131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[16:41]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Nú er það svo að grunnnetið tryggir einokunaraðstöðu og menn verða bara að horfast í augu við það. Það er alveg sama í þessu og í sambandi við raforkukerfið að þegar við settum lög á síðasta þingi þá fóru menn og bjuggu til sérfyrirtæki. Þetta snýst ekki endilega um það hvort fyrirtækið sé í einkaeign, sameign eða ríkiseign. Þetta er bara eðlilegt ef menn í raun og veru meina eitthvað með samkeppni, en ég er nú farinn að efast um að Sjálfstæðisflokkurinn meini eitthvað með samkeppni.

Það hefur ítrekað komið fram að þegar ég hef spurt hæstv. fjármálaráðherra út í rekstur Símans hefur hann veigrað sér við að svara spurningum sem snúa að því hvort Síminn hafi misnotað markaðsráðandi og einokunaraðstöðu sína. En það eru nefnilega fyrirtæki sem starfa á þessum markaði sem telja að svo sé. (Forseti hringir.)

En hæstv. fjármálaráðherra hefur slegið skjaldborg um Símann.