131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Málefni aldraðra.

85. mál
[15:21]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér lítið mál sem kemur árlega fyrir Alþingi. Það er fast gjald sem rennur í Framkvæmdasjóð aldraðra og á að vera 5.738 kr.

Þetta er gjald sem nánast allir landsmenn greiða sem eru komnir yfir ákveðinn aldur, komnir á skattgreiðslualdur, og ég vildi velta upp þeirri hugmynd að þetta gjald yrði sett inn í persónuafsláttinn og hann lækkaður sem þessu nemur til að einfalda alla innheimtu, einfalda kerfið og einfalda lagasetninguna. Þá þyrftum við ekki að ræða hérna á hverju ári um svona hluti. Þetta eru svipaðar hugmyndir og ég hef bent á í sambandi við innheimtu á útvarpsgjaldi sem líka er eins konar nefskattur, reyndar á fjölskyldur. Hann kemur mjög svipað út og persónuafslátturinn og það má einfalda kerfið mikið með því að steypa þessum gjöldum öllum saman í persónuafsláttinn og lækka hann sem því nemur.

Ég varpa þessu bara fram til skoðunar fyrir þá nefnd sem fær frumvarpið til athugunar. Ég vil sem sagt vinna að því að hafa skatt- og bótakerfin eins einföld og hægt er án þess þó að það komi niður á þeim tilgangi skatt- og bótakerfa að afla tekna í ríkissjóð og greiða út bætur til þeirra sem minna mega sín.