131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[14:57]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski ekki miklu við þetta andsvar hv. þm. að bæta að öðru leyti en því að ég vil taka fram að ég tek á mig þau mistök sem í frumvarpinu eru en ekki á mitt starfslið.

Það eru atriði sem hv. þm. nefndi áðan, ef mér leyfist að koma aðeins inn á það, sem ég gæti kannski skýrt aðeins betur en þó eru þau ekki mörg. Ég held að ég verði að vísa þeim flestum til fjárlaganefndar í frekari úrvinnslu. Hv. þm. spurði t.d. um hvaða sparnaður náðist ekki í sjúkratryggingunum varðandi læknana. Þar voru liðir sem menn höfðu reiknað með að geta náð ýmist með samningum við þá eða með því að minnka þá þjónustu sem keypt væri af þeim. Það virðist ekki ætla ganga eftir, enda eru þeir ekkert sérstaklega ginnkeyptir fyrir slíku, þeir ágætu starfsmenn ríkisins, og skal ég ekki hafa fleiri orð um það.

Varðandi aðalskrifstofu félagsmálaráðuneytisins urðu þau atvik þar sem kölluðu nauðsynlega á úrbætur í öryggismálum í því ráðuneyti og hygg ég að búið sé að ganga frá slíkum hlutum í öðrum ráðuneytum áður eins og þingmaðurinn spurði um.

Varðandi Hagstofuna held ég að það hafi líka verið ákveðin mistök í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið í ár að láta ekki eitt yfir alla ganga hvað varðar framlög vegna upplýsingasamfélagsins. Ráðuneytin höfðu öll þar ákveðna púllíu. Hagstofan datt út en það er líka óheppilegt orðalag að segja að hún hafi mátt reikna með að hún fengi eitthvað meira úr því að það var ekki í frumvarpinu. Ég tek undir að það á sama við um þetta og Snorrastofu, þarna er ekki heppilega að orði kveðið.