131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[16:18]

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Mig langaði til að leggja orð í belg eftir það sem fram hefur komið um frumvarpið sem hér er til umræðu, frumvarp til laga um breytingu á lögum um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf. Eins og fram kemur á þingskjalinu þá eru flutningsmenn þessa frumvarps þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, háttvirtir þingmenn Jón Bjarnason og Steingrímur J. Sigfússon en Steingrímur er eftir því sem ég best veit hluthafi í Landssíma Íslands og virkur þátttakandi á fjármagnsmarkaði hér á Íslandi og er það vel. Ég vil þakka hæstv. forseta kærlega fyrir að taka þetta mál hér á dagskrá, vegna þess að það stóð ekki til eftir því sem mér skilst, en það gerði mér kleift að taka þátt í þessum umræðum.

Eins og fram kemur í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sölu Landssíma Íslands verði frestað til ársloka 2008. Ef ég man rétt þá er það svo að þetta frumvarp er í grundvallaratriðum endurflutt frá fyrra þingi, þá var efnisatriði frumvarpsins örlítið breytt, þ.e. þá var gert ráð fyrir því að Landssími Íslands yrði ekki einkavæddur og seldur.

Ég tel að það sem mestu máli skiptir í frumvarpinu sé sú grundvallarhugmyndafræði sem þar kemur fram og er hér til umræðu. Þess vegna tel ég ástæðu til að taka þátt í umræðunni.

Í greinargerð með frumvarpinu segir, og það er kjarninn í hugmyndafræðinni sem hv. flutningsmenn aðhyllast, með leyfi forseta:

„Það er skoðun okkar í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að það séu engin haldbær rök fyrir einkavæðingu Símans. Að fyrirtækið sé, eins og allt er í pottinn búið og við aðstæður í landinu okkar, langbest komið áfram sem öflugt almannaþjónustufyrirtæki í opinberri eigu.“

Þetta er sú stefna sem þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs stendur að hvað varðar framtíð Landssímans. Hún er skýr. Hún byggir að mínu mati á gamaldags sósíalisma og ofurtrú flutningsmanna á ríkisrekstri, en vantrú þeirra og jafnvel að sumu leyti ákveðinni fyrirlitningu á einstaklingsframtaki og frjálsum markaðslögmálum.

Ég verð að játa að þegar ég hlýddi á umræðurnar sem áttu sér stað um frumvarpið í gær trúði nánast ég ekki mínum eigin eyrum þegar ég hlustaði á málflutning hv. flutningsmanna og raunar annarra sem tóku þátt í umræðunni. Það hvarflaði að mér að ég væri ekki staddur á Íslandi, heldur frekar í Albaníu eða á Kúbu, vegna þess að sá sósíalistamálflutningur sem hér var haldið á lofti var slíkur að ég hefði talið að þannig hugmyndafræði fyrirfyndist ekki lengur á Íslandi, en það reyndist vera rangt hjá mér.

Ég verð hins vegar að nota tækifærið og hrósa flutningsmönnunum fyrir að vera samkvæmir sjálfum sér. Þetta er sú hugmyndafræði sem þeir hafa predikað hér síðustu 20–30 árin, en það breytir því ekki að ekki líkar mér þessi málflutningur.

Það ætti í sjálfu sér ekki að koma flutningsmönum frumvarpsins á óvart þegar ég lýsi mig algerlega ósammála þeirri stefnu sem mörkuð er í frumvarpinu varðandi framtíðarrekstrarumhverfi Landssímans og því rekstrarumhverfi sem flutningsmenn frumvarpsins sjá fyrir sér á fjarskiptamarkaði.

Í þessu máli kristallast að mínu mati sá grundvallarmunur sem er á hugmyndafræði vinstri manna sem trúa á opinber afskipti og hugmyndafræði okkar sem unnum frjálsri samkeppni og frjálsum viðskiptum. Ég tel það miklu heillavænlegra að stjórnvöld fari í þveröfuga átt við þau stefnumið sem fram koma í frumvarpinu. Ég tel að hið opinbera eigi ekki að vera þátttakandi á samkeppnismarkaði en ef það er þátttakandi á slíkum markaði, þá eigi að leita allra leiða til að losa markaðinn undan því oki sem vera opinberra aðila skapar slíkum mörkuðum og leita allra leiða til að koma eignarhaldi þannig fyrirtækja úr höndum opinberra aðila og yfir í hendur einkaaðila.

Því tel ég að í stað þess að slá einkavæðingu Landssímans á frest, eða koma í veg fyrir hana eins og er í rauninni kjarninn í málflutningi flutningsmanna frumvarpsins, þá eigi stjórnvöld miklu frekar að leita allra leiða til að einkavæða Símann og gera það sem fyrst. Ég harma það í rauninni að Síminn hafi ekki verið einkavæddur nú þegar. Það hefði verið miklu heillavænlegra ef Landssími Íslands hefði verið einkavæddur fyrr.

