131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[14:18]

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Ég mun halda áfram þar sem frá var horfið í fyrri ræðu minni og tiltaka nokkur atriði sem ég vil gera athugasemdir við út frá því sem ég sagði í fyrsta hluta ræðu minnar. Ég minntist á fjölmiðlalögin í lok ræðunnar og þann kostnað sem þau höfðu í för með sér. Það er sérstaklega eitt atriði sem ég nefndi ekki áðan sem er ástæða til að gera athugasemd við, að kostnaðurinn af fjölmiðlanefnd menntamálaráðherra er færður undir forsætisráðuneytið.

Frú forseti. Þetta kallar fram þær hugrenningar að fjölmiðlanefnd menntamálaráðherra hafi verið fjölmiðlanefnd forsætisráðherra. Það hafi aldrei verið ætlunin að nefndin starfaði að einhverju leyti undir menntamálaráðherra. Ég hlýt að biðja hæstv. fjármálaráðherra um skýringu á því af hverju nefndarstörf á vegum menntamálaráðuneytisins eru færð undir forsætisráðuneytið og að í fjáraukalögum komi beiðni um að forsætisráðuneytið greiði kostnað af nefnd sem starfaði á vegum menntamálaráðuneytisins.

Ég náði ekki alveg að ljúka athugasemdum mínum varðandi framhaldsskólana og þessa sérkennilegu tölu, um 1.100 nemendur, sem virðist hafa dúkkað upp að því er virðist óvænt þrátt fyrir að um þetta hafi verið mikið rætt og bent á að þarna væri röng áætlun. Það er sérkennilegt að talan skuli vera svona há þegar tekið er tillit til þess að við 2. umr. um fjárlög var bætt inn 800 millj. kr. til þess að mæta vanáætluninni um nemendafjölda en að vísu var meðaltalið á hvern nemanda einnig hækkað. Það er nauðsynlegt að fá úr því skorið vegna þess að í frumvarpinu um fjáraukalögin segir, með leyfi forseta: „Og er miðað við að lækka meðalframlag á nemanda frá því sem gert hafði verið ráð fyrir.”

Er þá verið að lækka framlagið á þá 1.100 nemendur sem er bætt við eða er verið að lækka meðalframlagið á alla nemendur í framhaldsskólum landsins á yfirstandandi ári? Þetta kemur ekki glöggt fram í texta en nauðsynlegt að fá það fram, sérstaklega í framhaldi af því sem ég sagði áðan, að við 2. umr. fjárlaga fyrir þetta ár var meðalframlagið hækkað vegna þess að talin var ástæða til og virðist nú eiga að ganga til baka. Þegar það þarf meiri peninga er meðalframlagið lækkað en þá væntanlega náð upp í nemendafjöldann. Þetta hefur gerst undanfarin ár að ýmist er tölunni um nemendafjölda mætt eða tölunni um kostnað en aldrei virðist ætla að takast að ná hvoru tveggja í senn.

Nokkrir hv. þm. hafa talað um umframkostnaðinn vegna opnunar Þjóðminjasafnsins og gleðilegt að það skuli hafa tekist að opna það safn en jafnforkastanlegt að þurft hafi aukafjárveitingu til þess, vegna þess að í fjárlagavinnunni í fyrra lá þetta allt saman fyrir. Það þýðir ekkert að segja að þetta hafi verið ófyrirséð því þetta lá allt saman fyrir í skriflegum gögnum, meira að segja frá Þjóðminjasafninu. Mér er sérstaklega minnisstætt þar sem hér er talað um opnunarsýninguna því rökstuðningur með þeirri beiðni var mjög góður og því með ólíkindum að þetta skuli gerast, sérstaklega þegar vísað er til þess að það var margspurt um þetta í fyrra. Á þessu ári var spurt um þetta í tvígang í þinginu, fyrst í febrúar, og þá var ekki talin þörf fyrir neina fjármuni, og aftur í maí. Þá var reyndar upplýst að beðið yrði um 100 millj. kr. vegna opnunarinnar en frá því í maí hefur þetta hækkað um 20% svo beiðnin hljóðar nú upp á 120 millj. kr.

Í landbúnaðarráðuneytinu kemur fram afar sérkennileg athugasemd. Beðið er um rúmar 130 millj. kr. vegna álagsgreiðslna vegna gæðastýringar í sauðfjárrækt og skýrt á mjög eðlilegan hátt og engar efasemdir um það. En þetta er spurning um vinnubrögð. Hvernig getur það gerst að talan sem á að vera inni samkvæmt lögum sem samþykkt voru á árinu 2002 ef ég man rétt, þannig að það er búið að liggja fyrir mjög lengi, dettur út vegna einhverra mistaka, væntanlega í fjárlagaferlinu og enginn virðist taka eftir því frá því í októberbyrjun og fram í desember að töluna vanti? Maður veltir því fyrir sér hvort ráðuneytin fylgist ekki betur með en svo að þau lesi ekki einu sinni fjárlagafrumvarpið og fylgist með þeim fjármunum sem eiga að renna til þeirra. Því spyr maður: Hvaða vinnubrögð eru viðhöfð sem geta orsakað slíkt?

