131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[13:31]

Jón Gunnarsson (Sf) (frh.):

Frú forseti. Ég var kominn þar í ræðu minni fyrir fundarhlé að ég var að fara yfir forsendur þjóðhagsspár og hve illa þær hefðu staðist, sem m.a. þýðir að skattur eða tekjur ríkisins aukast um rúma 8 milljarða kr. á rekstrargrunni frá forsendum fjárlaga. Skattur á fjármagnstekjur einstaklinga sem dæmi eykst um 2.100 milljónir. Þar á bak við eru að sjálfsögðu fjármagnstekjur upp á 21 milljarð kr., sem er dágóður skildingur svona til viðbótar við það sem búið var að áætla áður.

Það er reyndar til umhugsunar fyrir okkur að heildarfjármagnstekjuskattur á einstaklinga er áætlaður 7,7 milljarðar á þessu ári og að baki þess hljóta að liggja 77 milljarðar í fjármagnstekjum einstaklinga, tekjum sem eru í formi vaxta, arðgreiðslna og söluhagnaðar af hlutabréfum hjá einstaklingum einum á einu ári.

Gjaldstofn til tekjuskatts og útsvars í síðustu álagningu tekjuskatts nam 483 milljörðum. Þessi gjaldstofn kemur til af vinnu einstaklinga með höndum og höfði. Álagning á hann, að teknu tilliti til persónuafsláttar vegna tekjuskatts til ríkis, er um 25%, útsvarið er um 13% og nettótekjuskattur um 12%.

Það hlýtur að vekja okkur til umhugsunar um forgangsröð ríkisstjórnarinnar þegar kemur að skattamálum að tekjur sem skapaðar eru með vinnu bera að meðaltali 25% skatt til hins opinbera en ef tekjurnar verða til í formi vaxta, arðgreiðslna eða söluhagnaðar hlutabréfa þá skal einungis greiða 10% í skatt.

Er nokkur furða þó að allir reyni sem geti að koma tekjum sínum í seinna formið og greiða þannig mun lægri skatt en annars hefði orðið? Ef skattstofn til fjármagnstekna hefði borið sama hlutfall og almennar launatekjur hefði skattgreiðslan af þeim 77 milljörðum orðið 19,3 milljarðar en ekki 7,7 milljarðar.

Ég er svo sem ekki neinn sérstakur talsmaður skattpíningar eða að skattpína allt og alla en ég held að kominn sé tími til þess fyrir okkur að reyna að jafna þetta hrópandi óréttlæti aðeins.

Stimpilgjöldin eru líka skattur sem hækkar afar mikið milli fjárlaga og fjáraukalagafrumvarps. Það er ekki lítil hækkun að gera ráð fyrir 850 millj. kr. hækkun á þeim skatti. Þetta er dæmi um óréttlátan skatt sem oft lendir á þeim sem erfitt eiga með að borga. Þessi skattur og hin mikla aukning hans mun að hluta til éta upp það hagræði sem margir annars sæju sér í því að endurfjármagna lán sín í hinum nýju kjörum sem bankarnir bjóða nú á húsnæðislánum.

Ekki er lokið álagningu á lögaðila þannig að erfitt er að gera sér grein fyrir hver niðurstaðan verður þar. En í heildina tekið getum við sagt að skattamylla ríkisins malar nú sem aldrei fyrr og við sjáum í þeim áætlunum sem liggja fyrir að tekjur ríkisins verða geysilega miklar.

Einn lítill glaðningur til viðbótar fyrir ríkiskassann er sá að Áfengisverslun ríkisins mun greiða 500 milljónir aukalega í arð, eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi, til ríkisins af gróða sem safnast hefur upp hjá henni í sjóðum og það er venjan að þegar yfir flýtur í sjóðum áfengisverslunarinnar þá kallar ríkið eftir peningum í arðgreiðslur.

Förum þá í kafla sem heitir Lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir. Þar vakti athygli mína að gert er ráð fyrir að Landsvirkjun endurgreiði ríkinu 400 millj. kr. vegna virkjanarannsókna, sem ríkið hefur þá væntanlega ráðist í og Landsvirkjun á að njóta. Landsvirkjun þarf ekki að punga út fyrir þessu á einu bretti heldur borgar þetta á raðgreiðslum í formi skuldabréfs og mér finnst eðlilegt að spurt sé: Hvaða virkjanarannsóknir er hér um að ræða? Njóta önnur orkufyrirtæki sem ríkið er aðili að sömu fyrirgreiðslu, þ.e. að ríkið ráðist í rannsóknir og þau fyrirtæki endurgreiði það síðar svona eftir atvikum? Hvað er þetta skuldabréf til langs tíma og hvaða vaxtakjör ber það? Að síðustu, af því að við erum að tala um fjáraukalög: Var hér um ófyrirséðan atburð að ræða og á þessi gjörningur erindi inn í fjáraukalögin?

Í heimildakaflanum í frumvarpinu er óskað heimildar til að Flugmálastjórn Íslands ráðstafi 250 millj. kr. af eigin fé Alþjóðaflugþjónustunnar í tengslum við hlutafélagastofnun á grundvelli 7. gr. laga nr. 60 frá 1998. Ástæðan er sögð í skýringum að í frumvarpinu sé stofnunin að kaupa rekstur fjarskiptamiðstöðvarinnar á Gufunesi af Landssíma Íslands. Spurning hvort Landssíminn hefur þurft á því að halda að selja einhverjar eignir til að geta farið að sýna enska fótboltann. En þetta skýrir ekki fyrir mér hvaða hlutafélag er verið að stofna og með því að skoða 7. gr. laga nr. 60 skýrist það ekkert frekar.

