131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[14:39]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir alveg prýðilega umræðu á fundinum um fjáraukalögin fyrir þetta ár, bæði um einstök atriði frumvarpsins og eins almennt um málefni er lúta að meðferð fjáraukalaganna.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að ég er ekkert sérstaklega pirraður yfir þessu frumvarpi. Það er kannski í og með vegna þess að í ár er um að ræða tiltölulega lítil frávik frá fjárlögunum sjálfum og minni en við höfum þurft að glíma við undanfarin ár oft og tíðum. Frávikið gjaldamegin er 2,5% og ég held að það verði nú að segja, hvað sem líður einstaka þáttum þar, að 2,5% frávik í svona stóru dæmi er innan skekkjumarka. (Gripið fram í: Það gæti verið minna.) Það gæti verið minna og við skulum keppa að því sameiginlega að gera það minna.

Í þessu eru að sjálfsögðu, eins og við vitum öll, margar fjárhæðir sem byggja á áætlunum sem eru óvissar. Það var nefnt hérna t.d. áðan að liðir í Tryggingastofnun ríkisins væru ýmist að hækka eða lækka samkvæmt þessu frumvarpi. Það er vegna þess að upphaflegu áætlanirnar voru ekki öruggari en svo, sumt hækkar, annað lækkar eftir því sem líður á árið og hlutir skýrast. Sama er að segja t.d. um Atvinnuleysistryggingasjóð, atvinnuleysi hefur því miður orðið meira en við reiknuðum með fyrir ári síðan. En það hefur líka gerst að það var tekin sérstök ákvörðun um það í marsmánuði sl. að hækka þessar bætur um 11,3%, sem vitanlega var ekki vitað þegar fjárlögin voru afgreidd en hefur auðvitað áhrif til hækkunar núna. Svo bætist það við hvað varðar Atvinnuleysistryggingasjóð að vextir af inneign hans hjá ríkissjóði eru lægri en þeir voru vegna þess að vaxtastigið hefur lækkað. Margt af þessu og flest af þessu á sér því eðlilegar skýringar.

Einn hv. þingmaður spurði að því hvort útkoman úr fjárlögunum plús fjáraukalögunum yrði þá hin endanlega niðurstaða ríkisreiknings á næsta ári, hvort ég gæti þá fullyrt það og hvort ég væri þá ánægður með það. Ég hélt að ég hefði við 1. umr. um fjárlögin hér í fyrradag farið það rækilega yfir þetta atriði, sérstaklega í síðari ræðu minni, að spurningum sem þessari yrði ekki varpað hér fram. En ég skal útskýra aftur hvers vegna henni er ekki hægt að svara. Ég get gert það með tilvísun til eins máls sem nú er uppi hér í þjóðfélaginu og menn hafa gert að umtalsefni hér á Alþingi, sem er kennaraverkfallið.

Það vill nefnilega þannig til að lífeyrisskuldbindingar kennara eru enn þá a.m.k. á ábyrgð ríkisins. Ef kennaradeilan leysist með þeim hætti að dagvinnulaun kennara hækka meira en almennt gerist þá mun lífeyrisskuldbindingin sem því fylgir og mun gjaldfalla á reikninginn hjá ríkissjóði hækka sem því nemur. Getum við svarað því í dag hver sú tala er eða yrði? Nei. En gátum við þá kannski svarað því þegar við vorum að afgreiða fjárlögin í fyrra fyrir þetta ár, eins og haldið var fram hér í þingsalnum á þriðjudaginn var að við hefðum átt að geta? Auðvitað ekki.

Þess vegna er svarið við þessari spurningu það að við vitum ekki fyrir víst hvort þetta verður endanlega niðurstaðan út úr reikningnum. Hitt vitum við af hinum almenna rekstri ríkissjóðs, þar sem óreglulegir liðir eru ekki teknir með, að allt bendir til þess að þessi niðurstaða muni standast.

Ég var að enda við að segja að frávikið núna væri 2,5%, tæplega reyndar, í gjöldum miðað við fjárlögin, og ég var spurður að því hvort þetta umfang væri eðlilegt, 6–7 milljarðar kr., er það eðlilegt frávik? Það er ekki hægt að svara því. Það tengist m.a. þessu sem ég var að enda við að rekja varðandi skuldbindingar og annað þess háttar. Hins vegar er náttúrlega eðlilegt að stefna að því að þessi tala verði sem allra lægst alveg eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir var að skjóta hérna inn í. Um það eiga allir að geta sameinast. Og kannski er ein leið til þess að gera betur í þeim efnum sú að setja meiri fjármuni inn á liði sem eiga að dekka óviss útgjöld eða ófyrirsjáanleg atvik í sjálfum fjárlögunum, það er ein leið.

