131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[16:38]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja og fræðast hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni því ég veit ekki betur en að hann sé mjög ofarlega á frelsislistanum og mikill áhugamaður um samkeppni. Því væri fróðlegt að fá að heyra aðeins um það vegna þess að stefna Sjálfstæðisflokksins er að undanskilja ekki grunnnetið frá sölu Símans. Ef það er ekki gert og fyrirtækið selt með grunnnetinu mun kaupandinn verða í einokunaraðstöðu og þess vegna geta komið í veg fyrir samkeppni. Þess vegna væri ágætt að fá svör við því hjá hv. þm. hvort einokunaraðstaða sé eðlisbetri ef hún er í höndum einkaaðila en ekki í höndum hins opinbera.