131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[13:41]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég ætla að hefja ræðu mína á máli sem er nú ekki stórt í fjáraukalögunum en skiptir þá miklu sem málið varðar, en það er framlag til loðdýraræktar, um 20 milljónir á þessu ári. Það er ætlað til niðurgreiðslu á loðdýrafóðri. Greiðslan er hluti af samningi eða samþykkt ríkisstjórnarinnar upp á 116 millj. kr. sem eiga að renna til loðdýraræktunarinnar vegna vanda hennar, og þetta framlag upp á 20 milljónir á að veita í samræmi við álit nefndar sem kom út í maí 2004 um bráðan rekstrarvanda greinarinnar.

Nú eru það svo að Samband íslenskra loðdýraræktenda hefur gert greinargerð og samið reglur um hvernig eigi að úthluta þessum 20 milljónum. Tillögur nefndarinnar eða stjórnarinnar ganga út á það að nota fjárstuðning ríkisins til að loka a.m.k. þremur af fjórum einkareknum fóðurstöðvum sem starfræktar eru, loka sem sagt einkareknum fóðurstöðvum sem framleiða 26% af heildarframleiðslu loðdýrafóðurs í landinu. Til þess hefur Samband íslenskra loðdýraframleiðenda búið til sérstakar reglur til að útiloka einkareknar fóðurstöðvar.

Frú forseti. Ég get ekki séð annað en að þessar reglur og fyrirhuguð fjárútlát ríkisins stangist á við jafnræðisreglur og einnig á við heilbrigða meðferð á opinberu fé, að fara að nota opinbert fé til þess að loka einkareknum stöðvum. Það er óumdeilanlega mjög sérstakt, ef af verður, ef menn fara þessa leið sem allar líkur eru til, að Sjálfstæðisflokkurinn sem kennir sig stundum við markaðshyggju ætli að styðja slíkan gjörning. Mér finnst það ótrúlegt. Það er spurning hvernig hæstv. ráðherra muni þá skora á frelsislistanum ef sú leið verður farin að nota opinbert fé til að loka einkareknum fyrirtækjum. Mér finnst það ótrúlegt.

En stundum fer maður að efast um hvort Sjálfstæðisflokkurinn meinar eitthvað með því að styðja við bakið á einkarekstri og heilbrigðri samkeppni, og sérstaklega í ljósi þess að ég spurði hæstv. ráðherra út í starfsemi ríkisfyrirtækisins Landssímans á síðasta þingi.

Þeir sem starfrækja einkafyrirtæki í samkeppni við ríkisfyrirtækið hafa bent á að það beiti ekki heiðarlegum aðferðum í samkeppninni en notfæri sér einokunaraðstöðuna gegn fyrirtækjum í samkeppni á opnum markaði. Það er fáheyrt að hæstv. fjármálaráðherra skuli ekki getað svarað því og einfaldlega kannað það, spurt Landssímann hvort áburður þeirra sem standa í samkeppni við ríkisfyrirtækið eigi við rök að styðjast. Ég botna í raun ekkert í því hvers vegna menn svara því ekki í staðinn fyrir að koma með löng svör sem segja ekki neitt.

Mig langar einnig að gera að umtalsefni framlag til Ábyrgðasjóðs launa. Mér virðist framlagið sem fer í þennan lið mjög hátt, 800–850 millj. kr. sem renna í sjóðinn og farið fram á um 300 millj. kr. viðbótarfjárheimild í þessum fjáraukalögum. Ég held að það sé tími kominn til að staldra við og skoða hvort fara eigi aðra leið, að skylda fyrirtæki einfaldlega til að kaupa sér tryggingu. Þetta eru orðnar það háar upphæðir. Inn í þetta kemur að þeim sem standa skil á öllum gjöldum og launum finnst fyrirkomulagið jafnvel ýta undir óábyrgan rekstur, að menn geti stofnað fyrirtæki og ráðið fólk í vinnu og síðan hlaupið frá öllu. Menn telja jafnvel tíma til kominn að láta fyrirtækin kaupa tryggingu. Ég velti þeirri spurningu upp vegna þess að við sjáum nú fram á að þessi kostnaður fari í 800–850 millj. kr. af skattfé almennings.