131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[14:08]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa ágætu umræðu. Okkur gefst í fjárlaganefndinni ágætistækifæri til að fara yfir einstaka liði í fjárlagafrumvarpinu og leita svara við einstökum fjárveitingum í fjáraukalagafrumvarpinu. Ég hygg að ég muni fyrst og fremst færa slíkar spurningar fram á þeim vettvangi en vil nota þetta tækifæri til að beina til hæstv. fjármálaráðherra nokkrum almennum fyrirspurnum sem lúta að fjáraukalögum og þá kannski fyrst vegna þeirrar umræðu sem hér hefur verið í þinginu undanfarna daga um þau miklu frávik sem verið hafa á fjárlagafrumvarpi annars vegar og niðurstöðu ríkisreiknings hins vegar.

Nú er komið fram fjáraukalagafrumvarp fyrir árið 2004 sem eykur útgjöldin allnokkuð en þar hafa tekjur líka verið vanáætlaðar þannig að nettóútkoman er ríkissjóði hagstæð. Það er út af fyrir sig ánægjulegt en ég vildi spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann telji nú, þegar hillir undir lok árs, að fjárlögin og þessi fjáraukalög muni þá endurspegla næsta nákvæmlega þá niðurstöðu sem við munum síðan sjá í ríkisreikningi. Eru þar e.t.v. einhverjir liðir sem við eigum enn eftir að sjá sem víkja frá þeim áformum sem lagt var upp með fyrir ári í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2004?

Í öðru lagi vildi ég spyrja um afstöðu fjármálaráðherrans til fjáraukalaganna. Mér hefur fundist að skilja mætti á máli hans undanfarna daga að það væri í sjálfu sér ekki nema eðlilegur þáttur í rekstri ríkissjóðs að það þyrfti að sækja aukafjárveitingar í fjáraukalögum og að menn yrðu einfaldlega að gera ráð fyrir því. Það er út af fyrir sig sjónarmið en þá held ég að það sé mikilvægt að það liggi fyrir hversu mikið umfang fjármálaráðherrann telur vera eðlilegt í slíkum fjáraukalögum í auknum útgjöldum. Er t.d. þetta umfang, svona á bilinu 6–7 milljarðar í aukafjárveitingum, það sem hæstv. fjármálaráðherra þykir eðlilegt í aukafjárveitingum? Það er þá eðlilegt við umfjöllun um fjárlög hvers árs að taka tillit til þess að í raun og veru sé gefið, þegar lagt er upp í þann leiðangur, að útgjöld muni aukast um 5, 6 eða jafnvel 7 milljarða vegna aukafjárveitinga sem óhjákvæmilega séu og hæstv. fjármálaráðherra geri í raun ráð fyrir á hverju ári. Það hefur auðvitað áhrif á alla umræðu og umfjöllun um fjárlögin ef það eru fyrir fram gefin sannindi að það sé eðlilegt að vera í milljarðaaukafjárveitingum.

Ég vildi líka fá að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort gætt sé sérstaklega að þeim liðum fjárlaga sem aftur og aftur, ár eftir ár eru fastir liðir á fjárlögunum. Ég kallaði eftir yfirliti um það á síðasta ári hvaða fjárlagaliðir væru oftar en ekki á síðustu fimm árum inni á fjáraukalögunum. Ég sé að af þeim lista yfir 100 fjárlagaliði sem komu yfir aðila sem eru oftar en ekki á fjáraukalögum eru þetta árið liðlega 40 aðilar einmitt í þessu fjáraukalagafrumvarpi. Mér sýnist fljótt á litið að þeir séu með um 95% af aukafjárveitingunum og að það sé þess vegna nokkuð fyrirsjáanlegt hvaða liðir það eru sem eru alltaf aftur og aftur á fjáraukalögunum og sumir raunar hvert ár. Ég held að það séu einir 10 liðir sem eru öll sl. sex ár, sumir kannski eðlilega vegna þess að þeir eru þess eðlis en sumir ættu auðvitað ekki að vera þar.

Ég vil enn fremur spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann telji ekki fara illa á því að í þessum hópi sé að finna bæði Alþingi og forsætisráðuneytið. Það er nú einu sinni svo að eftir höfðinu dansa limirnir. Mér þætti vænt um að heyra afstöðu hæstv. fjármálaráðherra til þess hvort honum þyki ekki fara illa á því að það séu stöðugar og sífelldar aukafjárveitingar til þessara æðstu stofnana löggjafar- og framkvæmdarvaldsins.