Eins og ég sagði áðan þá aðhyllist ég þá stjórnmálaskoðun að ríkið eigi ekki að annast rekstur þar sem aðkoma einkaaðila er möguleg. Ég tel hugsanlegt að ríkið sé kaupandi þjónustu, en það á alls ekki að vera veitandi hennar. Með tilkomu einkaaðila og einkavæðingar á ýmsum sviðum opinberrar þjónustu næst fram nauðsynlegur fjölbreytileiki í rekstri og valfrelsi einstaklinga eykst. Þetta hefur reynslan sýnt okkur og hinn frjálsi markaður hefur sannað það að hann svínvirkar, neytendum og þjóðfélaginu öllu til hagsbóta. Hlutverk ríkisins á að mínu mati fyrst og fremst að vera til að tryggja framboð og aðgengi að tiltekinni þjónustu, en ekki endilega til að framkvæma hana. Það er æskilegt að einkaaðilar veiti samfélagsþjónustu í eins ríkum mæli og kostur er, svo samkeppni fái notið sín. Þannig minnka ríkisumsvif, en tækifærin margfaldast.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það beri að skoða alla þætti ríkisrekstrarins og leita leiða til þess að gera hann einfaldari og skilvirkari. Það á að nýta krafta einkaframtaksins við framkvæmd þjónustunnar. Ef hægt er að bjóða út verkefni á samkeppnismarkaði, þá á að gera það. Ef hægt er að einkavæða fyrirtæki í ríkiseigu, þá á líka að gera það.

Við verðum að hafa verkefni ríkisins í sífelldri endurskoðun líkt og verkefni og áherslur einkafyrirtækja eru í sífelldri endurskoðun. Ríkið á að hætta með verkefni sem einkaaðilar geta sinnt.

Það er engin spurning í mínum huga að þátttaka ríkisins í atvinnulífinu hefur hamlandi áhrif á starfsumhverfi fyrirtækja í landinu. Með því að færa ríkisverkefni á samkeppnismarkað má efla nýsköpun á sviðum sem hingað til hafa verið nær algjörlega einokuð af hinu opinbera. Með því má skapa grundvöll fyrir samkeppni og nýsköpun sem er til þess fallin að efla íslenskt atvinnulíf og getur orðið grundvöllur fyrir vexti þess og framþróun í framtíðinni. Slík markmið eru góð og að þeim hljótum við að stefna.

Ég tel frumvarpið sem hér er til umfjöllunar hins vegar ekki fallið til þess að leiða til framfara. Í því felst afturför og eins og ég sagði áðan vantrú á einstaklingsframtakið og hinn frjálsa markað.

Þessi málflutningur er svo sem ekki nýr af nálinni hjá stjórnmálamönnum sem aðhyllast ríkishyggju og opinber afskipti af atvinnulífinu. Íslenskir vinstri menn hafa gjarnan verið mótfallnir einkavæðingu opinberra fyrirtækja, en sagan sýnir okkur hins vegar að þeir hafa haft rangt fyrir sér.

Í dag þætti t.d. fráleitt að ríkið eignaðist að nýju og starfrækti mörg þeirra fyrirtækja sem einkavædd hafa verið. Ég get nefnt sem dæmi Lyfjaverslun ríkisins, Gutenberg prentsmiðjuna, Ferðaskrifstofu ríkisins og Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar (Gripið fram í.) ... já, og Viðtækjaverslun ríkisins, hv. þingmaður. Þessar einkavæðingarhugmyndir þóttu róttækar á sínum tíma, þ.e. fyrir u.þ.b. áratug, en ég hygg að þær þyki sjálfsagðar nú.

Ég er einnig þeirrar skoðunar, af því ég er að fjalla almennt um einkavæðingu, að einkavæðing ríkisviðskiptabankanna hafi verið einn merkasti áfanginn í efnahagssögu okkar á síðustu árum. Ég leyfi mér að halda því fram að það sé rangt sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að einkavæðing ríkisbankanna, hafi ekki verið af hinu góða, hafi verið beinlínis skaðleg. Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Til að mynda hefur einkavæðing bankanna verið olía á þennan eld og hraðað samþjöppun og fákeppni sem skaðar hvort tveggja í senn, íslenskt viðskiptalíf og neytendur.“

Þetta er einfaldlega rangt, alrangt. Hverjum hefði dottið í hug þegar bankarnir voru einkavæddir að þeir mundu vaxa og dafna á svo undraskömmum tíma sem raun hefur orðið á og væru orðin fyrirtæki af þeirri stærðargráðu sem standast erlendum bönkum og fjármálafyrirtækjum fyllilega snúning í alþjóðlegri samkeppni á fjármálamarkaði? Þetta er frábær þróun, hv. þingmaður, Ögmundur Jónasson. Þetta er ekki slæm þróun.

