131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Verkfall kennara og stofnun Hávallaskóla.

[15:29]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Nei, ríkisstjórnin mun ekki blanda sér í þessa deilu. Það er alveg ljóst að grunnskólar landsins eru á forræði sveitarfélaganna og ég vil taka undir það sem til að mynda borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti samhljóða, að ef hugsanlega eitthvað er óuppgert á milli ríkis og sveitarfélaga varðandi ýmsan rekstur sem hefur verið að færast á milli ríkis og sveitarfélaga á ekki að gera það upp á grundvelli kjarasamninga heldur á að taka það upp á öðrum vettvangi.

Ríkisstjórnin mun ekki blanda sér í þessa deilu. Ég vil líka minna þingheim á að síðan grunnskólinn færðist yfir til sveitarfélaganna hefur fundist lausn á slíkri kjaradeilu, tvisvar áður hafa sömu deiluaðilar náð saman svo ég hef enga trú á öðru en að sömu deiluaðilar og eru að fást við þetta erfiða verkefni nú nái endum saman. Það er von mín.

Varðandi Hávallaskóla verð ég að viðurkenna að ég heyrði fyrst um þetta í fréttum og mun að sjálfsögðu athuga starfsemi skólans.