131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[16:49]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við þurfum að hafa nokkrar áhyggjur af því sem er að gerast í íslensku efnahagslífi og þar á meðal stórfelldum lántökum, erlendum lántökum íslenska bankakerfisins. Þetta mál er því miklu flóknara en nemur hagnaðartölum bankanna, miklu flóknara og verður að skoða í víðtæku efnahagslegu samhengi.

Ég velti því fyrir mér hvað valdi því, hvað skýri það að hagsmunagæslumenn fyrir þjóðina, að fulltrúar ríkisvaldsins, stjórnarmeirihlutans, vilji hafa þennan ávinning af íslenskum skattgreiðendum. Þessi stofnun er að skila milljörðum í vasa skattgreiðenda. Hvers vegna að hafa þennan hagnað af þjóðinni, af skattborgaranum, til að beina honum í vasa einkaaðilanna?

Ég vil fá svar við spurningunni um Kárahnjúka, hundruða milljarða fjárfestingu og inngrip í atvinnulífið. Getur verið að talsmenn frjálshyggjunnar séu blindir þegar að þessu kemur? Ég vil fá svar við þessu.