131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Stéttarfélög og vinnudeilur.

5. mál
[15:55]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni um þá alvarlegu atburði sem hér eru uppi, tilraunir útvegsmanna til að brjóta á bak aftur samningsrétt verkalýðshreyfingarinnar, samningsrétt Sjómannasambands Íslands. Það er ekki nóg með að þeir sýni siðlausa framkomu heldur stríðir hún beinlínis gegn lögum og aðför þeirra að sjómönnum er aðför að öllu launafólki á Íslandi. Ég tek mjög eindregið undir þau orð sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hafði um það efni.

Eins og fram hefur komið hefur frumvarpið verið áður til umræðu í þinginu og ég hef áður sett fram sjónarmið mín í þá púllíu. Ég styð þá meginhugsun sem er að finna í frumvarpinu og tel það vera mjög til góðs. Í stuttu máli gengur það út á að tryggja afturvirkni samninga ef þeir dragast á langinn fram yfir þann tíma sem síðustu samningar falla úr gildi. Skulu þeir gilda aftur í tímann 6 mánuði ef samið er innan þess tíma, en ef tíminn er lengri sem samningurinn dregst skal helmingur tímans koma til frádráttar.

Ég tel meginhugsunina vera góða. Staðreyndin er sú að sú var tíðin að samningar voru iðulega látnir gilda aftur í tímann og það var sannarlega svo á hinum opinbera vettvangi, þá var það nánast reglan að menn sömdu um afturvirkni samninga. Á þeim tíma var samningsrétturinn á hendi heildarsamtaka. Sérkjarasamningar voru gerðir af hálfu einstakra stéttarfélaga, t.d. innan BSRB, en samningsrétturinn var hjá bandalaginu þannig að þá var að mörgu leyti auðveldara um vik. Samningsrétturinn breyttist í ársbyrjun 1987, þá fór samningsrétturinn til einstakra félaga, samningsaðilum fjölgaði mjög fyrir bragðið og eftir því sem leið á 10. áratuginn og núna í komandi samningum er það líka fyrirsjáanlegt að samningsaðilafjöldinn er orðinn geysilega mikill og mikil örtröð hjá sáttasemjara ríkisins. Hvað gerist þá? Þeir sem hafa í hótunum eða ákveða að beita verkfallsvopni komast fyrst að samningsborðinu. Aðrir eru látnir bíða og yfirleitt er reynt er að semja við stóru félögin fyrst en hin látin bíða.

Þarna er kominn ákveðinn hvati inn í kerfið til að beita verkfallsvopninu ef ætlunin er að þrýsta sér áfram því menn verða beinlínis af kjarabótum fyrir hönd félagsmanna sinna ef þeir komast ekki snemma að samningsborðinu. Ég held að ef menn vissu að samningurinn yrði afturvirkur mundi það skapa annað andrúmsloft að þessu leyti. Mér finnst hins vegar að íhuga þurfi eitt, að ef ákveðið er að beita verkfallsvopninu, ef ákveðið er að knýja samning fram með verkfalli er ég ekki viss um að mér fyndist sanngjarnt að afturvirknin yrði lögbundin. Mér finnst að þetta eigi að gilda fyrst og fremst ef menn eru án þess að vera með verkfallsvopn á lofti og ná ekki samningum af einhverjum öðrum ástæðum. Ef menn eru hins vegar í verkfalli geti þeir samið um afturvirkni en ég er ekki viss um að eðlilegt sé að það sé lögþvinguð afturvirkni. Ég held að með því að fara þá leið sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson leggur til yrði samningsumhverfið allt miklu betra, ég er alveg sannfærður um það.

Ég styð því meginhugsun frumvarpsins en tel að íhuga þyrfti þennan þátt sérstaklega því ég er ekki alveg viss um að mér fyndist hann vera eðlilegur. En það er náttúrlega ekki gott og mjög óeðlilegt að það séu beinlínis hagsmunir fyrir atvinnurekandann að draga samninga á langinn vegna þess að hann þarf þá ekki að greiða kjarabætur á þeim tíma. Í stuttu máli styð ég því meginhugsunina í frumvarpinu.