Við erum með sérstakan lið í fjárlögunum sem heitir Laun og verðlagsmál sem er reyndar í fjárlagafrumvarpi næsta árs heldur ríflegri en hann hefur oft verið vegna óvissu um þau málefni. Við erum með óviss útgjöld á ýmsum stöðum. Það er auðvitað ein leið að gera betur gagnvart því að rýmka slíkar fjárveitingar og reyna þá að draga úr því sem kemur inn á fjáraukalögin. En þá er jafnframt verið að framselja ráðstöfunarréttinn yfir því til ráðherranna. Vilja menn það kannski? Þetta er vandasamt. Auðvitað viljum við öll vinna saman að því að gera eins vel og við getum í þessum efnum.

Hv. þm. Helgi Hjörvar nefndi líka hvort það hefði ekki verið þannig að með óvissum útgjöldum mætti ná utan um útgjöld t.d. forsætisráðuneytisins og Alþingis. Það er liður í fjárlögunum sem heitir Ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar og er upp á 200 millj., var lengi 100 millj. en er núna 200 vegna þess að það koma ævinlega upp hlutir sem eðlilegt er að bregðast við. Við notum þann lið mikið til að bregðast t.d. við hjálparbeiðnum frá útlöndum, núna síðast vegna fellibylja í Karíbahafinu, áður vegna hörmungarástands í Súdan og jarðskjálfta í Íran o.s.frv. en einnig að sjálfsögðu vegna verkefna innan lands.

Auðvitað er ekki hægt að alhæfa um þessi atriði. Ef forsætisráðuneytið tekur upp á arma sína nýtt verkefni sem ekki var fyrirséð eða ekki var hægt að áætla fyrir með nákvæmni er ekkert við það að athuga að slíkt mál komi upp í fjáraukalagafrumvarpinu. Ég tel að það eigi við um Evrópunefndina sem hér er ákveðið að leggja til að veitt verði fjármagn til. Sama er að segja um endurnýjunarsamning um Vesturfarasetrið á Hofsósi og sama er að segja um að ljúka við Laxnessafnið á Gljúfrasteini með þeim hætti að það sé fullkominn sómi að og þá var best að klára það fyrst byrjað var á því og fyrst ekki var nægileg fjárveiting fyrir því á fjárlögum ársins.

Mér er ekki kunnugt um hvort forstöðumenn hafa fengið áminningar eða tiltal eða a.m.k. formlegar áminningar. Mér er kunnugt um að sumir þeirra hafa að sjálfsögðu fengið bréflegar athugasemdir frá sínum ráðuneytum hafi þeir farið fram úr þeim reglum sem gilda í reglugerðum um framkvæmd fjárlaga. Við í fjármálaráðuneytinu sendum öðrum ráðuneytum reglulega ábendingar um það efni og það er ætlast til að því sé fylgt eftir og það er að sjálfsögðu gert. Ég hef sjálfur ekki veitt forstöðumanni áminningu fyrir framúrakstur. Það hefur ekki verið tilefni til þess í mínu ráðuneyti. En kannski er tilefni til þess í einhverjum öðrum ráðuneytum þó svo að það hafi ekki verið gert og það er þá ágætt að fjárlaganefndin fylgi slíkum athugasemdum eftir ef hún telur að svo sé. Reyndar eiga ýmsar stofnanir góða vini og bandamenn í þinginu og í fjárlaganefndinni þannig að það þarf kannski skoða hlutina eitthvað í því ljósi en það á hins vegar eitt yfir alla að ganga í þessum efnum.

Varðandi efnahagsforsendur almennt í frumvarpinu sem nokkrir þingmenn hafa vikið að, t.d. varðandi atvinnuleysi, þá gildir auðvitað um það eins og annað að slíkar spár eru óvissu háðar og menn verða að horfast í augu við raunveruleikann hvað það varðar. Sú staða hefur verið uppi á árum áður að atvinnuleysi hafi verið ofáætlað, það hefur orðið minna og þá hefur verið hægt að minnka framlögin í atvinnuleysisbætur. Núna er það reyndar öfugt og það er dálítið andstætt því sem menn höfðu eðlilega átt von á vegna þess að menn héldu að það yrði meiri spenna á vinnumarkaðnum en raunin hefur orðið vegna stórframkvæmda. Skýringarnar á því eru kannski þær að það er meira erlent vinnuafl innan lands en menn reiknuðu með. Það hefur verið meiri framleiðniaukning o.s.frv. sem getur skýrt þetta. En ég ætla ekki að fara lengra út í þá sálma. Við vonum öll að sjálfsögðu að atvinnuleysið minnki eins og gert er ráð fyrir í spánni fyrir næsta ár þar sem reiknað er með að það verði 2,75% að meðaltali yfir árið.