Það er hægt að koma víða við en ég verð að reyna að hoppa nokkuð yfir þetta. Varðandi löggæslukostnað, ýmis löggæslu- og öryggismál, er afar sérkennilegt mál sem ég held að sé alveg nauðsynlegt að hæstv. fjármálaráðherra útlisti á einhvern hátt fyrir okkur, en það er ævintýrið í kringum Tetra Ísland ehf. Þar er verið að biðja um 51 millj. kr. sérstaka hækkun vegna viðbótarsamnings en síðan segir að á þessu stigi liggi ekki fyrir skipting kostnaðaraukans. Æskilegt væri, ef hæstv. fjármálaráðherra hefur tök á því, að hann mundi nefna hvaða stofnanir koma þar við sögu og hvað hafi í raun gerst hjá Tetra Ísland ehf.

Varðandi félagsmálaráðuneytið kemur fram að aðalskrifstofan þurfi að fá tugi milljóna króna vegna breytinga á húsnæði og vísað til úttektar á öryggismálum. Við skulum vona að öryggismálin komist í lag með þessum 10 millj. kr. en þarna segir að þetta sé vegna úttektar. Þá er spurning hvenær hún var gerð og maður hlýtur að spyrja í framhaldinu: Hvernig er staðan á öðrum aðalskrifstofum ráðuneyta? Er búið að taka öryggismálin út þar eða var þessi einstaka skrifstofa tekin út? Við vonum að þetta sé í lagi á öðrum skrifstofum en ef ekki er nauðsynlegt að þar verði gerð úttekt.

Kjararannsóknarnefnd er að vinna að býsna mikilvægu og mögnuðu verkefni við að gera launakönnun í samvinnu við Hagstofuna og virðist það hafa gengið ágætlega. Í frumvarpinu kemur fram að í lok árs 2003 hafi náðst m.a. sá áfangi að launakönnun náði til útgerðarfyrirtækja á árinu 2004. Mun könnunin einnig ná til fjármálafyrirtækja, tryggingafélaga og lífeyrissjóða. Hér er því greinilega býsna þarft verk á ferðinni, en af hverju kemur þetta fram í frumvarpinu? Það liggur ljóst fyrir að könnunin er ekki ný, hún hefur verið unnin á árum áður þannig að ef menn hafa ætlað sér að vinna þetta eins og gert hefur verið á árinu 2004 hefði upphæðin að mínu mati átt að vera í fjárlögum þessa árs.

Hjá heilbrigðisráðuneytinu kennir ýmissa grasa en ég ætla að láta duga að nefna aðeins eitt sem vekur sérstaka athygli varðandi lækniskostnað undir liðnum Sjúkratryggingar. Þar er farið fram á 70 millj. kr. hækkun á fjárheimildum vegna lækniskostnaðar en áform um sparnað á þessu ári náðu ekki fram að ganga og eðlilegt að spurt sé hvað átti að spara sem ekki tókst. Seinni hlutinn er enn merkilegri. „Ekki varð af afslætti sérgreinalækna vegna eininga umfram samninga.“ Frú forseti. Hvaða afslátt er um að ræða? Af hverju var gert ráð fyrir að sérgreinalæknar gæfu afslátt á eitthvað sem ekki er samkvæmt samningum? Hvað höfðu menn fyrir sér í því að slíkt mætti takast?

Annað atriði hjá heilbrigðisráðuneytinu snertir Heilbrigðisstofnun Austurlands. Það er býsna merkilegt að sá liður þurfi að koma í fjáraukalagafrumvarp fyrir árið 2004 vegna þess að hér er eingöngu um að ræða 20 millj. kr. aukningu vegna aukinna umsvifa í kjölfar stóriðjuframkvæmda og virkjunarframkvæmda fyrir austan. Það var löngu búið að taka ákvarðanir um þessar framkvæmdir og var bent á af þessari stofnun að umfangið mundi að sjálfsögðu stóraukast. Þar af leiðandi lá það fyrir að þarna mundi þurfa að bæta verulega í en því miður var það ekki gert og verið að reyna að bæta það núna.

Frú forseti. Að lokum vil ég nefna orðalag sem vekur alveg sérstaka athygli hjá Hagstofu Íslands. (Forseti hringir.) Hagstofan hafði talið óhætt að reikna með áframhaldandi framlagi á sama hátt og önnur ráðuneyti. Þrátt fyrir að það væri ekki í fjárlögunum taldi Hagstofan að hún mætti gera ráð fyrir því þó Alþingi hefði ákveðið annað. Hvernig stendur á því, hæstv. fjármálaráðherra?