Liðurinn Ýmis verkefni hjá forsætisráðuneytinu fer sífellt fram úr. Ég vildi þess vegna spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort það sé ekki rétt munað hjá mér að ríkisstjórninni séu fengnar á fjárlögum á ári hverju hundruð milljóna króna í ófyrirséðar ákvarðanir sem ríkisstjórnin þarf að taka um einstakar fjárveitingar. Er þá ekki töluvert svigrúm fyrir ráðherra eins og hæstv. forsætisráðherra til að koma með slík verkefni, leggja á borð ríkisstjórnar og þar sé þá fjármagn fyrir?

Um leið fagna ég því að aðeins ein af aðalskrifstofum ráðuneytanna er á þessum lista í ár, aðalskrifstofa utanríkisráðuneytisins, en mér þykir fara betur á því að sjá ekki aðalskrifstofur ráðuneytanna keyra fram úr heimildum sínum í fjárlögum eins og allt of margar gerðu samkvæmt þeim lista sem útgefinn var í fyrra. Mér finnst vera framför að þessu.

En einmitt um aðhaldið og eftirfylgnina, að sömu aðilarnir séu aftur og aftur að fara fram úr, vildi ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann hafi á síðastliðnu ári frá því að við ræddum fjárlög síðast með formlegum hætti þurft að veita formlegt tiltal eða áminningar eða gefa út viðvaranir til einstakra ríkisstofnana sem aftur og aftur hafa farið fram úr þeim heimildum sem þeim eru veittar lögum samkvæmt. Og af því að það er í sama anda og hefur verið rætt um áður um teiknimyndina um Gretti sterka, og hv. þm. Jón Gunnarsson og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hafa upplýst, vildi ég inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því hvort hinar umræddu 7 millj. hafi nú þegar verið greiddar úr ríkissjóði. Mér finnst það einfaldlega skipta máli fyrir virðingu manna fyrir fjárlögunum og fyrir því með hvaða hætti framkvæmd þeirra fer fram eftir að hafa heyrt hv. þingmenn lýsa því hvernig ákvarðanir um fjárveitinguna voru teknar. Ég geri mér grein fyrir því að hægt er að breyta þeim í fjáraukalögum en ég geri ráð fyrir að slík fjárveiting sé greidd út að fengnu samþykki Alþingis í þeim lögum sem hér verða afgreidd.

Að síðustu um eina af forsendunum í fjárlagafrumvarpinu sem hv. þm. Jón Gunnarsson kom inn á áðan um atvinnustigið. Ég vil fá að nota tækifærið til að árétta þá fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra vegna þess að þetta er ekki eina árið sem atvinnustigið er ofmetið og atvinnuleysi vanmetið talsvert. Í ár er áætlað 2,5% en verður 3%. Árinu áður var líka áætlað 2,5% og varð 3,3%. Á bak við þessar hlutfallstölur eru miklu hærri fjárhæðir í Atvinnuleysistryggingasjóði en ekki síst mjög margt fólk sem er atvinnulaust. Það sem vekur mig til sérstakrar umhugsunar er að ég man ekki betur og vildi óska eftir því að ráðherra staðfesti það, að þessar spár um atvinnuleysi fyrir sl. ár hafi verið gefnar út áður en ákvörðun um virkjanaframkvæmdir fyrir austan voru teknar og að spáin fyrir þetta ár verið gefin án þess að gera ráð fyrir stækkun Norðuráls. Hið síðarnefnda hygg ég að sé örugglega rétt hjá mér en bið hæstv. fjármálaráðherra að hjálpa mér með hið fyrrnefnda. Þessar framkvæmdir eiga auðvitað að skapa umtalsverða atvinnu og ef þær voru ekki í forsendunum þegar atvinnuleysinu var spáð og það hefur sem sagt árað betur í atvinnulífinu hefur maður kannski enn þá meiri áhyggjur af því að menn séu að vanmeta þróunina í atvinnustiginu og í atvinnuleysinu og ég vil biðja hæstv. ráðherra um að reifa þetta.