En þessi grein segir, með leyfi forseta:

„Flugmálastjórn skal heimilt með samþykki samgönguráðherra að stofna og eiga aðild að fyrirtækjum sem eru hlutafélög, önnur félög með takmarkaðri ábyrgð eða sjálfseignarstofnanir með það að markmiði að vinna að rannsókn og þróun á starfssviði stofnunarinnar og hagnýta niðurstöður þess starfs.

Enn fremur er Flugmálastjórn heimilt með samþykki samgönguráðherra að stofna hlutafélag til að markaðsfæra og selja þjónustu stofnunarinnar.

Þá skal Flugmálastjórn heimilt, að fengnu samþykki samgönguráðherra, að eiga aðild að fyrirtækjum sem eru hlutafélög, önnur félög með takmarkaðri ábyrgð eða sjálfseignarstofnanir og fela þeim að annast framkvæmd og rekstur á einstökum þjónustuþáttum á starfssviði stofnunarinnar, enda sé slíku félagi eða fyrirtæki gagngert komið á fót í þessu skyni.

Fjárveitingar samkvæmt þessari grein skulu vera samkvæmt heimild í fjárlögum og samgönguáætlun.“

Ekki er óeðlilegt að óskað sé skýringa á því hvað þarna er á ferðinni og einnig hvort um er að ræða ófyrirséðan atburð sem á heima í fjáraukalögum eða, ef um er að ræða nauðsynlega stofnun hlutafélags, hvort ekki hefði mátt bíða fjárlaga ársins 2005. En ég geri mér ekki grein fyrir því í fljótu bragði hvað það er sem Flugmálastjórn er að fara að gera, hvort hún ætlar að reka þessa fjarskiptamiðstöð í Gufunesi og selja þá þjónustu einhverjum öðrum aðilum, hvort hún kemur til með að eiga þetta hlutafélag ein eða hvort einhverjir aðrir koma þar að og spurning um hvað þetta er og af hverju liggur svo mikið á að koma þessu inn.

Ef við skoðum gjaldaliðina þá eru, eins og áður hefur komið fram í umræðunni, nokkuð margir liðir sem menn velta fyrir sér af hverju eru í frumvarpi til fjáraukalaga en bíði ekki eftir fjárlögum ársins 2005. Þegar lesið er í gegnum skýringar við ýmsar fjárveitingar sem hér eru, þá veltir maður því oft og tíðum fyrir sér hvað sé á ferðinni.

Undir menntamálaráðuneytinu er styrkur til útgáfumála undir liðnum Ýmis fræðistörf. Þar er verið að sækja um 6 millj. kr. framlag til verkefnisins Þjóðsagan um Gretti, teiknimynd. Í fjárlögum er gert ráð fyrir 1 millj. kr. framlagi til verkefnisins, segir hér, en það átti að vera 7 milljónir.

Ég fór að velta fyrir mér þegar ég sá þennan texta hvernig þetta hefði verið í fjárlagavinnunni á árinu 2004 og mundi þá eftir að teiknimyndasagan um Gretti var eitt af mörgum góðum verkefnum sem við vísuðum til menntamálanefndar með það hvaða styrki ætti að veita hverju verkefni. Við fengum til baka frá menntamálanefnd að teiknimyndasagan um Gretti ætti að fá 1 millj. kr., það var tillaga þeirra. Við settum það inn og það er staðfest hér í sölum Alþingis að teiknimyndasagan um Gretti — sterka væntanlega, ekki köttinn Gretti — ætti að fá 1 millj. kr. Svo dúkkar upp í fjáraukalögum texti sem segir: Teiknimyndasagan um Gretti átti að fá 7 millj. kr. — átti að vera 7 millj. kr. Maður hlýtur að spyrja og um hugann fara orð eins og bananar og jafnvel spilling: Hvernig getur það verið þegar við erum búin að taka svona erindi fyrir, eitt af mörgum góðum — ég er ekki að lasta erindið — það fer í sinn farveg á þinginu til fagnefndarinnar sem skilar áliti, til fjárlaganefndar sem fer yfir það og staðfestir það, til Alþingis sem setur það í lög, og svo leyfir einhver sér að koma því inn í fjáraukalög að þessi upphæð hefði átt að vera 7 milljónir en ekki 1 milljón. Maður verður að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hver lofaði því að þetta ættu að vera 7 millj. kr.? Hver hefur þau völd á Íslandi að eftir að menntamálanefnd er búin að skila tillögu sinni og fjárlaganefnd er búin að skila sinni tillögu og Alþingi er búið að samþykkja lög að þá komi einhver og segi: Þetta er vitlaust hjá ykkur, þetta átti að vera öðruvísi, það var búið að lofa mér 7 milljónum?

Við hljótum að þurfa að fá svar við þessu því að ef þetta er hægt, ef við opnum fyrir þetta þá veit ég ekki hvar við endum. Þá hljótum við að enda í því að við setjum jú fram fjárlög, svo fara einhverjir vinir og vildarvinir að spyrja hina og þessa hvort þeir geti ekki fengið meiri peninga og þá ratar það bara inn í fjáraukalög.