Ég hyggst þá koma að nokkrum athugasemdum um einstök mál og ef mér tekst ekki að ljúka við að svara þeim treysti ég því að einhver þingmaður taki til máls svo ég geti talað í þriðja sinn þegar því er lokið. En ég vil hins vegar segja það strax að ég er ekki með á takteinum skýringar um hvert einasta atriði og fólk verður því miður, eins og þingmenn tóku reyndar fram, að sætta sig við að fá ítarlegri skýringar í fjárlaganefndinni.

Það er búið að tala um ýmis mál. Margir hafa látið orð falla um eitt lítið verkefni sem tengist Gretti sterka og ég skal með ánægju útskýra það mál eins og það blasir við mér vegna þess að það er ekki eins einfalt og látið er í veðri vaka af því að eins og ég hef skilið málið urðu mistök í fjárlaganefndinni og fjárveitingin sem ætluð var þessu verkefni lenti annars staðar. Hún lenti nefnilega á fjárlagalið eða undirlið sem kallaður er Menningar- og fræðsluverkefnið Grettistak, 7 millj. Þannig að þó svo að menntamálanefnd hafi lagt til 1 milljón skilst mér að fjárlaganefnd hafi ætlað sér þetta en sett það fyrir handvömm á annan lið og menn hafi meira að segja fengið þar meira en þeir höfðu beðið um en þeir tóku því auðvitað fagnandi og af miklum skilningi. Ég skal þó ekki hallmæla þeim lið neitt, ég held að það sé hið besta mál en upp úr þessu og samtölum milli mín og fjárlaganefndarforustunnar virðist þetta hafa verið niðurstaðan. Ég fékk síðan bréf frá þeim um þetta og lagði til í ríkisstjórninni að þetta yrði lagfært. Þess vegna er þetta mál inni í frumvarpinu. Þarna er þá um að ræða einhvers konar mistök sem ég fyrir mitt leyti tek mína ábyrgð á og aðrir sína eftir atvikum. Vona ég þar með að það mál sé upplýst.

Hérna hefur verið nefnt annað lítil mál sem er Snorrastofa. Þar hafa líka orðið mistök í meðferð máls en ég get alveg fallist á að orðalagið sem er í skýringum í fjáraukalagafrumvarpinu með því sé ekki heppilegt. Ég skal viðurkenna það strax að ekki er heppilegt að segja í fjáraukalagafrumvarpinu: „Þeir sem að Snorrastofu standa höfðu hins vegar miðað áætlanir sínar við að þessi fjárheimild yrði til staðar ...“ Það er ekki eðlileg skýring. Skýringin er sú að þarna urðu mistök. Þau eru sennilega okkur að kenna í ríkisstjórninni þegar tillögur bárust frá okkur til nefndarinnar. Þetta var fellt brott þó að það hafi ekki verið ætlunin og við erum að reyna að leiðrétta það en það átti ekki að skýra það með þessum hætti. Ég tek á mig þau mistök.

Varðandi verkefni eins og Efri-Brú sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson nefndi hér þá er það líka handvömm, býst ég við. Þetta gerist seint á árinu og málið er ekki klárað. En hvað ætli þingmenn hefðu sagt ef ekki væri óskað eftir þessum fjármunum til þess að borga þessa húsaleigu? Þá hefði jafnvel verið beðið um utandagskrárumræðu ef marka má þann áhuga sem þingmenn hafa almennt á starfsemi þeirra ágætu samtaka sem þarna eiga hlut að máli.

Varðandi Tetra-kerfið sem tveir þingmenn hafa spurt um geri ég ráð fyrir að óskað verði eftir betri upplýsingum um það í nefndinni sjálfri. Ég hef ekki þær upplýsingar tiltækar en auðvitað er alveg ljóst að þar hefur ekki allt farið eins og ætlast var til, því miður, og það er búið að kosta mikla peninga. Þar hafa orðið mistök af ýmsu tagi sem ástæða er til að fara vel yfir í nefndinni. Ég tek mjög undir það.

Varðandi önnur atriði þá hygg ég að ég verði að geyma mér þau þar til ég fæ tækifæri til að koma aftur í ræðustól sem ég hyggst gera.