131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[16:48]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þm. Birki Jóni Jónssyni hvað það varðar að þjónusta Símans mætti vera betri, GSM- og internetþjónusta víða um land.

Ég vil spyrja hv. þm. um hver beri ábyrgðina á ástandinu. Er það bara Síminn einn og sér? Hver stjórnar Símanum? Er þetta ekki hlutafélag þar sem eigandinn ræður? Eru það ekki einmitt stjórnvöld, sem hv. þm. styður, sem bera ábyrgðina á ástandinu og hvernig þjónustan er rekin? Það hlýtur að vera.

Það er ekki hægt að tala um Símann eins og hann sé sjálfstæður og komi eigendunum ekkert við. Þetta er í rauninni bara stefna stjórnvalda sem lýsir sér í ástandinu, að ekki er t.d. símasamband á þjóðvegi 1. Hæstv. ríkisstjórn ber ábyrgð á því.

Síðan talar hv. þm. um að enginn hefði átt að velkjast í vafa um hver afstaða Framsóknarflokksins var fyrir síðustu kosningar. Það er nú eins og mig minni, ég vona að hv. þm. Birkir Jón Jónsson leiðrétti mig ef mig misminnir, að Framsóknarflokkurinn hafi einmitt viljað undanskilja grunnnetið við söluna á Símanum fyrir síðustu kosningar. Er það ekki rétt? Enda væri það algjör fásinna (JBjarn: Það voru sumir framsóknarmenn ...) — já, voru það sumir framsóknarmenn? — fyrir þá sem vilja samkeppni á fjarskiptamarkaði að undanskilja ekki grunnnetið. Það gerðum við varðandi raforkuna þegar við breyttum raforkulögunum. Það ættum við líka að gera, við sem viljum samkeppni á fjarskiptamarkaði, ef við meinum eitthvað með því sem við segjum.