Ég var að skoða Fréttablaðið í dag. Þar kemur fram á forsíðunni að hagnaður íslenskra fjármálafyrirtækja hefur aldrei verið meiri og nálgast 70 milljarða kr. Þetta er mjög jákvæð og góð þróun. Hvað haldið þið að þetta þýði fyrir atvinnulífið í landinu og skatttekjur ríkisins? (Gripið fram í: Og láglaunahópa?) Já, og láglaunafólk. Ég kem nú að því.

Svo er það rangt að einkavæðing ríkisbankanna hafi stuðlað að fákeppni. Eigendur bankanna nú er miklu fleiri en þeir voru áður en bankarnir voru einkavæddir. Fyrir einkavæðingu bankanna ríkti hér fákeppni. Þá voru allir viðskiptabankarnir í eigu ríkisins. Í dag er engin fákeppni til staðar. Nú skipta eigendur bankanna tugum þúsunda. Þetta er fólkið í landinu.

Samkeppni á fjármálamarkaði hefur heldur aldrei verið meiri og hún hefur skilað sér sem vítamínsprauta fyrir íslenskt atvinnulíf og bætt hag neytenda, þar á meðal láglaunafólks. Besta dæmið um það eru nýkynnt húsnæðislán bankanna á betri vaxtakjörum en áður hafa þekkst á Íslandi og gera má ráð fyrir að þau húsnæðislán og vaxtakjör sem bankarnir eru að bjóða núna spari íslenskum neytendum 7–8 milljarða í formi lægri vaxtagreiðslna. Telja flutningsmenn þessa frumvarps að slík þróun sé af hinu slæma? Það væri gott að fá svör við því. Að minnsta kosti kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að þeir telja þróunina slæma. En er það slæmt að vaxtakjör á húsnæðismarkaði hafi lækkað og muni skila íslenskum neytendum 7–8 milljörðum í aðra hönd? Ég get ekki séð að það sé slæmt. (ÖS: Er það ekki Íbúðalánasjóði að þakka?) Nei, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, þetta er ekki Íbúðalánasjóði að þakka. Það er ekki Íbúðalánasjóður sem stóð fyrir því að lækka vaxtakjör, það var einkaframtakið. Það voru hinir einkavæddu bankar sem riðu á vaðið og kynntu lægri vaxtakjör á húsnæðismarkaði en áður hafa þekkst. (ÖS: S-hópur Framsóknarflokksins.) Það getur vel verið að S-hópur Framsóknarflokksins hafi eitthvað um það að segja en mér er alveg sama hvaðan gott kemur. (ÖS: Já, það er nefnilega það.)

Ég minni hv. þm. líka á það að ávinningur skattgreiðenda af einkavæðingu síðustu ára hefur verið gríðarlegur. Þá er ég ekki aðeins að vísa til þess söluandvirðis sem runnið hefur í ríkissjóð og nýttur hefur verið til annarra hluta í samfélaginu, uppgreiðslu skulda og lækkunar skatta. Ég vísa líka til þess að þau opinberu fyrirtæki sem seld hafa verið fengu framlög úr ríkissjóði, með öðrum orðum úr vösum skattgreiðenda, og þau framlög numu hátt á annan tug milljarða á verðlagi ársins 2004 síðustu sex árin fyrir einkavæðingu. Þá má ekki gleyma því að ekki er langt síðan Landsbankinn, svo dæmi sé tekið, átti undir högg að sækja í rekstri sínum meðan hann var í ríkiseigu og þurfti á aðgerðum hins opinbera að halda. (Gripið fram í: Það var allt orðið ...) Nú er staðan hins vegar þannig að þessir bankar eru sterkar fjármálastofnanir eins og ég vísaði til áðan samanber frétt á forsíðu Fréttablaðsins í dag að þetta eru sterkar fjármálastofnanir sem þurfa ekki á neinni fyrirgreiðslu frá opinberum aðilum að halda og sýnir og sannar hversu vel einkavæðingin hefur tekist. (ÖJ: Þú ert að tala um lán sem var greitt til baka. Það var ekki stuðningur, þetta var engin...)

Ég er þeirrar skoðunar að ef ekki hefðu verið gerðar breytingar á þessum fyrirtækjum og öðrum opinberum fyrirtækjum sem hafa verið einkavædd þá veit í sjálfu sér enginn hvernig rekstur þeirra hefði verið og hvað hann hefði kostað skattgreiðendur umfram það sem raun varð á. (Gripið fram í: Skipaútgerð ríkisins) Já, Skipaútgerð ríkisins, það var nú eitt fyrirtækið, hv. þm., sem þurfti á opinberri aðstoð að halda.

