131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Stéttarfélög og vinnudeilur.

5. mál
[16:16]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég átti þess ekki kost að vera við umræðuna þegar hv. þingmaður flutti framsögu fyrir þessu máli. Nú er þeirri umræðu lokið. Ég hef örlítið hlýtt á þau rök sem hv. þingmaður flutti fyrir máli sínu seinni part umræðunnar.

Ég vildi einungis koma hér upp og lýsa því yfir að ég styð meginhugmyndina sem er að finna í frumvarpi hv. þm. um kjarasamninga og vinnudeilur. Ég er þeirrar skoðunar að ef frumvarpið yrði samþykkt, hugsanlega með ákveðnum breytingum sem hv. þingmaður reifaði hér í síðustu ræðu sinni, þá væri strax búið að útrýma ákveðnum hvata sem óneitanlega er fyrir hendi fyrir annan samningsaðilann, þ.e. atvinnurekandann, til þess að láta samninga danka.

Hv. þingmaður Ögmundur Jónasson benti á ákveðinn galla á útfærslu frumvarpsins. Flutningsmaðurinn hefur hins vegar bent á hvernig hægt er að leiðrétta þann ágalla. Ég vænti þess að það verði tekið fyrir við meðferð málsins.

Ég vildi líka segja um deiluna sem sprottin er upp í tengslum við togarann Sólbak á Akureyri að ég styð Sjómannasambandið í þeirri deilu. Ég tel að þar sé ekki um neitt annað að ræða en tilraun til launalækkunar þó hún sé vel falin með umbúnaðinum sem útgerðarmaðurinn beitir í málinu, en ég tel að hér sé um grundvallaratriði að ræða sem Sjómannasambandið verði að slást fyrir ef það ætlar ekki að láta svipta burt þeim grundvelli sem verkalýðshreyfingin hefur í reynd slegist fyrir síðustu áratugi.