131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Ályktun ASÍ um efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.

[15:08]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í áhrif efnahagsstefnu ríkisstjórnar hans á kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.

Sérhver ríkisstjórn, þessi hefur ekki verið nein undantekning þar frá, hefur kostað kapps um að hafa sem best samstarf við verkalýðshreyfinguna og reyna að ná sem mestum stöðugleika á vinnumarkaði. Stöðugleikann sem við höfum búið við í efnahagslífinu síðustu missiri má að mestu leyti rekja til þess að þetta hafi tekist, ekki síst vegna þess að stjórn og stjórnarandstaða hafa borið gæfu til að taka höndum saman í þessu efni.

Nú bregður svo við að nýr forsætisráðherra hefur sest að völdum og hefur í fyrsta skipti lagt fram efnahagsstefnu sína í fjárlagafrumvarpi sem ríkisstjórn hans stendur að. Þá vill svo til að verkalýðshreyfingin rís upp til harðra mótmæla. Miðstjórn ASÍ hefur samþykkt ákaflega harðorða ályktun þar sem sagt er að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar setji forsendur kjarasamninga í uppnám og hún leggi grunn að djúpstæðri deilu við verkalýðshreyfinguna um markmið og leiðir í kjara- og velferðarmálum. Það er sérstaklega tekið fram í hinni harkalegu ályktun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands að skattastefna núverandi ríkisstjórnar verki líkt og olíu sé hellt á eld.

Það er mjög sjaldgæft, herra forseti, að verkalýðshreyfingin grípi til svo sterkra andmæla við efnahagsstefnu nokkurrar ríkisstjórnar. Ég spyr hæstv. forsrh.: Hvernig hyggst hann bregðast við því að verkalýðshreyfingin telur að efnahagsstefna ríkisstjórnar hans muni setja forsendur kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í uppnám?