131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[17:26]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er ljóst að ég og hv. þm. erum sammála um að við klárum ekki að byggja upp grunnnetið, dreifikerfi, flutningskerfi fjarskipta á Íslandi, í eitt skipti fyrir öll. Það er jafnframt misskilningurinn í þessu ágæta frumvarpi þar sem lögð er áhersla á að fresta sölu Símans þar til lokið er uppbyggingu grunnnetsins. Ég vil meina að við gerum það aldrei í eitt skipti fyrir öll og hv. þm. síðasti ræðumaður tók undir það. En af því að við gerum það ekki er ljóst að meginatriðið er ekki endilega að undanskilja dreifikerfið við sölu Landssímans heldur að tryggja að ávallt sé gert ráð fyrir því að áfram verði haldið að byggja upp eftir því sem tækninni fleygir fram. Grunnurinn fyrir þá ákvörðun þingflokks framsóknarmanna er að samfara sölunni skuli gengið frá því í samkomulagi stjórnarflokkanna að til þess verði tryggt fjármagn.

Það er ekki arðbært fyrir fjarskiptafyrirtækin að byggja upp grunnnetið í hinum dreifðari byggðum en þarf að vera tryggt að áfram verði haldið að gera það til að tryggja samkeppnisgrundvöllinn til hagsbóta fyrir neytendur. Þingflokkur Framsóknarflokksins ákvað, þegar hann samþykkti að leggja fram frumvarpið um söluna, að forsendan væri að þetta væri tryggt.

Ég minni hv. þm. á að hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra tók undir þau sjónarmið í umræðunni á dögunum, þegar mikið gekk á í fjölmiðlum um Landssímann og sölu hans, að það væri sjálfsagt að huga að því, þegar Landssíminn yrði seldur, að tryggja áframhaldandi uppbyggingu. Það er til að tryggja hagsmuni hinna dreifðu byggða og einnig öryggi þeirra sem búa á þéttbýlissvæðunum, á höfuðborgarsvæðinu og þeirra sem eru á ferð um landið, öryggi útlendinga sem ferðast. Gæta þarf að fjarskiptakerfi hinna dreifðari byggða þar sem ekki er hagkvæmt fyrir einkafyrirtæki að leggja í kostnað.