textanum að lækka eigi framlag kennara og nemenda jafnframt.

Frú forseti. Ég bendi á að svona vinnur maður ekki. Það er hægt að vera með hegningaraðferðir og sveltiaðferðir gagnvart ýmsum málaflokkum eða beita svokölluðu aðhaldi en ekki gagnvart skólafólki. Það gerir maður ekki og ég gagnrýni mjög harðlega vinnubrögð ríkisstjórnarinnar gagnvart framhaldsskólunum og því unga fólki sem þar stundar nám. Þetta var vitað fyrir ári og sú staða sem upp kom í sumar átti ekki að þurfa að koma til. Við munum fá þá aðila sem eiga hlut að máli, stjórnendur framhaldsskólanna, á fund fjárlaganefndar til þess að athuga hver staðan er og ef enn vantar fjármagn til þess að taka á móti nemendum með sómasamlegum hætti munum við beita okkur fyrir því af öllum mætti.

Ég vil nefna annað dæmi sem lýsa vinnubrögðum. Lagt er til að auka fjármagn til héraðsdómstóla upp á 35 millj. kr., sem er ágætt en ég efast um að það sé nóg. Þetta lá líka fyrir fyrir ári. Fulltrúar héraðsdómstólanna höfðu sent erindi inn til Alþingis, til fjárlaganefndar um að það fjármagn sem þar væri væri af svo skornum skammti að þeir gætu ekki haldið uppi eðlilegri málsmeðferð og vinnslu mála eins og þeim bæri skylda til lögum samkvæmt og til þess að réttarríkið virkaði. Þetta lá allt fyrir. Við lögðum einmitt líka til þá að þetta yrði viðurkennt en ekki væri verið að hleypa málinu í hnút. Við tókum utandagskrárumræðu á Alþingi sl. vor um þetta og áfram var þá lamið höfðinu við steininn. Það er svo mikilvægt í samfélagi okkar nú að héraðsdómstólarnir haldi sjálfstæði sínu, að þeir þurfi ekki að vera að ganga bónarveg að ráðherrum sem hafa sýnt að fara alla vega með vald sitt gagnvart dómstólunum.

Það er svo auðvitað mikilvægt að dómstólarnir fái sjálfstæða stöðu og hvers vegna á þá að vera að hengja þá og svelta þá með þeim hætti að skera niður héraðsdómstólana úti um land. Þetta var allt vitað fyrir ári síðan. Það er því ánægjulegt að menn skuli nú viðurkenna a.m.k. hluta af því og veita hér inn 35 millj. kr. en ég efast um að það sé nóg og við munum kanna það í fjárlaganefnd og fá þangað aðila frá héraðsdómstólunum til að gera okkur grein fyrir því. Ég sé hér ekki tekið á t.d. sýslumannsembættunum úti um land sem líka er af einhverri áráttu haldið í einhvers konar sveltitreyju. Við vitum það. Þeir sendu erindi inn til fjárlaganefndar á síðasta hausti. Við vitum að verið er að svelta þessa þjónustu þar líka. Reyndar er verið að efla stöðu ríkislögreglustjóra í Reykjavík en það er bara allt annar hlutur. Það er ekki sú almannaþjónusta sem sýslumannsembættin standa fyrir úti um land. Við vonum að þar verði ekki tekin upp vopnuð löggæsla eða að sérsveitir ríkislögreglustjóra verði sendar til þess að sinna almenn um löggæslumálum. Ég nefni það, frú forseti, að við munum líka m.a. af því að ég er að fjalla um dómstólana óska eftir því frá sýslumannsembættunum hvernig staða þeirra er.

Að lokum langar mig að nefna Landspítala – háskólasjúkrahús sem við tökum svo sérstaklega fyrir seinna, en hér er gert ráð fyrir 675 millj. kr. fjárveitingu á fjáraukalögum. Upphæð sem var vitað um og var reyndar hálflofað fyrir ári síðan. Mig minnir að meiri hlutinn hafi verið að tala um, jafnvel meðan fjárlögin voru enn í vinnslu og ekki búið að afgreiða þau, a.m.k. fljótlega á eftir kom fram að spítalinn mætti reikna með því að fá helminginn af þessum 1.200 millj. á þessu ári og hinn á næsta til þess að standa undir einhverjum hagræðingarkröfum sem settar voru. Þetta var rætt. Alla vega minnist ég þess að hafa heyrt þá umræðu. Við vissum þetta og það komu upplýsingar til fjárlaganefndar um að það þyrfti á annan milljarð króna til þess að Landspítali – háskólasjúkrahús gæti staðið við þá lágmarksþjónustu sem þeir vildu inna af hendi þar því það var nefnilega stríð í kringum Landspítalann. Hérna er þó lögð til 675 millj. kr. fjárveiting sem ég dreg í efa að sé nema bara brot af því sem þarf til að sjúkrahúsið geti staðið með eðlilegum hætti að þeirri þjónustu sem við viljum að það geri. En við munum að sjálfsögðu kalla stjórnendur Landspítala – háskólasjúkrahúss fyrir nefndina til þess að fá að heyra hvernig fjármál standa þar.

Frú forseti. Eins og ég sagði í upphafi kemur þetta frumvarp til fjáraukalaga til fjárlaganefndar og þar gefst okkur tækifæri til að fara betur í gegnum einstök atriði þess. Okkur gefst tækifæri til að kalla til aðila sem við munum þurfa að kalla til til að vita hver staðan almennt er hjá þeim. Við vitum þó að undanfarin ár hafa margar stofnanir verið reknar með halla, margar mikilvægar þjónustustofnanir á vegum ríkisins hafa verið reknar með halla og að hluta til kippt stundum inn á fjáraukalögum án þess í rauninni að fara ofan í eða virða þjónustuskyldur þeirra. Það kann aldrei góðri lukku að stýra að kaupa á börnin sín stígvél sem eru 2–3 númerum of lítil og sama má ekki heldur henda ríkisvaldið, að skammta og reikna stofnunum sínum svo (Forseti hringir.) lítið fjármagn að það sé utan við raunveruleikann.

Frú forseti. Við munum skoða þetta betur í fjárlaganefnd þegar málið kemur fyrir nefndina.