131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Skipun nýs hæstaréttardómara.

[15:52]

Jónína Bjartmarz (F):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra, settur dómsmálaráðherra, hefur lýst því yfir að hann hafi fylgt sannfæringu sinni og samvisku við skipun nýjasta dómarans í Hæstarétt Íslands. Ég dreg það í sjálfu sér ekki í efa, dreg það að sjálfsögðu ekki í efa. Ýmsir sem komu að þeirri umræðu áður en skipað var völdu hins vegar þá leið að fara að halda með, að tala fyrir og halda með einstökum umsækjendum líkt og menn gera með liðum í fótboltanum og um leið að tala gegn öðrum umsækjendum um hæstaréttardómarastöðuna.

Ég held hins vegar með lögunum, herra forseti, og ég hef sterka sannfæringu fyrir því að það sé affarasælast fyrir þá sátt sem þarf að ríkja um Hæstarétt og fyrir trúverðugleika réttarins. Í íslensku samfélagi þarf að ríkja almenn og víðtæk trú á að dómstólarnir starfi sjálfstætt og að þeir séu óháðir öðrum þáttum ríkisvaldsins.

Dómstólalögin mæla fyrir um að Hæstiréttur skuli veita ráðherra umsögn um hæfi og hæfni umsækjenda og samkvæmt meginreglum stjórnsýslulaganna ber ráðherra að fara eftir þeirri umsögn, sem enda hefur lengstum verið þannig úr garði gerð að ráðherra hefur haft tiltekið svigrúm. Ef þingmenn eru á hinn bóginn ósáttir við lögbundið fyrirkomulag eins og það að Hæstiréttur meti hæfi og hæfni eða eins og menn hafa orðað það við það fyrirkomulag að Hæstiréttur velji samstarfsmenn sína og eftirmenn er eðlilega leiðin hér á hinu háa Alþingi að huga að því að breyta dómstólalögunum í einhverja þá veru sem ríkari sátt getur orðið um og tryggi jafnframt áfram þrískiptingu ríkisvaldsins og sjálfstæða, óháða dómstóla. (Gripið fram í: ... skipan ráðherra.)