Herra forseti. Það er að mínu mati engum blöðum um það að fletta að aukið frelsi á markaði hefur leyst úr læðingi krafta einkaframtaksins og gríðarleg verðmætaaukning hefur átt sér stað á undanförnum árum með batnandi rekstri fyrirtækja og þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði. Samkeppnin hefur verið innleidd á fjölmörgum sviðum og aukin á öðrum. Einkavæðingin hefur skapað aðstæður fyrir íslensk fyrirtæki til þess að vaxa á sviðum sem áður voru einokuð af ríkinu. Styrkur fyrirtækjanna, frelsi þeirra til athafna, vaxtar og samkeppni á markaði hefur nýst til útrásar og verðmætasköpunar fyrir landið. Hún hefur aukið frjálsræði, skapað auknar þjóðartekjur, meiri atvinnu og nýtingu á þekkingu sem fyrirtækin hafa byggt upp.

Það sem við þurfum að gera í dag er að ganga lengra í þessa átt. Næsta skref er einkavæðing Landssímans. Með því að einkavæða Landssímann verður komið á heilbrigðri samkeppni á fjarskiptamarkaði sem ég tel að muni koma íslensku viðskiptalífi og neytendum mjög til góða.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson hélt hér ræðu í gær í umræðu um þetta frumvarp og hann spurði: Hvað er að? Af hverju eigum við að vera að einkavæða og selja þetta fyrirtæki, þetta fjöregg sem skilar hagnaði í ríkissjóð, fyrirtæki sem veitir góða þjónustu o.s.frv.? Hvað er að því að ríkið eigi þetta fyrirtæki?

Mig langar til að svara þeirri spurningu. Ég tel reyndar að ég hafi gert það með rökstuðningi mínum fyrr í þessari ræðu sem var svona almenn um einkavæðingu og kosti hennar.

Hvað er að því að ríkið reki símafyrirtæki? Í fyrsta lagi tel ég að það sé ekki hlutverk ríkisins að standa í slíkum rekstri. Að mínu mati er það ekki hlutverk ríkisins að reka símafyrirtæki frekar en að reka útvarpsstöð, sjónvarpsstöð eða önnur slík fyrirtæki sem eiga heima á samkeppnismarkaði og einkaaðilar geta sinnt. (SigurjÞ: Skjár 1.)

Í öðru lagi ríkir ekki heilbrigð samkeppni á fjarskiptamarkaði meðan ríkið er á þeim markaði. Ég er þeirrar skoðunar, þeirrar pólitísku skoðunar að samkeppni eigi að vera frjáls og hún er ekki frjáls þegar ríkið er hluti af þeim markaði.

Í þriðja lagi tel ég að eignarhaldið á fyrirtækinu hamli mjög vexti þess og stækkun og tækifærum í framtíðinni.

Af því að hv. þm. Sigurjón Þórðarson nefndi kaup Símans á félagi sem var hluthafi í Skjá 1 þá er það ágætt dæmi. Landssíminn er fyrirtæki sem hefur fjárfest í öflugu dreifikerfi, hefur verið að dreifa sjónvarpsefni og það væri mjög eðlilegt fyrir slíkt fyrirtæki að reyna að auka eignir sínar og tryggja sér efni til þess að nýta þessa fjárfestingu. (Gripið fram í: Ríkisstjórnin.) Ég tel hins vegar að það hafi verið mjög óheppilegt að Síminn sem fyrirtæki í ríkiseigu hafi verið að hasla sér völl á þeim markaði. En það er mjög eðlilegt að stjórnendur Símans taki þessa ákvörðun engu að síður út frá hagsmunum fyrirtækisins. Það hefði að mínu mati verið miklu betra ef einkaaðilar hefðu ráðist í þessa fjárfestingu, það er engin spurning.

En vandamálið er hins vegar eignarhaldið, það er ekki fyrirtækið. Gagnrýni mín byggir eingöngu á eignarhaldinu á fyrirtækinu. Það er eignarhaldið, eignarhald ríkisins á hlutabréfum í fyrirtækinu sem kemur í veg fyrir að fyrirtækið geti vaxið og dafnað eins og það gæti gert ef það væri eingöngu í eigu einkaaðila.

Ég vona að ég hafi svarað spurningu hv. þm. Ögmundar Jónassonar með þessum þremur punktum. Í ljósi þess sem ég hef sagt tel ég að það frumvarp sem hér er til umræðu sé skref í ranga átt. Það er skref í þá átt að hefta samkeppni á Íslandi, að hefta frjáls viðskipti og það felur í sér stefnumörkun sem ég get engan veginn fellt mig við og mun ekki í þessu máli frekar en öðrum sjá mér fært að styðja.