131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[12:20]

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2004. Samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins ber að leggja það fram og ég vil í upphafi geta þess að mér finnst til fyrirmyndar að frumvarp til fjáraukalaga sé lagt fram á fyrstu dögum haustþings þannig að okkur gefist kostur á að fjalla um það samhliða fjárlagafrumvarpi næsta árs. Ég vil því lýsa þeirri skoðun minni að mér finnst það til fyrirmyndar að frumvarpið komi fram strax í upphafi þings.

Í þessu frumvarpi er lögð fyrir Alþingi endurskoðuð tekjuáætlun og tillögur um breytingar á fjárheimildum ýmissa fjárlagaliða á árinu 2004. Þar er tekið tillit til m.a. nýrra lagasetninga, ófyrirséðra útgjalda, breytinga á forsendum og ákvörðunum ríkisstjórnarinnar um óskir til fjárveitingavaldsins um ný útgjöld. Í umræðunni um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2005 fjallaði ég almennt um ástand og horfur í efnahagsmálum og ríkisfjármálum og um mikilvægan þátt ríkisfjármála í hagstjórninni. Ég ætla ekki að endurtaka það í þessari umræðu heldur vísa til þeirrar ræðu sem ég flutti af því tilefni. Í fjárlögum ársins 2004 sem samþykkt voru í lok síðasta árs er gert fyrir 6,7 milljarða kr. tekjuafgangi á ríkissjóði á þessu ári. Þar voru áætlaðar heildartekjur 282 milljarðar og útgjöld rúmir 275 milljarðar. Endurskoðun áætlana samkvæmt því frumvarpi sem hér er til umræðu, fjáraukalaga 2004, gerir ráð fyrir að tekjuafgangur ríkissjóðs verði 1,1 milljarði meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum og verði alls 7,8 milljarðar. Þannig er gert ráð fyrir meiri tekjum en fjárlög gera ráð fyrir og það er einnig lagt til að fjárheimildir verði 6,3 milljörðum kr. hærri.

Almennt séð og á heildina litið má segja að hér sé um að ræða gott framlag til hagstjórnarinnar af hálfu ríkissjóðs og að þetta sýni bætta stöðu ríkissjóðs. Í frumvarpinu koma fram ýmsar upplýsingar sem vert er að gefa gaum og ég ætla í sjálfu sér ekki að fara yfir það í smáatriðum en ég vek þó athygli á því að samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að hreinn lánsfjárjöfnuður ríkissjóðs batni verulega og er það auðvitað mikið ánægjuefni. Lögð hefur verið mikil áhersla á að bæta skuldastöðu ríkissjóðs á undanförnum árum og það markmið er í fullu gildi og því tel ég að hér sé á ferðinni mjög mikilvæg þróun í þeim efnum. Við höfum auðvitað rætt það margoft að bætt skuldastaða sparar okkur útgjöld í formi vaxtagreiðslna þannig að það er mjög jákvætt og gott ekki síst til framtíðar litið. Það ber einnig að vekja athygli á því sem fram kemur í frumvarpinu og við ræddum reyndar áður í sambandi við fjárlagafrumvarp 2005 að gert er ráð fyrir að hagvöxtur á þessu ári verði 5,5% sem er ekki lítið og er væntanlega með því mesta sem við höfum séð. Það er auðvitað í samræmi við þau markmið sem unnið hefur verið eftir, að halda uppi góðum hagvexti, og ég tel ástæðu til að vekja athygli á því að hér er gert ráð fyrir að hagvöxtur ársins verði 5,5% og í þessu frumvarpi, í endurskoðaðri spá, er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði 2 prósentustigum meiri en gert er ráð fyrir í fjárlögum. Ég tel ástæðu til að halda því til haga, hæstv. forseti.

Ég vil einnig koma inn á það að ég tel að áætlanagerð á vegum ríkisins hafi farið mjög batnandi á undanförnum árum. Það hefur reyndar verið gagnrýnt í þessari umræðu eins og fleiri umræðum um fjárlög og fjáraukalög, menn hafa haldið því fram að ýmsu sé ábótavant í þeim efnum en ég fullyrði að vinnubrögðin hafi farið mjög batnandi og það er ánægjulegt og ég hvet til þess og veit reyndar að viðkomandi aðilar hafa áform um að gera enn betur og alltaf má gera betur. En ég tel ástæðu til að draga þetta fram í umræðunni, hæstv. forseti.

Ég legg einnig áherslu á það almenna sjónarmið að innihald fjáraukalaga eigi jafnan að vera hóflegt og sem minnst að umfangi og fyrst og fremst að innihalda fjárheimildir til að mæta sérstökum aðstæðum eins og kveðið er á um í lögum um fjárreiður ríkisins. Það er hins vegar út af fyrir sig eðlilegt að skiptar skoðanir séu um innihald svona frumvarps þar sem menn fjalla um einstök atriði þess. Eins og gengur er þar um að ræða ýmis atriði sem gefa tilefni til skoðanaskipta og það er bara eðlilegt. En það er auðvitað mikilvægt eins og við höfum margoft rætt að framkvæmdarvaldið umgangist þessa hluti af hófsemd. Ég tel hins vegar eins og ég hef sagt áður að framlagning fjáraukalagafrumvarpa hafi farið mjög batnandi, bæði það að nú er frumvarpið lagt fram í upphafi þings, á fyrstu dögum þess, sem er jákvætt og eins hefur umfang fjáraukalaga farið minnkandi á undanförnum árum sem ég tel einnig út af fyrir sig jákvætt og tel að þar gæti m.a. áhrifa af lögum um fjárreiður ríkisins þannig að þau hafi þá a.m.k. kallað fram ákveðinn árangur.

Ég vil, hæstv. forseti, nefna eitt atriði sem ég hef reyndar nefnt áður í umræðu, kannski ekki endilega í þessum stóli en annars staðar og velti því hér upp til umfjöllunar og umræðu vonandi, að ég tel að við eigum að skoða það hvort ekki sé rétt að taka það upp að frumvörp til fjáraukalaga verði ekki eingöngu lögð fram á haustþingi heldur einnig á vorþingi. Ég tel að slík breyting væri til bóta og ekki síst vegna þess að hún mundi fela í sér bættan aga og meiri aga í ríkisfjármálum og þar með bætt vinnubrögð. Við höfum rætt það bæði fyrr og nú að við viljum bæta vinnubrögðin og auka agann í ríkisfjármálunum. Því vil ég nefna þetta hér í því samhengi að ég tel að það sé vel og menn eigi að velta því upp hvort ekki sé rétt að fjáraukalög komi til umræðu og afgreiðslu Alþingis á vorþingi áður en þing fer í sumarhlé þannig að við séum ekki eingöngu að fjalla um þessi mál á haustþingi þegar jafnvel langt er liðið frá því að ákvarðanir voru teknar um tiltekna hluti. Ég tel að þetta sé mál sem við eigum að taka til umfjöllunar.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra. Frumvarpið fer nú til fjárlaganefndar til umfjöllunar og ég geri ráð fyrir því samkvæmt venju að þar komi fram einhverjar tillögur um auknar fjárheimildir eða jafnvel sparnað þannig að það verður fróðlegt að fjalla um þetta mál nú sem fyrr. Ég vænti þess að við eigum gott samstarf í nefndinni og veit að svo verður. Það er ákaflega góður og samhentur hópur í fjárlaganefnd og ánægjulegt að vinna með þeim hópi. Við munum síðan skila Alþingi tillögu um endanlega afgreiðslu á frumvarpinu þegar þar að kemur.